Búminjasafn
Þriðjudaginn 06. nóvember 1990


     Ingi Björn Alberssson :
    Hæstv. forseti. Það er kannski ekki miklu við þetta að bæta. Ég heyri að menn vita upp á sig skömmina og það er gott. Ég vil samt segja vegna lokaorða hv. síðasta ræðumanns: Jú, vissulega stefni ég að því að verða þingmaður Reykjavíkur en ég stefni líka að því að verða áfram þingmaður þjóðarinnar. Og það er það sem ég held að margir ættu að hafa ofarlega í huga, þeir eru ekki einungis kjördæmaþingmenn.
    Það var svolítið fróðlegt að fá þessa lexíu um hvað verður um þingmál í nefndum, þáltill. Þær till. sem menn þora ekki hreint og beint að svæfa senda þeir til svæfingarlæknisins, sem er ríkisstjórnin, að mati hv. síðasta ræðumanns. Þetta er mjög athyglisvert og sérstaklega í ljósi þess nefndarálits sem ég las hér upp áðan og hv. þm. skrifaði undir og tók þátt í þá er kannski fróðlegt að rifja það upp að með stuðningi þess hv. þm. í nefndinni hefði þessi till. verið samþykkt.
    Hjörleifur Guttormsson, formaður þeirrar nefndar, tók þátt í umræðunni fyrir tveimur árum og lýsti stuðningi við þetta. Hann lýsti stuðningi við þáltill. Hreggviður Jónsson, flokksbróðir minn, gerði það líka. Og Kvennalistinn, með Þórhildi Þorleifsdóttur þarna inni, gerði það líka. Með atkvæði hv. 1. þm. Vesturl. hefði málið því verið samþykkt og ekki þurft að fara til svæfingar.
    Það var skondið að heyra aðdragandann að frv. þeirra hér um árið, það var skondið. Og enn er farið frjálslega með sannleikann, eða öfugt. Hv. þm. sagði að par dögum áður en þeirra frv. kom fram hafi ég komið með þáltill., par dögum áður. Og þá hafi þeir tveir verið með frv. í höndunum. Ætlar hv. þm. virkilega að bera þetta á borð fyrir þingheim? Ég á upphaflegu þáltill. undirritaða af öðrum ykkar, það var sko ekkert frv. í höndunum á ykkur þá. Ekki til í dæminu. En þetta er hins vegar dæmi um þann málflutning sem hér er hafður í frammi.