Flm. (Geir H. Haarde) :
    Ég mæli hér fyrir frv. um leiðréttingu á afturvirkum ákvæðum í tvennum lögum sem samþykkt voru hér á sl. ári og bæði vörðuðu breytingu á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og snerta útreikning húsnæðisbóta og vaxtabóta auk vaxtaafsláttar. Þessi lög sem um ræðir eru nr. 79/1989 og nr. 117/1989.
    Þetta er ekki í fyrsta sinn, virðulegur forseti, sem þessi mál koma hér til umræðu á Alþingi. Síðast varð umræða um þessi atriði sl. fimmtudag í tilefni af fyrirspurn er ég bar fram til fjmrh. um það hvort hann hygðist beita sér fyrir nokkrum leiðréttingum í þessu efni. Þá kom fram að fjmrh., sem ber ábyrgð á þessum afturvirku breytingum sem ég vil leiðrétta með þessu frv., hefur í nokkru séð að sér að því er ég best skildi og hyggst beita sér fyrir einhvers konar úrlausn gagnvart hluta þeirra manna sem hér eiga hlut að máli, þó ekki öllum.
    Auðvitað væri eðlilegast, virðulegi forseti, að fjmrh. væri hér og tæki þátt í umræðum um þetta mál. En þar sem við áttum orðaskipti um efnisatriði málsins sl. fimmtudag ætla ég ekki að gera kröfu um að hann verði sérstaklega kallaður til. En auðvitað væri eðlilegast, fyrst ráðherrann á annað borð er kominn á þá skoðun að hann hafi gert mistök og afturvirknin sem um ræðir sé óréttlætanleg, a.m.k. eitthvað af henni, þá væri eðlilegast að það frv. sem nú er mælt fyrir hlyti samþykki þannig að allur sá hópur manna sem hér á hlut að máli fengi leiðréttingu og fjmrh. tæki höndum saman við flutningsmann og aðra áhugamenn um þetta mál um að breiða yfir þau mistök sem orðið hafa og eru á ábyrgð fjmrh. og ríkisstjórnar og leiðrétta þau.
    Nú er það þannig, virðulegur forseti, að þegar flytja skal frv. um að leiðrétta tiltekin ákvæði í skattalögum koma tvær leiðir til álita. Í fyrsta lagi að flytja sérstök ákvæði í skattalög, bráðabirgðaákvæði, um að gera ákveðnar leiðréttingar og breytingar á þeim lögum. Sú leið varð ekki fyrir valinu í þessu tilviki. Í þessu tilviki er valin sú leið að flytja sérstakt lagafrv., frv. til sérstakra laga um þá leiðréttingu sem hér um ræðir, en þau lög yrðu þá búin að gegna sínu hlutverki þegar leiðréttingin væri komin til framkvæmda að öllu leyti. Þannig þyrfti ekki að láta slík bráðabirgðaákvæði sitja í skattalögunum til frambúðar heldur afgreiða málið með sérstökum lögum sem hafa þennan ákveðna tilgang og hafa síðan þjónað tilgangi sínum þegar ákvæðin hafa náð fram að ganga, leiðréttingin komið til framkvæmda.
    Eins og ég hef getið um snerta ákvæði frv. annars vegar þá sem rétt áttu á húsnæðisbótum þegar þeir gerðu fjárhagslegar ráðstafanir til húsnæðisöflunar á árinu 1988 og fyrri hluta árs 1989, en sömuleiðis þá sem áttu rétt á vaxtaafslætti, þegar þeir gerðu sínar ráðstafanir til húsnæðisöflunar, eða vaxtabótum á grundvelli ákvæða sem þá giltu. En með lögum nr. 117/1989, sem tóku gildi 28. des. það ár, var skilgreiningu vaxtaútgjalda breytt til þrengingar þannig að

stór hópur manna sem á öllu því ári hafði í góðri trú gert sína útreikninga á grundvelli laganna eins og þau voru þá sat uppi með sárt ennið vegna þess að þessi þrengri skilgreining var samkvæmt þessum lögum látin gilda illu heilli 12 mánuði aftur í tímann, fyrir allt árið 1989, þó svo lögin væru ekki birt fyrr en 28. des. það ár.
    Ég hef leyft mér að segja að skattalög af þessu tagi séu hið versta siðleysi og það fái ekki staðist að refsa skattborgurunum og íþyngja þeim með ákvæðum sem virka með þessum hætti aftur í tímann. Menn geta haft misjafnar skoðanir á lögum sem gilda með eðlilegum hætti fram fyrir sig. Það er ekkert við því að segja þó að breytingar séu gerðar á ákvæðum í lögum fram í tímann, hvort sem um er að ræða réttindi eða skyldur manna. Lögum er að sjálfsögðu hvenær sem er hægt að breyta með framvirkum hætti. En í því réttarríki sem við viljum telja að Ísland sé á ekki að vera hægt að breyta lögum eins og hér hefur verið gert með afturvirkum hætti.
Þess vegna gerir þetta frv., herra forseti, ráð fyrir því í 1. gr. að þeir sem áttu rétt á húsnæðisbótum á árinu 1988 en fengu þær einungis til eins árs vegna laga nr. 79/1989 geti, ef það hentar þeim betur, fengið þær bætur með þeim hætti sem lögin gerðu ráð fyrir á árinu 1988, þ.e. að hámarki til sex ára. En einnig að þeir sem áttu rétt á húsnæðisbótum fyrri hluta árs 1989, áður en lög nr. 79 voru samþykkt, geti með sama hætti fengið húsnæðisbætur ef það hentar þeim betur en þær vaxtabætur sem í staðinn komu. Það fólk gat ekki með nokkru móti vitað að til stæði að breyta ákvæðunum um húsnæðisbætur, en þetta fólk var skilið eftir algerlega á köldum klaka og fékk ekki húsnæðisbætur í eitt einasta sinn, en þeir sem voru í þessari stöðu á árinu 1988 fengu þó bæturnar í eitt ár.
    Nú má þó vel vera að einhverjum þessara aðila henti betur og hafi gagnast betur að fá vaxtabætur í staðinn en það breytir ekki því grundvallaratriði að það er siðleysi að koma með þessum hætti aftan að fólki og það er eðlilegt að þetta fólk geti þá valið hvort því henti betur húsnæðisbæturnar eins og þær voru eða hinar nýju vaxtabætur sem til komu með lögum nr. 79/1989.
    Í 1. gr. frv. eru ákvæði um hvernig standa skuli að þessari leiðréttingu. Skattyfirvöld hafa upplýsingar um alla þá aðila sem fengu á árinu 1989, vegna tekjuársins 1988, úrskurð um húsnæðisbætur í eitt ár. Þær upplýsingar liggja fyrir og því er sú kvöð lögð á skattstjóra í 1. gr. að þeir geri rétthöfum, sem hér eiga hlut að máli, grein fyrir hinum nýja rétti sínum og gefi þeim kost á að ákveða hvort þeir velja að fá þessar bætur samkvæmt ákvæðum greinarinnar eða ekki. Hins vegar er sérstakt ákvæði um að þeir sem koma við þessa sögu á fyrri hluta árs 1989, en ekki er vitað hjá skattyfirvöldum hverjir eru, gefi sig fram og sæki sérstaklega um að fá bæturnar greiddar með þessum hætti og þá í því formi eða á því eyðublaði sem ríkisskattstjóri ákveður.
    Það þykir eðlilegt að setja ákveðna fresti í þessu sambandi og þeir koma fram í greininni. Að því er

varðar þá sem þurfa að sækja um leiðréttingu samkvæmt ákvæðum greinarinnar er gert ráð fyrir því að þeir geri það í síðasta lagi með skattframtali á árinu 1991, en þeir sem skattyfirvöldum ber að tilkynna um réttinn hafi frest allt þar til kærufrestur samkvæmt 99. gr. skattalaga rennur út vegna álagningar á næsta ári.
    Í 2. gr., virðulegi forseti, er síðan fjallað um vaxtabætur og vaxtaafslátt. Þar eru sambærileg ákvæði um að afturvirkni nái ekki fram að ganga og þeir sem borið hafa skarðan hlut frá borði í þessu efni geti leitað til skattstjóra og sótt um leiðréttingu sinna mála. Jafnframt er sérstakt ákvæði í 1. mgr. um að hin afturvirka skilgreining á vaxtaútgjöldum, sem til framkvæmda kom 28. des. á síðasta ári og gilti fyrir allt árið, falli niður. Hún gildi ekki fyrir það ár. Hún gildi sem sagt eingöngu fram í tímann fyrir árið 1990 en ekki aftur í tímann fyrir gildistöku laganna, þ.e. árið 1989.
    Gert er ráð fyrir því að menn geti sótt um leiðréttingu í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður innan þess frests sem settur er í greininni, þ.e. eigi síðar en með skattframtali sínu á árinu 1991. Og sama gildir um þá sem hefðu átt rétt til vaxtaafsláttar en voru sviptir honum vegna ákvæða í 3. gr. laga nr. 79/1989, afturvirkt. Þeir aðilar geti sótt um leiðréttingu sinna mála sömuleiðis eigi síðar en með skattframtali á árinu 1991.
    Þetta eru, virðulegi forseti, meginefnisatriði frv. En vegna þess að hér er gert ráð fyrir sérstökum lögum um þetta efni en að þetta verði ekki ákvæði í hinum almennu skattalögum, þá ber nauðsyn til þess að ákveða það með 4. gr. frv. að hin almennu ákvæði skattalaganna um málsmeðferð og almennan rétt manna séu hin sömu og gilda í skattalögum almennt. Þess vegna er kveðið á um það í 4. gr. að ákvæði c - liðar 49. gr. og ákvæði VIII. -- XIV. kafla hinna almennu skattalaga haldi gildi sínu gagnvart þeim aðilum sem hér eiga hlut að máli eftir því sem við getur átt. 3. gr. frv. aftur á móti, virðulegi forseti, er afleiðing hinnar 1. og kveður á um að tiltekið bráðabirgðaákvæði í lögum nr. 79/1989 falli brott.
    5. gr. er síðan gildistökuákvæði þar sem kveðið er á um það að lög þessi öðlist þegar gildi en komi jafnframt þegar til framkvæmda. Með öðrum orðum að skattstjórum sé gert skylt að hefjast þegar handa um að hrinda þessum leiðréttingum í framkvæmd, þó svo að gert sé ráð fyrir að þau verði komin til framkvæmda eigi síðar en á næsta ári með skattálagningu þess árs. Það verði sem sagt hafist handa þegar í stað, ýmist að tilkynna mönnum um rétt þeirra samkvæmt þessum lögum, eða auglýsa að menn geti sótt um leiðréttingu á grundvelli ákvæða þessara laga, ef frv. nær fram að ganga.
    Út af fyrir sig má segja að efnisatriði þessa frv. skýri sig að öðru leyti sjálf. Það liggur fyrir hvað vakir fyrir flm. með þessu frv. Það sem fyrir honum vakir er að tryggja að þeir einstaklingar, sem urðu fyrir barðinu á afturvirkni skattalaganna, nái rétti sínum. Reyndar var flutt frv. hér á síðasta þingi til að reyna að koma í veg fyrir að hin afturvirku ákvæði

næðu fram að ganga, áður en þau komu til framkvæmda, en það frv. náði ekki fram að ganga. Og þá var ekki á fjmrh. að skilja að hann teldi tilefni til sérstakra leiðréttinga vegna þessara ákvæða sem þá var bent á. Nú er látið á þetta reyna enn á ný. Það er vissulega fagnaðarefni að fjmrh. skuli þrátt fyrir allt hafa hér í umræðunni sl. fimmtudag gefið í skyn að hann gæti fallist á tilteknar leiðréttingar í þessu máli.
    Ég vil taka það fram að auðvitað skiptir það höfuðmáli að efnisatriði frv. nái fram að ganga, þó svo vera megi að framsetning tiltekinna lagaákvæða geti verið önnur en í þessu frv. er kveðið á um. Og ég er að sjálfsögðu til samninga og viðræðna um orðalagsbreytingar eða önnur slík atriði, komi í ljós að einhverjir hnökrar kunni að vera á frumvarpstextanum eins og hann er í dag, ef það má verða til þess að frv. nái efnislega fram að ganga. En það er auðvitað hinn efnislegi ásetningur og tilgangur frv. að bæta öllum þeim, sem urðu fyrir barðinu á þessum ákvæðum, tjónið en ekki bara sumum þeirra. Það má vel vera að hv. fjh. - og viðskn. eða fjmrn. þyki ástæða til þess að hnika til orðalagi eða gera einhverjar minni háttar breytingar á þessum greinum og er ég, eins og ég segi, til viðræðna og samkomulags um allt slíkt ef það bitnar ekki á efnislegum tilgangi frv.
    Það hefur komið í ljós, virðulegi forseti, eins og ég spáði þegar við ræddum þetta mál á síðasta þingi, að við álagningu á síðasta sumri vaknaði stór hópur fólks upp við vondan draum. Það er nefnilega þannig þegar verið er að breyta skattalögum á hinu háa Alþingi að það er ekki stór hópur manna sem hefur það á hraðbergi með hvaða hætti slíkar breytingar hafa áhrif á hag þeirra. Þess vegna benti ég fjmrh. á það hér á síðasta vori að það væri ekki nóg með það að við flm. þess frv. vissum ekki hvað hér ætti margt fólk hlut að máli, og vera mætti að þeir væru býsna fáir, heldur væri það einnig svo að þeir sem ættu hlut að máli vissu það ekki sjálfir vegna þess að það kæmi ekki í ljós fyrr en við álagninguna í ágústmánuði. Þetta kom á daginn. Og fjöldi manna hafði samband við mig til að mynda þegar það rann upp fyrir fólki hvað gerst hafði með ákvæðum laga nr. 75/1989 og nr. 117/1989. Það rann ekkert upp fyrir fólki fyrr en það fékk álagningarseðla sína í hendur hvað hér hafði gerst á Alþingi á síðasta ári. En þá sáu menn auðvitað í hendi sér að hefði frv. það sem við fluttum hér á síðasta vori verið samþykkt hefði mátt koma í veg fyrir þessi afturvirku ákvæði, koma í veg fyrir að þau næðu að taka gildi. Þess vegna var það á síðasta sumri, eftir að álagningin kom fram, að fréttir voru nokkrar fluttar af þessu máli og einstakir þolendur þessara ákvæða skrifuðu m.a. í blöð og létu það koma fram hvert tjón þeirra hefði orðið. Og mér er kunnugt um það að a.m.k. einn aðili ef ekki fleiri hefur skrifað umboðsmanni Alþingis og óskað eftir áliti hans á því hvort afturvirk ákvæði, eins og hér er um að tefla, fái staðist ákvæði stjórnarskrárinnar. Og eins og hefur margoft komið fram í mínu máli, þá efast ég um að svo sé.
    Hins vegar er auðvitað einfaldasta leiðin til þess að

leiðrétta þetta og til þess að koma í veg fyrir að slík mál haldi áfram til dómstóla, eins og vænta má að óbreyttu, að samþykkja þetta frv., annaðhvort óbreytt eða með einhverjum smávægilegum breytingum ef menn sjá á því einhverja lögfræðilega hnökra eða annmarka sem ástæða væri til að leiðrétta án þess að gera á því efnisbreytingar.
    Fjmrh. sagði í sjónvarpsviðtali í ágústmánuði sl., þegar þetta mál kom upp, að það kæmi til greina að skoða einhverjar breytingar ef hér væri um að ræða stóran hóp fólks, ef hér væri um að ræða fólk sem hefði litlar tekjur og ætti ekki miklar eignir. Eða eins og hann sagði orðrétt: ,,Fólk sem hefur með eðlilegum hætti rétt á því að þess mál sé skoðað sérstaklega.`` Með þessum ummælum kemur auðvitað glöggt fram hverjar skoðanir hæstv. fjmrh. eru á hinni almennu jafnræðisreglu íslenskra laga, sem sé þeirri reglu að allir skuli jafnir fyrir lögunum, vegna þess að í þessu máli kemur fram að það sé allt í lagi að beita afturvirkum ákvæðum skattalaga gegn fólki ef það er ekki stór hópur fólks eða ef það er fólk sem hefur sæmilegar tekjur eða á einhverjar eignir. Það sé allt í lagi að beita afturvirkni gegn því fólki ef það eru ekki einhverjar sérstakar aðstæður hjá slíku fólki. Þetta er auðvitað alger siðblinda að mínum dómi gagnvart þessari jafnræðisreglu íslenskra laga og gagnvart því fólki sem þarna á hlut að máli og kemur ekki til greina að samþykkja að farið sé í eitthvert geðþóttamat á því hverjir eigi að fá leiðréttingu vegna afturvirkninnar og hverjir ekki. Þess vegna er eðlilegast, eins og ég hef marglátið koma hér fram, að samþykkja með sérstökum lögum leiðréttingu vegna þessara ákvæða sem nái til allra þeirra sem hlut eiga að máli, ýmist með því að skattstjórar tilkynni fólki um sinn rétt eða þá að fólki sé gefinn kostur á að sækja um leiðréttinguna í því formi sem hér er gert ráð fyrir.
    Fjmrh. hefur með ýmsum útúrsnúningum reynt að gera lítið úr því að hér sé um afturvirk ákvæði að ræða. En ég spyr: Hvernig er annað hægt en að tala um afturvirkni þegar lög eru samþykkt 28. des., taka gildi 28. des. en gilda fyrir allt árið? Ef það er ekki afturvirkni í skattalögum, þá hygg ég að virðulegur ráðherra verði að leita sér fulltingis hjá Orðabók Háskólans eða einhverjum slíkum aðila til þess að fá úr því skorið hvað orðið afturvirkni þýðir í skattalögum. Reyndar þýðir ekki að fara hér í einhvern orðaleik um það mál. Þetta er hagsmunamál sem brennur á fjölda manns og þessi ákvæði hefðu aldrei átt að koma inn í lögin með þessum hætti, hvað svo sem líður réttmæti þeirra fram í tímann. Því ber brýna nauðsyn til að leiðrétta þessi ákvæði og þessi atriði þannig að það fólk, sem hér átti hlut að máli, komi skaðlaust frá þessum ákvæðum og þessum skattabreytingum sem ríkisstjórnin og fjmrh. sérstaklega bera fulla ábyrgð á.
    Ég hyggst ekki hafa þessa framsögu lengri, virðulegi forseti, þó að vissulega hefði verið ánægjuefni að geta tekist á við fjmrh. um þessi mál enn á ný. Það gefst væntanlega tækifæri til þess síðar. Ég vil því ljúka máli mínu með því að leggja til, virðulegi forseti, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. fjh. - og viðskn. og jafnframt beina þeim eindregnu tilmælum til nefndarinnar að hún taki þetta mál fyrir í fullri alvöru, eins og ég reyndar gerði þegar ég flutti sambærilegt mál á síðasta þingi. En nú er sérstakt tilefni til þess þegar í ljós er komið hversu margir eiga hér hlut að máli og hversu brýnir þeirra hagsmunir eru.