Öryggi í óbyggðaferðum
Fimmtudaginn 08. nóvember 1990


     Dómsmálaráðherra (Óli Þ. Guðbjartsson) :
    Hæstv. forseti. Hv. 6. þm. Reykv. beinir til mín svofelldri fsp. á þskj. 58:
    ,,Hvaða ráðstafanir hafa verið gerðar til að bæta öryggi þeirra sem ferðast í óbyggðum, sbr. ályktun Alþingis frá 22. febrúar 1990?``
    Síðla sumars voru tveir menn, annar úr dómsmrn. og hinn úr samgrn., skipaðir í nefnd til þess að gera tillögur um það hvernig öryggi manna í óbyggðaferðum verði best tryggt. Nefndin hefur haldið nokkra fundi og kallað fyrir sig fjölmarga aðila sem málinu tengjast. En verkefnið er þess eðlis að hafa þarf samráð við ýmsa aðila. Þegar hefur verið rætt við fulltrúa frá Landssambandi hjálparsveita skáta, Félagi leiðsögumanna, Landssambandi flugbjörgunarsveita, Ferðamálaráði, Náttúruverndarráði, menntmrn., Vegagerð ríkisins, Ferðafélagi Íslands, Slysavarnafélagi Íslands og Landhelgisgæslunni. Þá mun nefndin ræða við fjölmarga aðila til viðbótar sem tengjast málinu nú næstu daga.
    Ég er þess fullviss að nefndin mun ljúka störfum innan þess frests sem henni var settur, til 1. des. nk., þó segja megi að það hafi í sjálfu sér ekki verið langur tími. Meðal annars auðveldar það nefndinni störf hve fámenn hún er. Í byrjun desember mun því liggja fyrir allítarleg skýrsla með tillögum til úrbóta á þessu sviði.
    Mér er kunnugt um að almennt viðhorf þeirra sem komið hafa til viðtals við nefndina hnígur að því að efla fræðslu, ráðgjöf og upplýsingar fyrir ferðamenn, t.d. með betri merkingu vega, með því að taka upp daglegar veðurlýsingar á erlendu máli í útvarpi yfir sumarmánuði, með markvissari tilkynningaþjónustu, bættum fjarskiptamöguleikum og fleiru. Þá eru menn fylgjandi auknu eftirliti af hálfu löggæslu en nokkur ár eru síðan byrjað var á sérstöku eftirliti uppi á hálendinu. Hins vegar virðast hugmyndir um að takmarka ferðir, t.d. með tilkynningaskyldu, kaupum á tryggingu og fleiru, eiga litlu fylgi að fagna. Ég vil þó af því tilefni taka fram að mín skoðun er sú að það sé meira en athugunarvert.
    Það er sem sé stefnt að því að leggja fram skýrslu um úrræði til að auka öryggi þeirra sem ferðast í óbyggðum í desember nk. eins og ég hef áður nefnt.