Öryggi í óbyggðaferðum
Fimmtudaginn 08. nóvember 1990


     Fyrirspyrjandi (Kristín Einarsdóttir) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka svör hæstv. ráðherra og fagna því að það hefur verið tekið á þessu máli þó að mér finnist nokkuð seint farið af stað og þar af leiðandi kannski fremur lítill tími til að athuga þessi mál. En auðvitað þarf að athuga þetta mjög vel og ekki flana að þessu fremur en öðru.
    Ég get alveg tekið undir það sem hæstv. ráðherra sagði að ekki er gott að vera með mikið af boðum og bönnum, og það tókum við flm. fram þegar þessi till. var flutt, að við mælum ekki með ferðabanni. Ég tel það ekki rétt. Hins vegar getur verið réttlætanlegt að loka ákveðnum svæðum í undantekningartilvikum annaðhvort vegna óveðurs eða snjóflóðahættu eða ef einhverjar sérstakar aðstæður skapast. Ég held því að það sé ekki rétt að takmarka ferðir fólks í neinum verulegum mæli nema þá sérstakar aðstæður bjóði. Fræðsla og ráðgjöf og möguleikar fólks til þess að geta tilkynnt sig og fræðsla um það hvar hægt er að fá upplýsingar og ráðgjöf er mjög mikilvægt. Ég vona að þessu máli verði fylgt eftir og það komi eitthvað raunhæft út úr þessu, því fyrr, því betra.