Varaflugvöllur vegna alþjóðaflugs
Fimmtudaginn 08. nóvember 1990


     Fyrirspyrjandi (Guðmundur H. Garðarsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir góð svör við minni fyrirspurn og vek athygli á því að af minni hálfu og hv. þm. Egils Jónssonar var meira um að ræða heldur en áhuga á sínum tíma þegar lögð var fram þáltill. í nóv. 1988 varðandi varaflugvöll á Íslandi. Það var raunverulega skylda okkar sem allra annarra hv. þm. að fjalla um málið á þeim tíma með þeim hætti sem gert var. Þó verð ég að segja það, virðulegi forseti, að það er annar blær á þessari umræðu og svörum ráðherra nú heldur en þegar þessi umræða var hér á hinu háa Alþingi veturinn 1988 -- 1989 þegar allt var gert til þess að reyna að gera þetta mál okkar tortryggilegt og blandað inn í það óskyldum málum eins og þeim sem ráðherra kom m.a. inn á áðan, að hér væri fyrst og fremst um áhuga að ræða af okkar hálfu varðandi varaflugvöll eða flugvöll vegna hernaðaratriða. En það kom skýrt fram hjá ráðherra að hann hefur greinilega lært það í sínu embætti að þörfin fyrir varaflugvöll vegna Íslendinga sjálfra og annarra var þess eðlis að það var ekki hægt að blanda því saman.
    Hæstv. ráðherra sagði að ekkert hefði verið gert í þessum málum fyrr en núv. hæstv. ríkisstjórn kom til valda haustið 1988. Það er auðvitað hinn mesti misskilningur og alrangt vegna þess að í tíð annarra ráðherra sem fjölluðu um samgöngumál hafði verið unnið að þessum málum, eins og hv. þm. muna og þær umræður sem voru hér veturinn 1988 og 1989 sanna, þannig að það er ekki þessari hæstv. ríkisstjórn að þakka að það skuli hafa gerst núna í tíð hennar sem hæstv. ráðherra var að tíunda þótt svo hann hafi látið útbúa skýrslu í ársbyrjun 1989 til að fjalla um þessi mál. Mér finnst rétt að þetta komi fram þannig að hann vaði ekki í þeirri villu að hann, hæstv. samgrh., hafi komið þessum málum í höfn með þeim hætti sem hann lýsti þó ég viðurkenni auðvitað hlut hans í því í hans núverandi valdatíð.
    Varðandi svar ráðherra, þar sem hann fjallar einkum um Akureyrarflugvöll, vil ég minna á það að í skýrslu og áliti flugmanna varðandi varaflugvöll á Íslandi töldu þeir að þótt Akureyrarflugvöllur gæti við ákveðnar kringumstæður gegnt þessu hlutverki þá væru þar ýmsir annmarkar á. Þeir flugmenn, sem sendu skýrslu til þings um þetta mál, lögðu ef ég man rétt áherslu á að þar væri of þröngt og hæpið að treysta á Akureyrarflugvöll sem hinn eina varaflugvöll á Íslandi. Þess vegna var það sem við Egill Jónsson lögðum áherslu á það að Egilsstaðaflugvöllur yrði byggður upp sem varaflugvöllur. Ráðherra gat um það að svo hefði einnig verið gert sem er auðvitað í beinu framhaldi af okkar þáltill. og fagna ég því.
    Ég þakka sem sagt ráðherra enn á ný fyrir hans svör og vænti þess að því máli verði lokið sem að var stefnt þegar núv. ríkisstjórn kom til valda haustið 1988.