Varaflugvöllur vegna alþjóðaflugs
Fimmtudaginn 08. nóvember 1990


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Hæstv. forseti. Það er auðvitað alveg ástæðulaust að eyða tíma Alþingis í það að karpa um það hvurs er hvers og hvers var hvurs í þessum málum. Sagan mun leiða það í ljós þegar hún verður skrifuð. Ég sagði eingöngu það sem ég held að sé rétt og verði ekki á móti mælt, að það varð stefnubreyting með tilkomu ríkisstjórnar haustið 1988 vegna þess að því verður ekki á móti mælt að herflugvallarhugmyndirnar voru að þvælast fyrir mönnum í þessum málum. Menn voru til að mynda að hugsa um allt aðrar kröfur sem gera yrði til landrýmis og þvílíkra hluta heldur en nú er og sú stefnubreyting varð að horfið var frá því að bíða eftir slíku og farið að vinna markvisst að því að leysa þessi mál á þann hátt og með þeim forsendum sem okkur sjálfum hentaði og voru viðráðanlegar.
    Það er alveg rétt sem kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda að Akureyrarflugvelli eru takmörk sett vegna aðflugsskilyrða. Það þekkja menn og hafa hundrað sinnum farið í gegnum hér í þingsölum vegna mikillar umræðu um þetta undanfarin ár. Engu að síður er hann sá flugvöllur sem er langbest útbúinn til þess að þjóna varaflugvallarhlutverki eins og stendur og það er enginn vafi á því að það skynsamlegasta og besta sem við getum gert í þessum málum er að auka þannig rekstur og mannahald á vellinum að hann geti verið opinn allan sólarhringinn og þar með nýst íslensku flugfélögunum sem varaflugvöllur vegna áætlana á öllum tímum sólarhrings og öðru flugi sem hér fer um.
    Þetta snýst fyrst og fremst um aukið mannahald á vellinum, tvo flugumferðarstjóra eða tvo menn í flugturni og þrjá til fjóra starfsmenn á jörðu niðri plús ákveðin tækjakaup. Þetta þarf helst að gera strax þannig að á þessu ári og hinu næsta geti Akureyrarflugvöllur sinnt þessu hlutverki en síðan liggur það í hlutarins eðli að þegar hinn nýi Egilsstaðaflugvöllur kemur í gagnið á árinu 1992 --- í síðasta lagi skulum við vona --- þá er skynsamlegt að endurmeta þessar forsendur og taka nýjar ákvarðanir um rekstur annars vegar á Egilsstöðum og hins vegar á Akureyri. Auðvitað er það líka kappsmál að hraða þessari uppbyggingu á Egilsstöðum og sjá til þess að hún tefjist ekki á nokkurn hátt.
    Nú hefur orðið sú breyting á samsetningu íslenska millilandaflugflotans að þar eru engar vélar lengur sem ekki geta lent á 2000 metra flugbraut eða 1940 metra eins og er á Akureyri. Þær geta með prýði athafnað sig þar, en það eru fyrst og fremst aðflugsskilyrðin sem setja ákveðin takmörk hvað fráflug snertir frá vellinum og við það verður auðvitað að búa á meðan svo stendur og seint munu nú fjöllin verða flutt. En það sem aðallega takmarkar notagildi flugvallarins í dag er annars vegar opnunartíminn og hins vegar að geta með meira mannahaldi og tækjakosti haft brautaskilyrðin þannig á hverjum tíma, sérstaklega yfir vetrartímann, að bremsuskilyrði séu fullnægjandi.

    Ég held að ég hafi þá ekki meira um þetta að segja, hæstv. forseti, en vona að þetta hafi skýrt nokkuð málin og ég vænti stuðnings hv. þm. og fjárveitingavaldsins við þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru í formi fjárveitinga til þess að hægt sé að framkvæma þær tillögur sem ég hef gert grein fyrir.