Varaflugvöllur vegna alþjóðaflugs
Fimmtudaginn 08. nóvember 1990


     Kristinn Pétursson :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda þessa fsp. Vegna umræðna hérna vil ég láta þá skoðun mína í ljós að ég tel eðlilegt að við höfum samstarf varðandi varaflugvöll við þá aðila sem annast eftirlit hér á Íslandi væntanlega með afvopnun í framtíðinni. Hæstv. utanrrh. hefur bent á möguleika aukins hlutverks Íslendinga í eftirliti með afvopnun í framtíðinni og ég tel fullkomlega eðlilegt að íslenska þjóðin taki þátt í því eftirliti. Það eru skyldur okkar í samfélagi lýðræðisþjóðanna sem leggja það á okkar herðar að annast eftirlit með afvopnun, og allir vilja afvopnun, og er sjálfsagt að við tökum þátt í því.
    Það er rétt að minna á það í þessu sambandi að það eru 36 herflugvellir á Kolaskaga sem þarf að fylgjast með. Við skulum vona að þeim gangi vel þarna í átt til lýðræðis fyrir austan tjald en þetta er grátt fyrir járnum enn þá og er rétt að fylgjast með því. Og ég minni aftur á það að það er hlutverk okkar, vestrænna lýðræðisþjóða, að fylgjast með því að afvopnun fari fram og ég tel rétt að við störfum með þeim eins og við höfum gert.