Varaflugvöllur vegna alþjóðaflugs
Fimmtudaginn 08. nóvember 1990


     Karl Steinar Guðnason :
    Frú forseti. Ég vil að það komi hér fram að Atlantshafsbandalagið óskaði eftir því að reisa hér varaflugvöll árið 1985. Þá var utanrrh. hv. þm. Matthías Á. Mathiesen. Hann heyktist á því að afgreiða það mál. Það var óafgreitt þegar þessi ríkisstjórn tók við eða fyrri ríkisstjórn 1987. Hvers vegna það var geta menn getið sér til um en ég hygg að það hafi verið vegna þess að framsóknarmenn hafi ekki látið hann komast upp með það, hann hafi heykst vegna þess. Mjög líklegt er að vegna þeirra viðbragða hafi áhuginn minnkað fyrir því að byggja hér varaflugvöll. Síðan hefur það komið í ljós vegna umbyltingar í Evrópu að áhuginn hefur horfið en ég vil að það komi hreint til skila að ástæðan fyrir því að framkvæmdir voru ekki hafnar á sínum tíma var aðgerðaleysi utanrrh. Sjálfstfl. sem hreyfði þessu máli ekki neitt þrátt fyrir ítrekaðar óskir vinaþjóða okkar í Atlantshafsbandalaginu að byggja hér stóran varaflugvöll sem gæti þjónað sínu hlutverki á besta máta.