GATT-viðræður
Fimmtudaginn 08. nóvember 1990


     Fyrirspyrjandi (Pálmi Jónsson) :
    Virðulegi forseti. Fyrir fáum vikum birtust fréttir af tilboði íslensku ríkisstjórnarinnar um niðurskurð á stuðningi við íslenskan landbúnað í svokölluðum GATT - viðræðum. Ég heyrði fyrst af þessu í útvarpsfréttum í viðtali við hæstv. utanrrh. þar sem hann skýrði málið fyrir hönd hæstv. ríkisstjórnar. Þar var einnig talað við framkvæmdastjóra Stéttarsambands bænda. Fram kom að tilboðið hljóðar upp á það að framlög eða opinber stuðningur við landbúnaðinn hér á landi sé skorinn niður um allt að 65% á meðan um það var fjallað, til að mynda í EB - löndunum, að draga úr niðurgreiðslum á landbúnaðarvörur um 30%, sem þá var fellt af landbúnaðarráðherrum þeirra landa en hefur nú verið samþykkt, samkvæmt fréttum, lítið breytt.
    Þessar fréttir bárust sem sagt í fjölmiðlum án þess að þessi mál hefðu á nokkurn hátt komið til kasta Alþingis. Það hefur farið fram hjá Alþingi og er án vitundar þess það tilboð sem hér hefur verið lagt fram. Og það án tillits til þess að hér er verið að leggja fram tilboð sem ekki er um fjallað í íslenskum lögum. Fyrir því hef ég leyft mér að leggja fram þá fyrirspurn sem hér er á þskj. 69 til hæstv. forsrh. svohljóðandi:
 ,,1. Hver af ráðherrum ríkisstjórnarinnar fer með málefni landbúnaðarins í svokölluðum GATT - viðræðum?
    2. Telur forsrh. að ríkisstjórnin hafi umboð til að leggja fram tilboð í þessum viðræðum, sem ekki byggjast á íslenskum lögum, án þess að leita heimildar Alþingis?
    3. Telur forsrh. réttmætt að bjóða fyrir hönd Íslendinga meiri niðurskurð á opinberum stuðningi við landbúnaðinn en gert er af hálfu EB - þjóðanna?``