GATT-viðræður
Fimmtudaginn 08. nóvember 1990


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson) :
    Virðulegi forseti. Í stuttu máli sagt er nákvæmlega eins farið með þessa samninga og alla aðra alþjóðlega samninga sem við Íslendingar stöndum í. Utanrrh. fer að sjálfsögðu með forsvar þessa máls gagnvart GATT. Hins vegar verður ekkert þar lagt fram nema unnið hafi verið í samráði við landbrh. Þannig hefur þetta mál verið unnið hér. Þannig er það í öllum samningum. Þannig er það í samningum okkar núna milli EFTA og EB. Viðkomandi ráðuneyti útbúa viðkomandi mál í hendur utanrrh. sem svo leggur þau þar fram.
    Önnur spurning er hvort ég telji að ríkisstjórnin hafi umboð til að leggja fram í þessum viðræðum tillögur sem ekki byggjast á íslenskum lögum. Ég held að það sé varla hægt að segja að það byggist ekki á íslenskum lögum en í öllum þeim viðræðum sem við eigum í er um að ræða mál sem verða að koma fyrir Alþingi. Og mörg hver krefjast breytinga á lögum. Það gera t.d. samningar okkar eða tilraun til að semja um Evrópskt efnahagssvæði. Þess vegna eru allar svona tillögur lagðar fram með fyrirvara um það að Alþingi samþykki eða staðfesti slíka samninga. Og að sjálfsögðu með fyrirvara um það að viðkomandi lögum verði breytt ef um er að ræða nauðsyn að breyta slíkum lögum. Þarna verður alls þess gætt sem ætíð er gætt í öllum þeim alþjóðlegu samningum sem við tökum þátt í að þessu leyti.
    Þriðja spurningin krefst dálítið ítarlegri umfjöllunar. Innan GATT er aðstoð við landbúnaðinn flokkuð annars vegar í framleiðsluhvetjandi aðstoð og hins vegar ekki framleiðsluhvetjandi aðstoð. Þetta er mjög breytilegt milli landanna, afar breytilegt. Fjölmörg lönd eru með litla aðstoð sem þar flokkast framleiðsluhvetjandi en mjög mikla sem flokkast ekki framleiðsluhvetjandi. Tökum t.d. Bandaríkin. Víða í Bandaríkjunum eru 65% af tekjum bænda greidd beint af opinberu fé. Það er ekki talið framleiðsluhvetjandi. Víða í Bandaríkjunum, ef ekki alls staðar, er greitt mikið fyrir það að taka úr notkun land, nota það ekki til ræktunar. Það er ekki heldur kallað framleiðsluhvetjandi. Bandaríkjamenn stunda það einnig að kaupa upp umframbirgðir og eiga heil fjöll af korni og smjöri og fleiru. Það er ekki kallað framleiðsluhvetjandi. Það er því tiltölulega auðvelt fyrir Bandaríkjamenn að bjóða 90% lækkun á framleiðsluhvetjandi styrkjum.
    Einnig í Noregi er miklu meiri aðstoð sem er ekki talin framleiðsluhvetjandi. Svo er líka í Finnlandi. Hjá okkur hins vegar er langstærstur hluti þeirrar aðstoðar sem samkvæmt skilgreiningu GATT ber að telja aðstoð við landbúnaðinn framleiðsluhvetjandi. Mig minnir að það sé á áttunda milljarð af rúmlega 9 milljörðum.
    Ég vil jafnframt nefna það að þessi umfjöllun öll er í nánu samráði við samtök bænda og vitanlega mjög tengd viðleitni landbrh. að gera nýjan búvörusamning. Og í þeirri viðræðu allri hefur einmitt verið talað um það að flytja aðstoð frá því að vera eins og hún er skilgreind innan GATT, framleiðsluhvetjandi, í aðra aðstoð, þ.e. byggðaaðstoð og annað sem í því skyni kemur til greina. Undir þetta hafa fulltrúar bænda tekið og hafa talið þetta skynsamlega leið. Þess vegna kann að vera að þegar við tölum um að fella niður útflutningsbætur á ákveðnum árum eða lækka þær um 45 -- 65% á ákveðnum árafjölda, þá hljómar það ansi mikið borið saman við það sem sumar aðrar þjóðir bjóða. En í þeim tillögum sem hæstv. landbrh. hefur lagt fyrir ríkisstjórn um þetta mál, vitanlega hefur það verið ítarlega rætt í ríkisstjórn og meðal ráðherra í ríkisstjórninni, gerir hann ráð fyrir því að í beinum tengslum við þetta verði slíkur tilflutningur á aðstoð ákveðinn og það í tengslum við búvörusamning.
    Ég vil lýsa því að ég tel að þarna sé á allan máta eðlilega með málið farið. Þetta er hins vegar mjög viðkvæmt mál og má alls ekki rasa þar um ráð fram, verður að vinnast í nánu samráði við bændur í landinu og það tel ég vera gert.
    Einn stór liður í þessu máli, og má segja að það sé þriðji liður í þeim tillögum sem þarf að gera, er innflutningur. Þar má að vísu segja að við Íslendingar stöndum það vel að við flytjum nú inn um það bil helminginn af þeirri orku sem við neytum í þessu landi og ég hugsa að það sé meira en margar þjóðir gera, langtum meira en t.d. stórveldi eins og Bandaríkin gera. Hins vegar er spurningin hvort við getum eitthvað útvíkkað það, það er ekki afgreitt mál. En í því sambandi er alveg nauðsynlegt að gæta þess að okkur er heimilt að setja upp strangar kröfur um hollustuhætti og öryggi landsins og það eru hlutir sem þarf að vinna miklu betur að mínu mati en gert hefur verið, en það er í undirbúningi.