GATT-viðræður
Fimmtudaginn 08. nóvember 1990


     Eiður Guðnason :
    Virðulegi forseti. Mér sýnist einhvern veginn að fulltrúar Sjálfstfl. eða talsmenn hans í landbúnaðarmálum geri sér kannski ekki alveg fulla grein fyrir því hvað það er sem er að gerast í GATT - viðræðunum og að hverju þær miða. Þær miða í fyrsta lagi að því að ná betra jafnvægi á milli framboðs og eftirspurnar, í öðru lagi
að skapa raunhæfari tengsl milli framleiðenda og markaðarins og í þriðja lagi að afnema þá bjögun sem er í viðskiptum með búvöru. Þetta er mjög flókið mál, það er ekki verið að semja um bolta og skrúfur eða slíkt, þetta er mjög flókið mál. Það er öllum held ég ljóst.
    Þarna eigast við andstæðir pólar, annars vegar Bandaríkin og hins vegar Evrópubandalagið þar sem aðstæður eru mjög ólíkar. Í Bandaríkjunum eru tvær milljónir bænda, í Evrópubandalagslöndunum eru ellefu milljónir bænda. Þar er meðaljarðarstærð um 13 hektarar en hún er nærri 190 hektarar í Bandaríkjunum. Þarna eigast við mjög ólík sjónarmið og við höfum ekki séð enn þá hvað kemur út úr þessu. En bændur í Evrópu gera sér grein fyrir því hvað er hérna á seyði. Þeir horfast í augu við staðreyndir. Ég heyrði formann búnaðarsamtaka Evrópu segja í vor: Hver sem niðurstaða GATT-viðræðnanna verður þá verðum við bændur að vera við því búnir að viðskiptafrelsi aukist, samkeppnin mun aukast á heimamörkuðum okkar en við munum líka njóta annarra kosta sem er aukið útflutningsfrelsi.
    Ég held að menn ættu að varast að vera of fullyrðingasamir í þessu máli eins og það nú er vaxið og á því stigi sem það er.