Bláa lónið
Fimmtudaginn 08. nóvember 1990


     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason) :
    Virðulegur forseti. Hv. 8. þm. Reykn. hefur hér gert grein fyrir fsp. frá varaþingmanni hans, Níelsi Árna Lund, sem flutt er á þskj. 47 og hljóðar svo:
    ,,Hvað hefur verið gert til að fylgja eftir ályktun Alþingis um könnun á fjölþættri nýtingu Bláa lónsins við Svartsengi?``
    Það má auðvitað fyrst segja að hér koma fleiri aðilar að. Þál. var beint til ríkisstjórnar og þetta er auðvitað einnig mál sem varðar ferðamannaþjónustu sem stjórnarfarslega mundi heyra undir samgrh. En Alþingi samþykkti á 112. löggjafarþingi sínu þál. frá fyrirspyrjanda þess efnis að Alþingi feli ríkisstjórninni að láta gera könnun á möguleikum á uppbyggingu Bláa lónsins við Svartsengi með það að markmiði að nýta þá möguleika sem staðurinn hefur upp á að bjóða. Einkum skal beint sjónum að hvernig nýta megi lækningamátt lónsins fyrir Íslendinga og útlendinga svo og að fyrirhuguð starfsemi tengist ferðamannaþjónustunni almennt. Þess vegna nefndi ég það hér í upphafi að þetta væri einnig mál þess ráðuneytis sem fer með þann málaflokk.
    Nú mun áratugur vera síðan sögur fóru að berast af því að psoriasis-sjúklingar hlytu bata af því að baða sig í Bláa lóninu. Samþykkti Alþingi þál. árið 1981 þar sem heilbrrh. var falið að láta fara fram könnun á lækningamætti lónsins. Var landlæknisembættinu falið að gera könnunina. Niðurstöður gáfu vísbendingar um að böð í Bláa lóninu bættu líðan psoriasis-sjúklinganna. Hafa þessar niðurstöður verið gefnar út af landlæknisembættinu og voru kynntar allshn. þingsins þegar þál. sú sem hér er spurt um afgreiðslu á var rædd á seinasta þingi.
    Aðdráttarafl Bláa lónsins er mikið, jafnt meðal Íslendinga sem útlendinga, og fer aðsókn vaxandi. Gefa bæði rannsóknir og aðsókn fyrirheit um að nýta megi hið heita jarðsjávarvatn í Svartsengi til heilsubótar og atvinnuuppbyggingar.
    Þetta tengist jafnframt öðrum verkefnum sem unnið er að, bæði á vegum Útflutningsráðs Íslands og nefndar á vegum forsrh., en þessir aðilar kanna nú hvort unnt sé að fá fleiri ferðamenn til landsins sem komi beinlínis í heilsubótarskyni. Ég hef stutt við þetta verkefni, m.a. með því að afla upplýsinga erlendis frá um afstöðu heilbrigðisyfirvalda til svokallaðra heilsuhótela. Eins hef ég greitt götu þeirra sem að þessu máli vinna hér á landi til að þeir geti kynnt sér rekstur og starfsvettvang heilsuhótela erlendis.
    Virðulegi forseti. Með vísan til þess sem ég hef þegar sagt hef ég ákveðið í samráði við forsrh. og samgrh. að frekari vinna við að kanna nýtingu Bláa lónsins við Svartsengi verði falin nefnd sem í eigi sæti, auk fulltrúa þessara þriggja ráðuneyta, forsætis-, heilbrigðis- og samgöngumála, fulltrúar frá Samtökum psoriasis- og exemsjúklinga, Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum og landlæknisembættinu. Er þetta í samræmi við ályktun Alþingis frá því í vor. Hefur hlutaðeigandi aðilum verið ritað bréf með ósk um tilnefningu. Vænti ég þess að nefndin taki til starfa á næstu vikum og gætu tillögur hennar legið fyrir næsta vor.