Innflutningur matvæla með ferðafólki
Fimmtudaginn 08. nóvember 1990


     Fyrirspyrjandi (Guðni Ágústsson) :
    Hæstv. forseti. Ég hef leyft mér að spyrja samgrh. svohljóðandi spurningar:
    ,,Hvað hyggst samgrh. gera til að draga úr innflutningi matvæla með ferðafólki?``
    Samgrn. fer með mál er varða ferðalög, veitingahús, ferðaskrifstofur, umferðarmiðstöðvar og Ferðamálasjóð. Hins vegar veit ég að það er fjmrh. sem gefur út reglugerðir um tollfrjálsan farangur o.s.frv.
    Hæstv. samgrh. hlýtur að velta því oft fyrir sér hvernig hægt er að styrkja ferðamannaþjónustu og skapa sem mestar tekjur af henni í landinu. Hann hlýtur einnig að krefjast þess í ríkisstjórninni að íslenskir aðilar sitji alla vega við sama borð og erlendir.
    Engin þjóð mun jafnfrjálslynd og við Íslendingar. Hér koma þúsundir útlendinga í landið og það eina sem þeir þurfa að biðja um er aðgangur að salernum. Hingað koma hópar frá Evrópu, ekki síst Þýskalandi, með allan mat með sér, enda gaf fyrrv. fjmrh., Jón Baldvin Hannibalsson, út reglugerð 1988 um að hvert mannsbarn sem í landið kæmi mætti taka með sér 10 kg af matvælum. Þar með vísuðu Íslendingar útlendingum frá eldhúsum sínum yfir í furðulegan skrínukost. Þýsk ferðaskrifstofa sem skipuleggur ferð um Ísland og kemur t.d. með 100 manna hóp kemur oft með mat að þyngd eitt tonn, allt pakkað sameiginlega, flýgur þannig í gegnum tollskoðun, þó þar sé nú frjálslega farið með lögin, anda laganna, og jafnvel reglugerðarinnar líka. Íslensk ferðaskrifstofa keppir ekki við sömu skilyrði, hún kaupir hér dýrari mat og með háum virðisaukaskatti. Leiguflugin taka rými úr flugvélum til að koma koffortunum með matnum hingað með fólkinu. Skipin sem ferja ferðamenn flytja matvörur einnig með. Hér er á ferðinni mismunun og misnotkun og að auki dæmafátt framferði íslenskra yfirvalda og virðingarleysi gagnvart íslenskum aðilum. 10 kg af niðursoðinni matvöru þýða rúmlega 30 -- 40 kg af hrávöru. Ef allir Íslendingar sem fara erlendis kæmu með þetta magn, sem þeim er leyfilegt einnig, væri það 1400 tonn á ári eða kannski 4 -- 6 þús. lestir af matvælum.
    Engin þjóð er svo frjálslynd sem við Íslendingar. Margar þjóðir leyfa engan svona innflutning á matvælum. Ég hef heyrt að Bandaríkin leyfi aðeins 1 kg á ferðamann. Við Íslendingar segjum við útlendinga: Taktu matinn með þér, jafnvel bensínið, og kauptu helst ekkert af okkur, við lögum hjólförin og þú teflir frítt við páfann eða bara í móður jörð eins og aðstæður sýna við Gullfoss og víðar.
    Hvað hyggst hæstv. samgrh. og ríkisstjórnin gera til þess að breyta þessu ástandi? Verður reglugerð um tollfrjálsan farangur breytt þar sem hinn mikli matarskammtur verður minnkaður eða afnuminn? Verður staða íslensku ferðaskrifstofanna gerð sambærileg og hinna erlendu?