Innflutningur matvæla með ferðafólki
Fimmtudaginn 08. nóvember 1990


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Hæstv. forseti. Eins og þingheimur heyrir þá dró nú hv. fyrirspyrjandi hvergi af sér í lýsingum á ástandinu, minnti eiginlega meira á upplestur úr Íslendingasögunum á köflum heldur en beinlínis að þetta væri alls staðar í öllum tilvikum svona dökkt. Hitt er alveg rétt sem fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda að matarinnflutningur, eða leyfilegur matarskammtur sem ferðamönnum er heimilt að taka til landsins, hefur verið nokkuð til umræðu að undanförnu. Réttilega benti fyrirspyrjandi á að þau mál heyra undir fjmrn. sem yfirvald tollamála og það er í gegnum reglugerð um tollfrjálsan varning sem þeim hlutum er stýrt. Við höfum hins vegar, í samgrn. og yfirvöld ferðamála og Ferðamálaráð, rætt þetta ítarlega og beitt okkur fyrir viðræðum við fjmrn. og tollstjóraembættið um þessa hluti. Að mati ýmissa stangaðist nokkuð á annars vegar túlkun tollstjóraembættisins sem fram kom í bréfi á sl. sumri til tollvarða og boðskapur bréfs fjmrn. frá 12. maí sl. um þessi efni. Tollstjóri túlkar í bréfi sínu til tollvarða ákvæði reglugerðar þannig að þar sé átt við sameiginlegan innflutning á mat, allt að 10 kg á hvern farþega, t.d. í hópi. Þetta þýðir að þegar hópur kemur til landsins þá er einfaldlega talið hversu margir eru í hópnum og margfaldað með tíu, þannig fæst út sá kílóafjöldi sem koma má af matvælum með viðkomandi hópi. Þessa túlkun vorum við óánægð með í samgrn. og Ferðamálaráði og töldum að betra væri og réttara að túlka reglugerð og bréf fjmrn. frá 12. maí þannig að þetta magn ætti að bindast við hvern einstakan ferðamann. Þannig til að mynda þyrfti hver og einn að sjá þá um flutning á sínum skammti inn í landið o.s.frv.
    Við höfðum þess vegna frumkvæði að því að haldinn var sérstakur fundur um þetta mál með fulltrúum fjmrn. og tollstjóraembættis, samgrn. og Ferðamálaráðs 10. ágúst sl. með það í huga að koma á betri skipan þessara mála fyrir næstu ferðamannavertíð. Á þeim fundi lögðum við mikla áherslu á að þessum ákvæðum væri fylgt svo komið væri í veg fyrir magninnflutning ferðaskrifstofa fyrir heila hópa í senn. Fulltrúi tollstjóra taldi öll tormerki á slíkri framkvæmd og eina raunhæfa leiðin væri þá að draga úr því magni sem þarna væri á ferðinni. Að sjálfsögðu styðjum við slíka breytingu og höfum eindregið lagt til að þessum reglum verði breytt í góðum tíma fyrir næsta sumar. Eðli málsins samkvæmt er heppilegt að slíkar breytingar eigi nokkurn aðdraganda og komi ekki með mjög litlum fyrirvara fram gagnvart erlendum ferðaskrifstofum sem og innlendum sem fyrir löngu hafa farið að undirbúa sína starfsemi fyrir næsta ár.
    Það var svo 12. sept. sem okkur barst frá fjmrn. svar við okkar málaleitan. Þar er því lýst yfir að fjmrn., eins og segir orðrétt í bréfinu, ,,hafi í hyggju að gera breytingar á þessari reglugerð og til að minnka matarskammtinn eitthvað niður úr þeim 10 kg sem hann hefur verið.``
    Þann 22. okt. sl. upplýsti svo deildarstjóri í fjármálaráðuneytinu símleiðis að reglugerðarbreyting væri á döfinni og kæmi væntanlega út á næstunni. Og þar væri stefnt að því að lækka skammtinn niður í 3 kg á hvern ferðamann.