Innflutningur matvæla með ferðafólki
Fimmtudaginn 08. nóvember 1990


     Skúli Alexandersson :
    Virðulegi forseti. Það er full ástæða til þess að þakka fyrirspyrjanda fyrir að hafa vakið athygli á þessu máli. En svo snjall sem hann var í málflutningi fyrri ræðu sinnar því meira bar á þakklætinu í seinni ræðunni fyrir það hvað vel væri staðið að þessum málum af hendi samgrh. og sjálfsagt rétt að taka undir það.
    En það sem ég vildi vekja athygli á hér í sambandi við þessa umræðu var út af tveimur setningum hæstv. fyrirspyrjanda. Í fyrsta lagi þegar hann talaði um furðulegan skrínukost sem erlendir ferðamenn væru með og virðingarleysi fyrir íslenskum ferðaskrifstofum sem því fylgdi. Ég vil vekja athygli á því að íslenskar ferðaskrifstofur sýna ferðaþjónustu vítt um landið nákvæmlega sama virðingarleysið. Ýmsar íslenskar ferðaskrifstofur ferðast með skrínukost um landið og treysta ekki viðkomandi veitingastöðum eða hótelum til að þjóna sínum gestum. Ég held að það sé nákvæmlega sama sem þar kemur fram. Íslenskar ferðaskrifstofur eru með furðulegan skrínukost út um landið og það er náttúrlega algert virðingarleysi gagnvart þeirri ferðaþjónustu sem er á boðstólum vítt um landið að íslenskar ferðaskrifstofur skuli halda uppi slíkri þjónustu við sína gesti.