Innflutningur matvæla með ferðafólki
Fimmtudaginn 08. nóvember 1990


     Pálmi Jónsson :
    Virðulegi forseti. Ég man eftir því eitt sinn í sumar að fram komu í fréttatilkynningu, frá samgrn. að ég ætla, fréttir um þá heimild sem erlendir ferðamenn höfðu til þess að koma með allt að 10 kg af matvælum til landsins. Ég vissi nú ekki forsögu málsins og mér hnykkti nokkuð við. Ég man eftir því að ég hitti þá Íslending sem löngum er búsettur erlendis og hann sagði við mig: Hvaða nauður rak til að svo mikið magn skyldi heimilað að flytja inn í landið með hverjum ferðamanni?
    Ég vil lýsa því að ég tel ástæðu til þess að þakka hæstv. ráðherra fyrir það sem hann hefur gert í því að draga úr þessu, eins og hér kom fram í hans máli, og vænti að svo verði niðurstaðan. Ég tel það alvarlegasta í þessum efnum vitaskuld sjúkdómahættuna ef hluti af þessum matvælum eru ferskar afurðir sem er stórhættulegt mál. Má minna á að gin - og klaufaveikifaraldur hefur gosið upp, til að mynda í Bandaríkjunum og í Bretlandi, vegna þess að inn hefur verið flutt kannski eitt læri, einn hamborgarhryggur eins og var í Bandaríkjunum eitt sinn. Kostaði óhemjulegt fé og óhemjulega miklar aðgerðir að útrýma veikinni eftir að slík slys höfðu orðið. Það er því ástæða til að fara í þessum efnum með mikilli varúð og er ég þó ekki neitt að draga úr því að þakka ráðherra fyrir það sem betur horfir í þessu efni heldur en verið hefur.