Málefni geðsjúkra afbrotamanna
Fimmtudaginn 08. nóvember 1990


     Fyrirspyrjandi (Karl Steinar Guðnason) :
    Frú forseti. Mér er það ljóst að málefni geðsjúks fólks sem brýtur lög heyra undir tvö ráðuneyti, dómsmrn. og heilbrrn. Ég hef hins vegar kosið að spyrja heilbrrh. sérstaklega. Á þskj. 86 spyr ég: Hvað hefur heilbrrn. aðhafst í málefnum geðsjúkra afbrotamanna?
    Ef fólk hefur verið úrskurðað ósakhæft og því sýknað af verknaði sem það hefur framið er það jafnframt úrskurðað til vistunar á viðeigandi hæli, sbr. 62. gr. almennra hegningarlaga nr. 19 frá 12. sept. 1940. Ótrúlegt en satt. Þrátt fyrir að tilvitnuð lög séu rúmlega 50 ára gömul og eftir þeim hafi verið dæmt í öll þessi ár, þá eru þessi hæli ekki til. Þeir sem sömdu lögin hafa á sínum tíma verið vissulega bjartsýnir hugsjónamenn sem ekki hefur rennt grun í að arftakar þeirra í kerfinu yrðu svo framtakslausir sem raun ber vitni. Þrátt fyrir að fólk sé sýknað af afbrotum vegna sjúkdóma sinna er það vistað í fangelsum, aðallega á Litla-Hrauni, þar sem engin aðstaða er til vistunar þess. Fólki er líka komið fyrir erlendis, t.d. í Svíþjóð þar sem aðstæður munu vera nöturlegar en þó betri en tugthúsvist hér heima. Kostnaður við slíka vistun erlendis mun ótrúlegur. Hins vegar hefur hingað til ekkert verið gert svo ég viti til að veita þessu fólki þau sjálfsögðu mannréttindi sem við hin öll viljum hafa. Ekkert hefur verið gert enn þá til að það sjúka fólk sem fremur afbrot fái viðeigandi læknismeðferð, fái vistun á þann veg sem 50 ára gömul lög gera ráð fyrir.
    Ég hef í viðtölum við aðstandendur fengið upplýsingar um að aðstæður þessara sjúklinga eru svo afleitar að með orðum verður ekki lýst. Fyrr á öldum var farið með geðveika líkt og dýr, þeir voru ýmist lokaðir inni í þröngum búrum, geymdir í útihúsum eða á annan hátt útskúfaðir úr samfélagi venjulegra manna. Geðveikir voru haldnir illum öndum að áliti almennings. Oftast voru þessi örlög álitin refsing guðs sökum syndar. Þetta var vilji guðs, refsingin útskúfun.
    Nú á tímum vísindahyggju vitum við betur. Okkur finnst aðferðir fyrirrennara okkar ómanneskjulegar og teljum okkur fordómalaus gagnvart geðveikum og þær aðferðir eða refsingar sem við beitum geðveika fanga hljóti að vera þær einu réttu. Við lifum jú í samfélagi þar sem allt er fullt af sérfræðingum sem vita betur en við hin og áhyggjulaust treystum við þeim. En hversu margir haldið þið, hv. þm., að geri sér grein fyrir hverju geðveikir fangar mega sæta?
    Tíminn í fyrirspurnartíma er svo stuttur að ég læt staðar numið hér. Hins vegar hef ég heyrt rökstutt að til að fullnægja kvöðum hinna 50 ára gömlu laga sem ég vitnaði í áðan þurfi ekki sérstaka hælisbyggingu, hér á landi sé til fyrirmyndaraðstaða og hæfur mannafli til að sinna þessum sjúklingum. Hins vegar neiti læknar að sinna þessu verkefni. Ég spyr því hæstv. ráðherra einnig: Er það rétt að smákóngapólitíkin í sjúkrahúsunum hér í landinu sé svo grimm að geðsjúku fólki sem hefur ómeðvitað framið glæp sé vísað burt af sjúkrahúsum, að því fólki sé neitað um þá

læknismeðferð sem því er nauðsynleg?