Málefni geðsjúkra afbrotamanna
Fimmtudaginn 08. nóvember 1990


     Fyrirspyrjandi (Karl Steinar Guðnason) :
    Frú forseti. Ég þakka hæstv. heilbrrh. svörin. Í svari hans kom fram að aðgerða er að vænta. Það kom líka fram að fyrirstaða er hjá ýmsum í heilbrigðisstéttinni fyrir úrbótum í þessu máli. Ég legg á það áherslu að þau fyrirheit sem fram komu í máli hans verði að veruleika og það sem fyrst.
    Ég get þó ekki stillt mig um að geta þess að oft hafa verið gefin fögur fyrirheit og áætlanir gerðar um úrbætur. Árið 1961 bað þáv. dómsmrh., dr. Bjarni Benediktsson, Valdimar Stefánsson sakadómara um að gera tillögur um úrbætur í fangelsismálum, sem síðan voru lagðar fram sem frv. til laga. Í því var gert ráð fyrir geðdeild fyrir 10 fanga. Er dómsmrh. gerði grein fyrir frv. sagði hann:
    ,,Ég veit að allir alþingismenn eru mér sammála um að landið getur ekki sætt sig við það ástand sem ríkir í fangelsismálum.``
    Hann hafði rétt fyrir sér, allir voru sammála, það urðu næstum engar umræður. Það sem er einkennandi fyrir meðferð fangelsismála á Alþingi er það hvað allir eru sammála. Það eru allir sammála um það að ástand fangelsanna og framkvæmd afplánunar er ekki eins og best yrði á kosið. Nú þarf athafnir í stað orða. Ég treysti því að ráðherra, og einkum núverandi ráðherra í heilbrigðismálum, leggi sig fram í þessum efnum. Þeir sjúku, þeir sem eru fórnardýr kerfisins, hrópa á úrbætur í stað orða.