Vernd barna og unglinga
Fimmtudaginn 08. nóvember 1990


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. hefur beint til mín tveimur fyrirspurnum á dagskrá þessa fundar sem báðar varða félagsmálasáttmála Evrópu. Samkvæmt heimild í ályktun Alþingis sem samþykkt var 1975 var gengið frá aðild Íslands að sáttmálanum 15. janúar 1976. Í fullgildingarskjali var með hliðsjón af 2. mgr. 20. gr. sáttmálans tekið fram að Ísland telji sig skuldbundið af tilteknum greinum sáttmálans og var við það miðað að uppfyllt væru skilyrði um lágmarksfjölda greina eða málsgreina.
    Fyrirspurn hv. þm. lýtur að því hvort ég muni beita mér fyrir því að Ísland undirgangist skuldbindingar skv. 7. gr. sáttmálans, en 7. gr. sáttmálans fjallar um rétt barna og ungmenna til verndar og eru í greininni 10 tölusettar málsgreinar. Fyrirspurnin tekur til 10. mgr. sem fjallar um að samningsaðilar skuldbindi sig til að tryggja sérstaka vernd gegn líkamlegum og siðferðilegum hættum sem steðja að börnum og ungmennum og þá sérstaklega gegn þeim hættum sem stafa beint og óbeint af starfi þeirra. Í þessu sambandi vil ég taka eftirfarandi fram:
    Við aðild Íslands að félagsmálasáttmála Evrópu árið 1976 var ekki nægilega vel kannað hvaða skuldbindingar fælust í einstökum ákvæðum sáttmálans. Í ljós hefur komið að af þeim lágmarksfjölda töluliða sem Ísland telur sig skuldbundið af er framkvæmd á Íslandi á fjórum tölusettum málsgreinum ekki í samræmi við kröfu sérfræðinganefndar Evrópuráðsins sem hefur eftirlit með framkvæmd sáttmálans. Þessu til viðbótar hefur sérfræðinganefndin ekki séð sér fært að skera úr um það hvort framkvæmd samtals átta greina og tölusettra málsgreina sé í samræmi við ákvæði sáttmálans eða túlkun á þeim. Þess skal getið að ítarleg grein er gerð fyrir athugasemdum sérfræðinganefndar Evrópuráðsins í fylgiskjali með skýrslu félmrh. til Alþingis um 76. alþjóðavinnumálaþingið sem lögð var fyrir Alþingi í mars sl. Með hliðsjón af framangreindu hefur þótt nærtækara að einbeita sér að því að bæta framkvæmd á þeim ákvæðum sáttmálans sem Ísland hefur þegar skuldbundið sig til þess að framfylgja áður en samþykktar eru skuldbindingar samkvæmt fleiri ákvæðum hans.
    Við þetta má bæta þeirri almennu athugasemd að sérfræðinganefnd Evrópuráðsins kaus í upphafi að túlka ákvæði félagsmálasáttmálans nokkuð vítt og setja markið hátt. Af þessari stefnu hefur leitt að aðildarríki sáttmálans hafa ekki verið reiðubúin nema að mjög vel athuguðu máli að samþykkja auknar skuldbindingar samkvæmt sáttmálanum. Þetta á sérstaklega við um nokkrar greinar hans sem hafa orðið tilefni til deilna um túlkun. Ákvæðið í 7. og 8. gr., sem fyrirspurn þessi og sú sem er hér síðar á dagskránni lúta að, eru þarna á meðal. Af 17 aðildarríkjum sáttmálans hafa einungis 6 treyst sér til þess að undirgangast skuldbindingar samkvæmt öllum ákvæðum í þessum tveimur greinum og flest eiga í verulegum vandræðum með að uppfylla þær skuldbindingar sem í þeim felast.
    Þótt ég sé í öllum meginatriðum sammála þeim

markmiðum sem sett eru í félagsmálasáttmála Evrópu tel ég það skynsamlegri vinnubrögð að tryggja að íslensk lög og reglur séu í samræmi við ákvæði sáttmálans áður en gengist er undir frekari skuldbindingar, sem síðar kæmi í ljós að ekki er hægt að standa við. Þetta á við um mörg ákvæði í 7. og 8. gr. sáttmálans.
    Nefna má dæmi. Í 1. mgr. 7. gr. er kveðið á um þá skuldbindingu að samningsaðilar sjái svo um að lágmarksaldur til ráðningar í starf sé 15 ár að tilskildum undanþágum fyrir börn sem vinna tilgreinda létta vinnu sem ekki skaði heilsu þeirra, siðgæði eða menntun. Í þessu sambandi má minna á það að á Íslandi eru í gildi sérstakir launataxtar fyrir unglinga yngri en 14 ára. Í 2. mgr. felst skuldbinding um að sjá um að hærri aldursmörk verði sett til ráðningar í ákveðin störf sem álitin eru hættuleg eða óholl. Í 3. mgr. er kveðið á um það að aðildarríkin skuli sjá um að fólk sem enn er við skyldunám sé ekki ráðið í vinnu sem hindrað gæti það í að njóta námsins til fulls. Engin lagaákvæði eru í gildi á Íslandi um þessi atriði.
    Hvað varðar spurninguna um það hvort ég sé reiðubúin að beita mér fyrir því að Ísland undirgangist skuldbindingar skv. 10. mgr. 7. gr. get ég svarað þeirri spurningu játandi að því tilskildu að frv. um vernd barna og ungmenna nái fram að ganga. Þar er í fyrsta skipti reynt að samræma ýmis lög sem gilda um vernd barna og leitast við að skilgreina réttarstöðu þeirra betur en áður. Verði frv. að lögum tel ég öll efni standa til þess að hægt sé að skrifa undir skuldbindingar sem felast í 10. mgr.
    Aðrar greinar snerta sérstaklega vernd barna og ungmenna til starfa. Til þess að hægt sé að fullgilda þær þarf að setja lög sem banna ráðningu ungmenna yngri en 15 ára til að starfa á almennum vinnumarkaði. Samstarfsnefnd aðila vinnumarkaðarins og félmrn. sem fjallar um aðild Íslands að Alþjóðavinnumálastofnuninni og framkvæmd félagsmálasáttmálans hefur fjallað um þetta mál og ekki treyst sér til að svo stöddu að mæla með því að Ísland undirgangist skuldbindingar samkvæmt þessari grein. Eins og ég sagði áðan hafa aðeins 6 af 17 aðildarríkjum sáttmálans treyst sér til þess að undirgangast öll ákvæði greinarinnar. Ekkert Norðurlandanna er í þeim hópi.
    Ég vil bæta því við að nú er í gangi endurskoðun á lögum um öryggi og hollustuhætti á vinnustöðum með aðild samtaka vinnumarkaðarins og mun ég fela nefndinni að gefa mér umsögn sína um þann þátt 7. gr. félagsmálasáttmálans sem lýtur að vernd barna og ungmenna á vinnumarkaði áður en lengra er haldið.