Utanríkismál
Fimmtudaginn 08. nóvember 1990


     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Eins og skýrsla sú um utanríkismál sem hér er lögð fyrir Alþingi ber með sér hafa síðustu sex mánuðir verið óvenju örlagaríkir á sviði alþjóðamála. Í Evrópu hafa orðið alger umskipti frá því sem áður var, hrun kommúnismans og framrás nýfrjálsra ríkja Mið - og Austur - Evrópu í átt til lýðræðis hefur átt sér stað með skjótari hætti en nokkurn óraði fyrir. Í kjölfar þessara breytinga er nú verið að leggja grunn að nýrri skipan öryggismála í Evrópu sem allar Evrópuþjóðir, stórar og smáar, reyna eftir megni að laga sig að.
    Nýlega hafa einnig gerst sviplegir atburðir fyrir botni Persaflóa. Víðtæk samstaða ríkja veraldar um að sporna gegn hrottalegri valdbeitingu Íraka gegn Kúvæt hefur eflt með þjóðum traust á alþjóðlegu öryggiskerfi Sameinuðu þjóðanna. Einnig hefur Persaflóadeilan orðið til að minna Íslendinga á að þeir eru ekki óhultir fyrir áhrifum atburða í fjarlægum heimshlutum en þurfa að axla byrðar í samfélagi þjóðanna til að mæta þeirri röskun sem slíkir atburðir óhjákvæmilega kunna að hafa í för með sér.
    Hinir einstöku atburðir undanfarna sex mánuði eru höfuðástæða þess að ég legg nú fram skýrslu til Alþingis um utanríkismál, hina aðra í röðinni síðan skýrsla mín um utanríkismál fyrir árið 1990 var lögð fram í mars sl. Þar sem kosningar til Alþingis fara nú í hönd á fyrri hluta næsta árs hef ég talið mikilvægt að í byrjun þings gæfist Alþingi tækifæri til að fjalla almennt um stöðu utanríkismála í ljósi þeirra mikilsverðu tíðinda sem gerst hafa á undanförnu hálfu ári og án þeirrar tímapressu sem oft vill skapast þegar nær dregur lokum þings á kosningaári. Eins og fram kemur í inngangi að skýrslunni tel ég auk þess mikilvægt að á því breytingaskeiði í alþjóðamálum sem nú fer í hönd takist áfram að halda víðtækri samstöðu á Alþingi um meginatriði íslenskrar utanríkisstefnu.
    Þar sem ástandið í Sovétríkjunum og ríkjum Mið- og Austur - Evrópu hefur verið í brennidepli hef ég áfram kosið að gera ítarlega grein fyrir pólitískri framvindu mála á því svæði. Kafli um pólitíska samvinnu, afvopnun og takmörkun vígbúnaðar er einnig allítarlegur að þessu sinni eins og efnisrök málsins gefa tilefni til. Umsvif hafa aukist verulega á undanförnum mánuðum innan ráðstefnunnar um öryggi og samvinnu í Evrópu og einnig hefur náðst umtalsverður árangur í viðræðum um takmörkun vígbúnaðar og afvopnunar. Fjallað er um alþjóðastofnanir í skýrslunni, þar með taldar Sameinuðu þjóðirnar og vaxandi hlutverk þeirra, Evrópuráðið og Atlantshafsbandalagið og svæðisbundin deilumál þar sem sérstaklega er gerð grein fyrir Írak-Kúvæt-málinu. Kaflar um Norðurlandasamvinnu, um þróunarsamvinnu, um varnarsvæði og hafréttarmálefni eru einnig á sínum stað að venju. Kafli um utanríkisviðskipti er hins vegar styttri að þessu sinni en oft áður þar sem fjallað hefur verið nýlega hér á Alþingi um viðræður EFTA - ríkjanna við Evrópubandalagið í sérstakri skýrslu og efnt til sérstakrar umræðu um það í fyrri viku.
    Í skýrslunni er í þetta sinni að finna almennan inngang þar sem fjallað er um meginþætti þeirrar umbyltingar sem við höfum nýlega orðið vitni að í alþjóðamálum og nauðsyn þess að Íslendingar aðlagi sig í auknum mæli að kröfum hins nýja tíma. Inngangur skýrslunnar er því með nokkrum hætti hinn pólitíski meginkafli hennar. Í máli mínu hér á eftir mun ég einungis gera grein fyrir einstökum efnisþáttum en tel ekki ástæðu til að fjalla sérstaklega um hvert einstakt mál heldur vísa til skýrslunnar í því efni.
    Virðulegi forseti. Sameining Þýskalands er ekki einungis merkasti viðburðurinn sem orðið hefur í Evrópu undanfarna sex mánuði heldur markar sameining Þýskalands þáttaskil í sögu 20. aldar þar sem stærsta mein eftirstríðsáranna í Evrópu hefur með þeim hætti verið grætt. Það hefur óneitanlega vakið heimsathygli hve skipulega undirbúningur sameiningar Þýskalands gekk fyrir sig. Flokkar þeir í Austur - Þýskalandi sem sameinast vildu sambandslýðveldinu báru sigur úr býtum í fyrstu og síðustu lýðræðislegu þingkosningunum sem þar hafa verið haldnar 18. mars sl. Mynduð var ríkisstjórn undir forustu kristilegra demókrata og var meginverkefni hennar að greiða fyrir sameiningu. Með samruna þýsku efnahagskerfanna 1. júlí sl. má segja að sameiningin hafi farið fram í reynd. Hinn 3. okt. sl. tók gildi samkomulag fjórveldanna, þ.e. sigurvegaranna úr seinni heimsstyrjöldinni, og þýsku ríkjanna tveggja um fullveldi Þýskalands. Fyrstu kosningar sameinaðs Þýskalands verða haldnar 2. des. nk. og nýtt þing kemur þar saman 1. jan. 1991. Við þann atburð verður formlega bundinn endi á þá óeðlilegu skiptingu álfunnar sem Evrópumenn hafa mátt una frá stríðslokum. Ég tel sérstaka ástæðu til að fagna því að samkomulag tókst um að sameinað Þýskaland yrði áfram innan vébanda Atlantshafsbandalagsins en stefna Þjóðverja mun hafa afgerandi áhrif á stöðu Atlantshafsbandalagsins á næstu árum. Enn á margt eftir að skýrast í þeim efnum, t.d. varðandi kjarnavopn á þýskri grund, en dvöl bandarískra herja í Evrópu gæti ráðist af því hvort samkomulag næst innan bandalagsins um staðsetningu kjarnavopna á meginlandi Evrópu á næstu árum.
    Þrátt fyrir að áhrif sameiningar Þýskalands á samstarfið innan Atlantshafsbandalagsins eigi eftir að koma að fullu í ljós lít ég svo á að bandalagið muni áfram gegna veigamiklu hlutverki við að varðveita jafnvægi og stöðugleika í Evrópu. Framkvæmd væntanlegs CFE - samkomulags mun engu um það breyta að Sovétríkin verða áfram langstærsta herveldið á meginlandi Evrópu, bæði á sviði hefðbundinna vopna og kjarnavopna. Til þess að komið verði í veg fyrir óstöðugleika sem kynni að skapast við slíkar aðstæður er nauðsynlegt að ríki Norður - Ameríku axli áfram skuldbindingar í varnarsamstarfi með lýðræðisríkjum Evrópu en eins og sagan hefur sýnt er Atlantshafsbandalagið hinn eini vettvangur sem treystir með árangursríkum hætti þau órofabönd sem tengja aðildarríkin yfir Atlantshafið.
    Ég bendi hins vegar á það í skýrslu minni að Atlantshafsbandalagið kunni e.t.v. ekki að reynast best til þess fallið að takast á við annað helsta úrlausnarefni sem við blasir á sviði öryggismála í Evrópu um þessar mundir, en það er að tryggja að öll Evrópuríkin, ekki síst hin nýfrjálsu ríki Mið - og Austur - Evrópu, verði meðvirk í ákvörðunum um nýja skipan öryggismála álfunnar. Við upphaf nýs tímabils samvinnu og trausts í samskiptum risaveldanna er ekki síður mikilvægt að Sovétríkin taki fullan þátt í hinni margþættu uppbyggingu friðsamlegrar Evrópu þar sem öryggi eins á ekki að verða á kostnað annars. Í tilraunum til að ná þessu sérstaka markmiði mun ráðstefnan um öryggi og samvinnu í Evrópu (CSCE) hafa úrslitaþýðingu.
    CSCE - ferlið, sem 34 ríki eiga nú aðild að, hefur á undanförnum árum rutt sér til rúms sem mikill áhugavaldur í málefnum Evrópu. Eftir því sem æ fleirum skilst að öryggi helgast ekki af hernaðarviðbúnaði einvörðungu heldur einnig af virðingu fyrir mannréttindum og samvinnu á sviði stjórnmála, efnahags - og umhverfismála, mun ráðstefnan um samvinnu og öryggi Evrópuríkja láta meira að sér kveða. Á fundi ríkisoddvita aðildarríkja ráðstefnunnar, sem haldinn verður í París dagana 19. -- 21. nóv. nk., og það verður fyrsti fundur sinnar tegundar frá undirritun Helsinkilokaskjalsins árið 1975, er búist við ákvörðunum um frekari styrkingu ráðstefnunnar, m.a. með uppsetningu nýrrar stofnunar til að koma í veg fyrir og leysa illdeilur milli ríkja og þjóðernishópa. Ég vil árétta það hér að ráðstefnan um samvinnu og öryggi í Evrópu, RÖSE, mun ekki leysa Atlantshafsbandalagið af hólmi. Án Atlantshafsbandalagsins mundi þessa stofnun skorta þá vestrænu dýpt sem nauðsynleg er til að tryggja í framkvæmd áframhaldandi jafnvægi og stöðugleika á sviði varnarmála. Með auknum umsvifum ráðstefnunnar sem og stofnana hennar fá samráð innan bandalagsins jafnframt meiri pólitíska vídd sem þjónar því markmiði að efla friðsamleg samskipti Evrópuríkja í heild. Ráðstefnan um samvinnu og öryggi í Evrópu og Atlantshafsbandalagið munu því fylgjast að og hagnast hvort af öðru.
    Áhrifa hins upprennandi tímabils sátta og samvinnu sem nú fer í hönd hefur gætt utan Evrópu sem innan. Í fyrsta sinn getum við nú e.t.v. búist við að unnt verði að beina þeim kröftum sem hernaðarkapphlaupið dró til sín áður að samvinnu í þágu alls mannkyns. Gagnkvæmt traust í samskiptum risaveldanna ætti að verða til þess að unnt verði að bregðast með árangursríkari hætti við sameiginlegum úrlausnarefnum jarðarbúa, t.d. á sviði þróunar - og umhverfismála.
    Við þessar nýju aðstæður er það sérstakt ánægjuefni að Sameinuðu þjóðunum skuli hafa vaxið ásmegin. Samtökunum hefur gefist aukið svigrúm til að beita sér í þágu öryggis í heiminum í samræmi við þær vonir sem við það voru bundnar í upphafi. Ég vil nefna það sérstaklega að á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og sérstofnana þeirra hefur verið unnið að framgangi ýmissa þeirra hugsjóna sem skipað hafa öndvegi í íslenskum utanríkismálum. Nægir í því efni að nefna mannréttinda - og umhverfismál. Verndun umhverfisins er einmitt eitt þeirra brýnustu úrlausnarefna sem Sameinuðu þjóðirnar standa frammi fyrir um þessar mundir. Fyrir Íslendinga sem háðir eru auðlindum sjávar öðrum þjóðum fremur varðar verndun umhverfisins lífshagsmuni beinlínis. Af þessum sökum lagði ég m.a. til í ræðu minni á 44. allsherjarþinginu að gerður yrði sérstakur sáttmáli þjóða heims um umhverfisvernd þar sem kveðið yrði á um réttindi og skyldur ríkja sem giltu almennt um öll svið umhverfisverndar. Í framhaldi af þeirri tillögu fékk Ísland því framgengt að í ályktunartillögu um ráðstefnuna um umhverfi og þróun sem halda á á vegum Sameinuðu þjóðanna í Brasilíu árið 1992 er kveðið á um að eitt af markmiðum ráðstefnunnar verði að kanna möguleika á setningu reglna um almenn réttindi og skyldur ríkja á sviði umhverfismála.
    Í þessu sambandi vil ég einnig geta þess að á aðalfundi Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar í september sl. lögðu Norðurlöndin, að frumkvæði Íslands, fram tillögu um leiðbeinandi öryggisreglur fyrir kjarnorkuknúin skip. Aðdragandi tillögunnar var að í ræðu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í fyrra lagði ég til að Alþjóðakjarnorkumálastofnuninni yrði falið að semja leiðbeinandi alþjóðareglur um öryggi kjarnaofna í skipum. Hinar Norðurlandaþjóðirnar tóku þessari hugmynd vel og t.d. vann sænska utanríkisráðuneytið ötullega að undirbúningi málsins, m.a. á endurskoðunarráðstefnu samningsins í Genf, um að dreifa ekki kjarnavopnum. Bandaríkin voru andvíg því að slík tillaga yrði lögð fram þar sem hún beindist að kjarnorkuknúnum herskipum og tóku mörg önnur vestræn ríki undir það sjónarmið. Að þessu sinni urðum við að sæta því að upphaflegu tillögunni var breytt á þann veg að starfssvið stofnunarinnar var þrengt að því er þessar reglur varðar, þannig að þær ná einungis til farskipa. Eftir nokkrar fleiri breytingar, þar sem tekið var tillit til sjónarmiða einstakra ríkja, var hún hins vegar samþykkt. Í tillögunni er aðalframkvæmdastjóra falið að ráðfæra sig við Alþjóðasiglingamálastofnunina til að kanna þörf á endurskoðun á öryggisreglum um kjarnorkuknúin farskip sem samþykkt var upphaflega árið 1981. Þó tillagan sem endanlega var samþykkt gangi hvergi nærri eins langt og við bundum vonir við, þá felst í samþykkt hennar samt umtalsverður áfangi því að reglur um öryggi kjarnorkuknúinna skipa eru nú til athugunar hjá stofnuninni.
    Virðulegi forseti. Endurreisn Sameinuðu þjóðanna á ekki síst rætur að rekja til hins góða árangurs sem samtökin hafa nýlega náð við lausn svæðisbundinna deilumála
eins og dæmin í Namibíu og Kampútseu sanna. Hið nýja tímabil Sameinuðu þjóðanna var þó aðeins dagsbrún þegar stríð braust út við Persaflóa.
    Innrás Íraka í Kúvæt kom sem reiðarslag og hafa nær öll ríki heims harðlega fordæmt innrás og innlimun Íraks á Kúvæt sem gróft brot á alþjóðalögum og stofnskrá hinna Sameinuðu þjóða. Víðtæk samstaða hefur náðst innan öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um fordæmingu á framferði Íraks og hefur öryggisráðið samþykkt tíu ályktanir um Írak-Kúvæt-málið sem ítarlega hefur verið gerð grein fyrir í V. kafla skýrslu minnar.
    Í kjölfar aðgerða öryggisráðsins hafa fjölmörg ríki, með Bandaríkin í broddi fylkingar, sent fjölmennt herlið til Saudi-Arabíu og Persaflóasvæðisins til varnar frekari landvinningum Íraks. Herlið þessara ríkja stendur nú grátt fyrir járnum andspænis írakska hernum. Hernaðaruppbyggingin á Persaflóasvæðinu heldur áfram og á þessari stundu eru afleiðingarnar ófyrirsjáanlegar.
    Ein alvarlegasta afleiðing átakanna við Persaflóa er straumur flóttafólks frá Kúvæt og Írak til grannríkjanna. Ríkisstjórn Íslands ákvað því að verja allt að 140 millj. kr. til neyðarhjálpar á svæðinu. Ráðgert er að Rauði kross Íslands ráðstafi um 90 millj. kr. Þar af fari 50 millj. til aðstoðar við flóttamenn í Jórdaníu og 25 millj. til aðstoðar við flóttamenn í Egyptalandi. Ákveðið var að kaupa matvæli og hjálpargögn hér á landi fyrir þessar fjárhæðir. Auk þess var ákveðið að 15 millj. kr. yrði varið til kaupa á vörum fyrir birgðastöð Rauða krossins á Kýpur. Enn fremur var ráðgert að Hjálparstofnun kirkjunnar ráðstafaði 15 millj. kr. til aðstoðar við flóttamenn, einkum í Jórdaníu og Egyptalandi. Um afgang fjárins hafa ekki verið fullmótaðar tillögur. Einn flugfarmur hefur verið sendur frá Íslandi til Jórdaníu en beðið er átekta með frekari sendingar þar sem flóttamannastraumurinn yfir landamæri Íraks og Jórdaníu stöðvaðist skyndilega.
    Utanríkisráðuneytið hefur í kjölfar innrásar Íraka í Kúvæt fylgst grannt með framvindu mála þar. Einkum hafa afdrif átta íslenskra ríkisborgara sem urðu innlyksa í Kúvæt verið í brennidepli. Ráðuneytið hefur í samvinnu við utanríkisráðuneyti Norðurlandanna unnið að farsælli lausn málsins. Leyfi írakskra yfirvalda fékkst fyrir flutningi fólksins til Bagdad og síðan fyrir brottför kvenna og barna úr landi en fjölskyldurnar tvær sem um ræðir kusu að vera áfram í Kúvæt fyrst um sinn. Í september var síðan ákveðið að konur og börn yfirgæfu landið. Einn Íslendingur kom til Íslands 13. sept. og annar kom ásamt fjórum börnum sínum til landsins viku síðar. Enn er einn íslenskur ríkisborgari í Kúvæt og er unnið að því að fá hann lausan.
    Því er ekki að neita að innrás Íraka í Kúvæt hefur skaðað aðgerðir til að koma á friði milli Araba og Ísraelsmanna og þar með að finna lausn á vandamáli Palestínumanna á hernumdu svæðunum. Ljóst er að Írakar reyna af fremsta megni að tengja hernám Kúvæts Palestínuvandamálinu og vafalaust munu deilur Ísraela og Araba tengjast Persaflóadeilunni á einn eða annan hátt og hafa áhrif á lausn hennar. Írakar hafa og reynt að eggja Araba í andstöðu við Ísrael til þess að fá þá til liðs við sig. Vonandi er að leiðtogum Araba og Arababandalagsins auðnist að standast slíkan þrýsting og þeir sjái við þessum hættulegu áformum.
    Virðulegi forseti. Í ræðu minni á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna gat ég þess að hernaðarofbeldi það sem við höfum nýlega orðið vitni að við

Persaflóa sýndi okkur fram á hve friður í heiminum er ótryggur, jafnvel nú þegar risaveldin hafa tekið sig saman um að reyna að hafa sameiginlega hemil á ýmsum slíkum hættusvæðum. Óhjákvæmilega minnir þetta okkur á að friður er annað og meira en það ástand þegar ekki er stríð. Forsenda friðar er að hlýtt sé grundvallarreglum í samskiptum þjóða, þar með talið að fullveldi ríkja, sjálfsákvörðunarréttur þeirra og landamæri séu virt. Hvað Evrópu snertir eru þessar meginreglur greyptar í lokaskjal Helsinki-ráðstefnunnar um öryggi og samvinnu í Evrópu. Það er ekki síst þess vegna sem Íslendingar fagna sameiningu Þýskalands í samræmi við óskir þýsku þjóðarinnar.
    Í ræðu minni minntist ég jafnframt á að meðan ný Evrópa væri í mótun skyldum við ekki loka augunum fyrir þeirri arfleifð eftirstríðsáranna sem enn þá hefur staðið af sér umbreytingaröflin. Ég nefndi aðstöðu Eystrasaltsríkjanna sem dæmi þessa. Þau voru sjálfstæð ríki, viðurkennd sem slík í samfélagi þjóðanna, og þeirri staðreynd fá hernám og innlimun með ofbeldi ekki breytt. Stefna núverandi ríkisstjórnar varðandi málefni Eystrasaltsríkjanna byggir á þremur meginatriðum.
    Í fyrsta lagi lítur ríkisstjórnin svo á að hernám og innlimun Eystrasaltsríkja í Sovétríkin hafi engu breytt um réttarstöðu Eystrasaltsríkjanna þriggja og sé viðurkenning Íslands á fullveldi þeirra frá árinu 1922 því enn í fullu gildi að þjóðarétti.
    Í öðru lagi telur ríkisstjórnin að leysa beri mál Eystrasaltsríkjanna friðsamlega með því að stuðla að beinum samningum milli þeirra og Sovétríkjanna og einstakra ráðstjórnarlýðvelda.
    Í þriðja lagi hefur því verið yfir lýst af hálfu Íslands að við styðjum fulla aðild Eystrasaltsríkjanna að ráðstefnunni um samvinnu og öryggi í Evrópu.
    Þrátt fyrir umbætur og breytingar innan Sovétríkjanna á undanförnum árum verður því ekki neitað að Eystrasaltsríkin eiga enn við ramman reip að draga í viðleitni sinni til að koma fram sem jafningjar annarra ríkja á alþjóðavettvangi. Er af þeim sökum óvíst enn sem komið er hvort Eystrasaltsríkin geti staðið við skuldbindingar gagnvart öðrum ríkjum að þjóðarétti, t.d. að því er varðar upptöku stjórnmálasambands. Ýmsar þjóðréttarskyldur eru í því fólgnar að efna til stjórnmálasambands, svo sem að tryggja að fulltrúar erlendra ríkja geti stundað störf sín frjálst og óhindrað.
    M.a. af þessum sökum tel ég á þessari stundu að beint stjórnmálasamband Íslands við ríkin þrjú muni ekki renna frekari stoðum undir viðurkenningu okkar á fullveldi þeirra nema því aðeins að hægt verði að tryggja eðlileg samskipti í reynd. Að svo stöddu tel ég því heppilegast að Ísland beini kröftum sínum að því að efla þátttöku Eystrasaltsríkjanna í fjölþjóðasamstarfi þar sem minna reynir á framkvæmdaleg atriði af því tagi sem fram koma í tvíhliða samskiptum.
    Virðulegi forseti. Á undanförnum mánuðum hefur náðst undraverður árangur í viðræðum um takmörkun vígbúnaðar. Einkum á þetta við um viðræður þær sem standa yfir í Vínarborg um niðurskurð hefðbundins herafla. Bjartsýni ríkir nú um að á fundi ríkisoddvita ráðstefnunnar um öryggi og samvinnu í Evrópu, sem haldin verður í París innan fárra daga, verði undirritaður fyrsti samningur 22 aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins og Varsjárbandalagsins um þetta efni. Í III. kafla skýrslu minnar geri ég ítarlega grein fyrir stöðu mála, bæði í þessum samningaviðræðum og öðrum viðræðum um takmörkun vígbúnaðar og traustvekjandi aðgerðir á hernaðarsviðinu.
    Eitt er þó það svið vígbúnaðar sem ég get ekki látið hjá líða að minnast á sérstaklega. Vígbúnaður á höfunum er hið eina meginsvið vígbúnaðar sem ekki er á dagskrá sem slíkt í samningaviðræðum um takmörkun vígbúnaðar nú þegar Atlantshafsbandalagið hefur samþykkt að hefja samningaviðræður um skammdræg kjarnavopn við Sovétríkin. Að vísu er það svo að væntanlegur START-samningur mun hafa í för með sér verulega fækkun langdrægra kjarnavopna í kafbátum og þess ber að geta að Bandaríkjamenn hafa fækkað kjarnavopnum í höfunum einhliða.
    Ég hef margsinnis á það bent að það leiði af landfræðilegri legu landsins að Íslendingum sé sérstakt hagsmunamál að takmörkun vígbúnaðar og traustvekjandi aðgerðir á höfunum verði liður í samningaviðræðunum sem nú standa yfir. Hafsvæðið umhverfis landið hefur lengi verið einhver mikilvægasti vettvangur flotaumsvifa í veröldinni og kjarnorkuvæðing þessa svæðis á sér tæplega hliðstæðu annars staðar í veröldinni.
    Á vettvangi Atlantshafsbandalagsins í tvíhliða viðræðum, á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og á ráðstefnum hafa Íslendingar fært rök fyrir því að samningaviðræður nái einnig til hafsvæðanna. Utanrrn. hafði frumkvæði að og styrkti ráðstefnu um takmörkun vígbúnaðar og traustvekjandi aðgerðir á Norðurhöfum sem Alþjóðamálastofnun Háskólans og bandarísk rannsóknastofnun stóðu að hér á landi á Akureyri í ágúst sl. Af hálfu Íslendinga hefur m.a. verið bent á að taki viðræður um takmörkun vígbúnaðar ekki til vígbúnaðar á höfunum geti það haft þær afleiðingar að misvægi myndist milli einstakra svæða í Evrópu hvað öryggi varðar. Auk þess ber að hafa í huga að verði höfin ekki tekin inn í viðræður geti það undir vissum kringumstæðum leitt til aukins vígbúnaðar á höfunum. Frá hernaðarlegu sjónarmiði eru náin tengsl milli lands og hafs, en það felur í sér að standi sjóherinn utan samningaviðræðna er hætta á að farið verði í kringum samninga um land- og flugheri og kjarnavopn með því að auka vígbúnað á höfunum. Af þessu leiðir að samningar um takmörkun vígbúnaðar í Evrópu verða ekki heildstæðir nema þeir taki einnig til sjóherja.
    Innan Atlantshafsbandalagsins hefur umræðan um takmörkun vígbúnaðar og traustvekjandi aðgerðir á höfunum enn ekki verið til lykta leidd. Atlantshafsbandalagið hefur hvorki samþykkt að taka upp slíkar viðræður né hafnað því. Á ríkisoddvitafundi í London í júlí sl. var samþykkt að frumkvæði Íslendinga að bandalagið héldi áfram að kanna möguleika á takmörkun vígbúnaðar og traustvekjandi aðgerðum á fleiri

sviðum. Íslensk stjórnvöld munu leggja áherslu á að slíkar kannanir taki til vígbúnaðar á höfunum, enda er það eina meginsvið hernaðarumsvifa sem enn er undanskilið. Íslendingar eru ekki einir bandalagsþjóða um þá afstöðu að nauðsynlegt sé að taka höfin inn í samningaviðræður þegar afvopnunarsamningar um hefðbundin vopn hafa náðst. Ljóst er hins vegar að á þessu stigi málsins eiga traustvekjandi aðgerðir á höfunum heldur meiri hljómgrunn en takmörkun vígbúnaðar. Allflest þeirra ríkja, sem eru því hlynnt að taka höfin inn í samningaviðræður, telja raunhæfara að byrja fremur á traustvekjandi aðgerðum en samningum um niðurskurð vígbúnaðar.
    Formlegar samningaviðræður um traustvekjandi aðgerðir á höfunum útheimta nýtt erindisbréf fyrir afvopnunarviðræðurnar í heild. Núverandi erindisbréf sem samþykkt var í Madrid 1983 sníður traustvekjandi aðgerðum þröngan stakk þar sem einungis starfsemi sjóherja, sem beinlínis tengist tilkynningarskyldum æfingum á landi, er viðfangsefni samningaviðræðna samkvæmt Madrid-umboðinu. Nýtt og breytt erindisbréf verður væntanlega eitt aðalverkefni endurskoðunarráðstefnu aðildarríkja RÖSE sem fram fer í Helsinki á fyrra helmingi ársins 1992. Það er viðtekin skoðun að málefni sjóherja verði ofarlega á blaði á þeirri ráðstefnu. Fram að þeim tíma er nauðsynlegt að Atlantshafsbandalagið nái að móta samræmda stefnu í málinu og að því mun viðleitni okkar Íslendinga beinast á næstu missirum.
    Hagsmunir Íslendinga lúta ekki einungis að öryggi hafsvæða, séð frá hernaðarlegu sjónarmiði, eins og ég gat um hér að framan, heldur einnig að verndun hafsins fyrir geislavirkum efnum, ekki síst hvað varðar slysahættu vegna kjarnakljúfa í skipum og kafbátum. Þrjú slys sovéskra kjarnorkukafbáta í Norðurhöfum á árinu 1989 eru til vitnis um mögulegar hættur frá kjarnakljúfum í höfunum fyrir lífríki sjávar. Sem betur fer hafa slík slys enn sem komið er ekki haft alvarlegar afleiðingar fyrir lífsbjörg Íslendinga en ljóst er að sú hætta vofir stöðugt yfir. Jafnvel grunur um að sjávarafurðir væru mengaðar af völdum geislavirkni gæti haft alvarleg áhrif á markaði erlendis. Nútímamarkaður er í vaxandi mæli viðkvæmur fyrir grun um mengun og við Íslendingar eigum ekki annarra kosta völ en taka tillit til þessara staðreynda. Innan utanríkisráðuneytisins er nú unnið að undirbúningi tillögugerðar á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna þess efnis að sérfræðingum á vegum samtakanna verði falið að kanna þær hættur sem umhverfi sjávar kann að stafa af slysum í tengslum við kjarnakljúfa í sjó.
    Virðulegi forseti. Skipta má helstu mörkuðum fyrir íslenskar útflutningsafurðir í sex svæði: Evrópubandalagið, EFTA-ríkin, Austur-Evrópu, Bandaríkin, Japan og önnur lönd. Verulegar breytingar hafa orðið á vöruútflutningi til þessara markaðssvæða ef miðað er við fyrstu sex mánuði síðasta árs annars vegar og fyrstu sex mánuði þessa árs hins vegar. Talsverður samdráttur er í vöruútflutningi til EFTA-ríkjanna ef miðað er við heildarverðmæti vöruútflutnings, en fyrstu sex mánuði ársins 1989 var þetta hlutfall 12,7%

en 9,5% á sama tíma á þessu ári. Meginskýringin er samdráttur í útflutningi áls til Sviss, en einnig má nefna samdrátt í saltsíldarsölu til Svíþjóðar, loðnumjöls til Finnlands og loðnulýsis til Noregs.
    Veruleg aukning varð á vöruútflutningi til Evrópubandalagsins borið saman við árið á undan. Heildarverðmæti vöruútflutnings til Evrópubandalagsríkja jókst úr 53,7% í 66,5% milli ára. Hér er um aukningu að ræða sem nemur tæplega 24% sem er afar mikil aukning á einu ári. Aukninguna má rekja til aukins útflutnings til bandalagsins á ferskum fiski, frystum fiskflökum og blautverkuðum saltfiski.
    Mest aukning í verðmætum talið er til Bretlands en Bretland er sem fyrr stærsti kaupandinn innan Evrópubandalagsins. Hins vegar var mesta hlutfallsleg aukning í útflutningi til Spánar. Athygli vekur að Þýskaland er nú orðið annar stærsti kaupandi íslenskra útflutningsafurða ef bornir eru saman fyrstu sex mánuðir áranna 1989 -- 1990 og hefur Þýskaland þar með tekið sæti Bandaríkjanna. Hlutur Bandaríkjanna hefur verið að minnka jafnt og þétt undanfarin ár með litlu fráviki á síðasta ári og eru þau nú þriðji stærsti kaupandi íslenskra útflutningsafurða.
    Þær miklu breytingar sem nú eiga sér stað í efnahags- og viðskiptalífi í ríkjum Austur-Evrópu munu vafalaust eiga eftir að hafa mikil áhrif á viðskipti okkar við þessi ríki. Breytingar í átt til frjálsra gjaldeyrisviðskipta hafa nú þegar haft þær afleiðingar að utanríkisviðskiptin hafa dregist saman vegna mikils gjaldeyrisskorts. Íslendingar hafa ekki farið varhluta af þessu. Útflutningur til þessara ríkja hefur dregist saman auk þess sem greiðsludráttur fyrir íslenskar útflutningsvörur hefur verið tilfinnanlegur. Árið 1985 voru vöruviðskiptin við ríkin í Austur-Evrópu um 8% heildarvöruviðskipta en fyrstu sex mánuði þessa árs var þetta hlutfall komið niður í 5,5%.
    Mikilvægasti markaðurinn fyrir íslenskar útflutningsafurðir í Austur-Evrópu er í Sovétríkjunum. Í byrjun október fóru fram í Reykjavík samningaviðræður við Sovétríkin um nýja fimm ára viðskiptabókun. Undirbúningur hófst í vor og var af hálfu Íslendinga óskað eftir því að viðræður gætu farið fram í júní sl. Sovétmenn gátu ekki fallist á það og hófust viðræður ekki fyrr en 8. okt.
    Af Íslands hálfu var lögð áhersla á að ná samningi um viðskiptabókun til fimm ára, hliðstæða fyrri samningum, með vörulistum þar sem tilgreind yrði magn- eða verðmætaviðmiðun. Áður en til samningaviðræðna kom höfðu aðilar skipst á tillögum að nýrri viðskiptabókun og átti sendiráð Íslands í Moskvu ítarlegar viðræður við sovésk stjórnvöld um þær áður en samningaviðræður hófust.
    Af hálfu Sovétmanna kom fram að þeir væru aðeins reiðubúnir til viðræðna um viðskiptabókun til tveggja ára með leiðbeinandi vörulistum án magn- eða verðmætaviðmiðunar. Sögðu þeir miklar breytingar í viðskiptaháttum vera fram undan í Sovétríkjunum og væri ætlunin að hverfa frá miðstýrðum innkaupum með opinberum fjárveitingum. Gætu þeir því ekki tryggt fjárveitingar til áframhaldandi kaupa sovéskra

fyrirtækja sem Íslendingar hafa skipt við. Yrðu fyrirtækin nú í auknum mæli að útvega fjármagn sjálf til vöruinnflutnings. Sovéska viðræðunefndin taldi að þetta mundi skýrast þegar fyrir lægju ákvarðanir varðandi ríkisbúskap, markaðskerfi og framtíðarskipan ríkjasambandsins sem nú eru til meðferðar á sovéska þinginu. Þá kom jafnframt fram að vegna mikilla gjaldeyriserfiðleika væri þess vart að vænta að sovéskum fyrirtækjum yrði úthlutað fjármagni og gjaldeyri í sama mæli og áður til hliðstæðra viðskipta og verið hefði.
    Eftir viðræður í heila viku var þeim frestað fram í nóvember og mun sovéska viðræðunefndin kanna hvort heimild fáist hjá sovéskum stjórnvöldum til að gera tveggja ára samning með sams konar vörulistum og fylgt hafa fyrri samningum. Það ber þó að viðurkenna að menn eru ekki á þessu stigi málsins bjartsýnir á greiða lausn þessara mála.
    Greiðsluvandamál í viðskiptum við Sovétríkin hafa verið mikið til umfjöllunar vegna verulegs greiðsludráttar sem orðinn var á sölu á freðfiski, lagmeti og ullarvörum. Vegna þess mikla vanda sem þetta hafði í för með sér fyrir íslenska útflytjendur fór sérstök nefnd á vegum utanrrn. undir forustu ráðuneytisstjóra til Sovétríkjanna til að freista þess að finna lausn á greiðsluvandræðunum. Nefndin átti ítarlegar viðræður við fjölmarga aðila, bæði í stjórnkerfi Sovétríkjanna og bankakerfinu.
    Skömmu áður en viðræður íslenskra og sovéskra stjórnvalda hófust í Reykjavík barst tilkynning um greiðslu fyrir þann freðfisk sem afgreiddur hafði verið til Sovétríkjanna og hluta af lagmetinu. Hins vegar ríkir enn óvissa um greiðslu fyrir lagmeti og ullarvörur, svo og fyrir þær birgðir af íslenskum vörum sem sérstaklega hafa verið framleiddar fyrir sovéskan markað. Framleiðsla á freðfiski fyrir Sovétríkin hefur nú verið stöðvuð þar til séð verður hvernig úr greiðsluvandanum rætist.
    Nýlega hafa þau skilaboð borist til íslenskra fiskútflytjenda frá viðsemjendum þeirra í Sovétríkjunum að gjaldeyrisreikningum þeirra, þ.e. hinna sovésku viðsemjenda, hafi verið lokað hjá viðskiptabanka þeirra í Moskvu og allar gjaldeyrisyfirfærslur stöðvaðar. Tilkynnti sovéska innflutningsfyrirtækið að þeir gætu hvorki veitt viðtöku þeim vörum sem þegar hefðu verið framleiddar fyrir það upp í gerða samninga, né vörum sem óframleiddar væru upp í samninga. Jafnframt yrði ekki um neinar greiðslur af þeirra hálfu að ræða í náinni framtíð. Sendiráð Íslands í Moskvu hefur þegar hafið viðræður við stjórnvöld í Sovétríkjunum um lausn þessara mála með það grundvallaratriði í huga að staðið verði við gerða samninga.
    Virðulegi forseti. Einungis fáeinar vikur eru nú til loka svokallaðra Uruguay - viðræðna GATT, alþjóðatollamálasambandsins, en þeim lýkur með ráðherrafundi þann 3. -- 7. des. nk. í Brussel ef áætlanir standast. Viðræðurnar, sem hafa staðið í fjögur ár með þátttöku yfir 100 ríkja, eru þær langviðamestu og flóknustu sem ráðist hefur verið í á vettvangi GATT hingað til. Miklar vonir hafa verið bundnar við að

niðurstaða úr þeim mætti verða til þess að örva heimsviðskipti í krafti skýrari reglna og aukins frelsis á sem flestum sviðum viðskipta til hagsbóta fyrir þjóðir heims og ekki síst þjóðir þriðja heimsins. Landbúnaðarmálin eru eitt af þessum verkefnum. Um þau fjallar sérstök nefnd, ein af 14 undirnefndum, og hafa þau reynst vandmeðfarið mál í Uruguay-viðræðunum og slá má því föstu að framvindan í landbúnaðarnefndinni hafi mikil áhrif á heildarútkomu þeirra viðræðna. Þótt einhugur ríki um nauðsyn úrbóta með þeim hætti að dregið verði úr vernd og stuðningsaðgerðum á sviði landbúnaðar og greitt fyrir auknum viðskiptum í heiminum með landbúnaðarafurðir og unnar landbúnaðarafurðir ríkir enn verulegur ágreiningur um leiðir og hversu langt eigi að ganga í umbótum. Lengst af hefur lausn strandað á getuleysi Evrópubandalagsins til þess að ná sameiginlegum niðurstöðum. Ráðherraráð Evrópubandalagsins hefur setið á maraþonfundum út af þessum málum en þau tíðindi urðu nú fyrir tveimur sólarhringum að samkomulag tókst innan bandalagsins um fyrsta tilboð af hálfu þess þannig að á næstu dögum er þess að vænta að önnur ríki skili tilboðum sínum þannig að samningaviðræður geti farið að hefjast í alvöru.
    Virðulegi forseti. Í inngangi skýrslu minnar vék ég máls á því að nauðsynlegt sé fyrir Íslendinga að fara í enn ríkara mæli en áður að huga að mótun samræmdrar heildarstefnu í viðskipta - og öryggismálum en Ísland er nú með nokkrum hætti á krossgötum þar sem val um markmið og leiðir kann að ráða miklu um fararheill þjóðarinnar á næstu árum. Aðildin að Atlantshafsbandalaginu og tvíhliða varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna hefur verið hornsteinn íslenskrar öryggis - og varnarmálastefnu á tímabilinu frá styrjaldarlokum. Í augum bandamanna hefur varnarstöð Atlantshafsbandalagsins verið áþreifanlegasta dæmið um framlag Íslands til sameiginlegra varna þrátt fyrir að á Íslandi hafi verið litið á varnarstöðina og aðildina að Atlantshafsbandalaginu sem aðskilin en tengd mál. Atburðir á pólitíska sviðinu í Evrópu kunna að leiða til þess að skilin milli þessara tveggja stoða varnarstefnunnar skerpist enn frekar.
    Í fyrsta lagi er nauðsynlegt að gaumgæfa að fram er komið nýtt afl í öryggismálum Evrópu, ráðstefnan um samvinnu og öryggi í Evrópu sem sett verður upp með formlegum hætti á ríkisleiðtogafundinum í París og byrjar sín fyrstu skref með því að setja á laggirnar sérstakar stofnanir sem ætlað er að leysa svæðisbundin deilumál. Styrking ráðstefnunnar um samvinnu og öryggi í Evrópu mun leiða til þess að lögð verður meiri áhersla á samvinnuþáttinn í samskiptum Evrópuríkja í heild en það hefur í för með sér að sinna þarf þessm þætti utanríkisstefnunnar mun meir en hingað til. Aukið vægi ráðstefnunnar um samvinnu og öryggi í Evrópu hefur ýmsan ávinning í för með sér fyrir hin fámennari ríki í Evrópu. Ákvarðanir innan RÖSE - ferilsins krefjast samstöðu allra þátttökuríkja en það gefur hinum smærri ríkjum færi á að beita áhrifum sínum ekki síður en hinum fjölmennari. Á vettvangi RÖSE hefur Ísland t.d. haft frumkvæði að málflutningi þess efnis að Eystrasaltsríkjunum verði veitt full aðild.
    Í öðru lagi hefur Evrópubandalagið, eins og áður segir, látið öryggis - og varnarmál meira til sín taka, en innan bandalagsins á sú skoðun vaxandi fylgi að fagna að hæpið sé að skilja að sameiningu í efnahagsmálum og samvinnu í öryggismálum. Aukinna samráða ríkja Evrópubandalagsins hefur áþreifanlega orðið vart, bæði á vettvangi Atlantshafsbandalagsins og innan RÖSE þar sem ríkin tólf fylgjast að í málflutningi. Á þessari stundu er ógerningur að segja með vissu fyrir um hver þróunin verður með tilliti til öryggispólitískrar samvinnu Evrópu. Stóraukin umsvif RÖSE munu þó vafalítið verða til þess að við mótun stefnu í öryggismálum þarf að taka aukið tillit til ríkja utan Atlantshafsbandalagsins. Einnig gætu aukin afskipti Evrópubandalagsins af öryggis - og varnarmálum að öðru óbreyttu haft þær afleiðingar að ríkin á meginlandi Evrópu mörkuðu sér sérstefnu innan Atlantshafsbandalagsins en sundurgreining Atlantshafssvæðisins, þar sem miðsvæði og suðurvæng yrði gert hærra undir höfði í samanburði við norðurvæng, yrði Íslendingum sérstakt íhugunarefni. Vaknar m.a. sú spurning hvort tvíhliða varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna kunni að verða enn þýðingarmeiri en áður, en á næsta ári minnumst við þess að 40 ár verða liðin frá undirritun þess samnings.
    Heilsteypt stefnumörkun í utanríkismálum krefst þess um þessar mundir að hugað verði að varnar - og viðskiptahagsmunum Íslands í víðu samhengi. Í varnarmálum hefur mikilvægi tvíhliða varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna aukist en jafnframt er það Evrópubandalagið sem er orðið stærsti markaðurinn fyrir íslenskar útflutningsvörur. Ólíkt því sem gerist meðal bandamanna í Vestur - Evrópu þar sem horfur eru á frekari samtvinnun efnahagssamstarfs og samvinnu á sviði öryggismála er nú hætt við að þessir tveir þættir íslenskrar utanríkisstefnu greinist að í vaxandi mæli. Hvort sú verður raunin ræðst ekki einungis af stefnumótun Íslendinga heldur einnig af því hverju fram vindur í samskiptum Evrópubandalagsins og Bandaríkjanna/Kanada í framtíðinni. Tveir kostir a.m.k. eru hugsanlegir í því efni. Evrópubandalagið kynni þegar til lengdar lætur að taka við hlutverki Atlantshafsbandalagsins í varnar - og öryggismálum Evrópuríkjanna og halda áfram á braut viðskiptalegrar samkeppni við Bandaríkin. Misklíð milli fyrrum bandamanna vestan hafs og austan gæti haft varhugaverðar afleiðingar fyrir Ísland sem kynni að standa frammi fyrir afar erfiðu vali. Við slíkar aðstæður yrði óhjákvæmilegt að taka tillit til þess að öryggi landsins yrði tæpast tryggt í varnarsamstarfi með ríkjum Evrópubandalagsins einvörðungu. Hagsmunir í varnarsamstarfi við Bandaríkin og viðskiptum við bandalag Evrópuríkja kynnu á hinn bóginn að togast á með óæskilegum hætti. Af ýmsum ástæðum er þó ólíklegt að kostur þessi verði að veruleika.
    Líklegri kosturinn er sá að ríki Evrópubandalagsins sjái sér áfram hag af varnarsamstarfi við ríki Norður - Ameríku á vettvangi Atlantshafsbandalagsins þrátt

fyrir það að Evrópa taki í vaxandi mæli ábyrgð á eigin öryggis - og varnarkerfi. Í þessu tilviki mun Ísland hnattstöðu sinnar vegna áfram gegna veigamiklu hlutverki í vörnum Vesturlanda. Nauðsynlegt er hins vegar að Ísland leggi á það ríka áherslu í samskiptum við ríki Evrópubandalagsins að óeðlilegar tálmanir verði fjarlægðar í viðskiptum ríkja sem samleið eiga í öryggis - og varnarmálum en eins og fram kemur í 2. gr. stofnsáttmála Atlantshafsbandalagsins ber aðilum þess að eyða ágreiningi um efnahagsstefnu þeirra á alþjóðavettvangi og hvetja til efnahagssamvinnu.
    Virðulegi forseti. Þeir sem þessi orð settu inn í Atlantshafssamninginn hafa verið framsýnir menn og á það kann að reyna í vaxandi mæli í framtíðinni.