Utanríkismál
Fimmtudaginn 08. nóvember 1990


     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegur forseti. Síðasta ár hefur verið um margt viðburðaríkt á sviði utanríkismála. Fáa hefði órað fyrir þeim breytingum sem hafa átt sér stað í Mið - og Austur - Evrópu þótt vissulega hafi breytingarnar átt sér vissan aðdraganda. Enn ríkir mikil óvissa með framhaldið. Hvernig tekst þessum þjóðum sem hafa lyft af sér okinu og hafnað miðstýringu og einveldi að vinna úr þeim breytingum sem orðið hafa? Það sem hlýtur að vekja bjartsýni í hugum allra er að með breytingunum í austurhluta Evrópu verði afvopnun og varanlegur friður nær en vonir stóðu til fyrir aðeins nokkrum árum. Óvinaímyndin hverfur og ekki þarf lengur að magna upp þá mynd að Varsjárbandalagið og Atlantshafsbandalagið þurfi að vígbúast hvort gagnvart öðru með stórveldin í broddi fylkingar.
    Það vekur athygli að í skýrslu utanrrh. ber ákaflega lítið á friðarvilja frekar en í þeirri skýrslu sem við ræddum í mars sl., né bjartsýni á að fram undan væru betri tímar í heiminum vegna þeirra miklu breytinga sem átt hafa sér stað.
    Við lestur þessarar skýrslu er það þó ósamkvæmnin og mótsagnirnar sem vekja mesta athygli. Í upphafi talar hæstv. ráðherra um þær umbyltingar sem orðið hafa í alþjóðamálum og eins og segir á bls. 7: ,,... hefur vakið vonir um nýja skipan friðar og stöðugleika í álfunni. Áhrifa hins upprennandi tímabils sátta og samvinnu hefur gætt utan Evrópu sem innan. Í fyrsta sinn getum við nú ef til vill búist við að unnt verði að beina þeim kröftum, sem hernaðarkapphlaupið dró til sín áður, að samvinnu í þágu alls mannkyns.``
    Þetta hljóta allir að geta tekið undir. Og síðar segir hæstv. ráðherra á bls. 8: ,,Í einni svipan hefur nú sovéska heimsveldið dregið saman seglin. ... Síðast en ekki síst er nú verið að leggja lokahönd í Vínarborg á fyrsta samninginn um niðurskurð hefðbundins herafla, sem binda mun endi á getu Sovétmanna til skyndilegra sóknaraðgerða á meginlandi Evrópu.`` --- Óvinurinn er sem sagt horfinn.
    Grundvöllurinn að hernaðaruppbyggingu vesturveldanna er brostinn og engin ástæða lengur til að vígbúast, mætti lesa úr þessum orðum. En það þarf ekki að lesa lengi til að finna annan tón. Strax á næstu síðu reynir hæstv. ráðherra að viðhalda óvinaímyndinni. Þar segir, með leyfi forseta: ,,Framkvæmd væntanlegs CFE samkomulags``, sem er um hefðbundinn herafla í Evrópu, ,,mun engu um það breyta að Sovétríkin
verða áfram langstærsta herveldið á meginlandi Evrópu, bæði á sviði hefðbundinna vopna og kjarnavopna. Til þess að komið verði í veg fyrir óstöðugleika, sem kynni að skapast við slíkar aðstæður, er nauðsynlegt að ríki Norður - Ameríku axli áfram ákveðnar skuldbindingar í varnarsamstarfi við Evrópuríkin, en Atlantshafsbandalagið er hinn eini vettvangur sem treyst getur með árangursríkum hætti hin órofa bönd er tengja aðildarríkin yfir Atlantshafið.
    Hvort telur hæstv. ráðherra að endi sé bundinn á

sóknargetu Sovétmanna, eins og hann segir á einum stað, eða að þeir séu enn höfuðóvinurinn eins og segir á öðrum?
    Hæstv. ráðherra er tíðrætt um tengingu öryggismála og viðskipta og segir að síðustu ár hafi þess gætt að viðskipta - og efnahagsmál séu í auknum mæli tekin að hafa áhrif á stefnumótun í öryggismálum. Hvað á ráðherrann við? Orðrétt segir á bls. 10: ,,Í samningum við bandamenn um aðgang að mörkuðum var einnig tekið tillit til lykilhlutverks Íslands í vörnum Vestur - Evrópu.`` Hvaða samninga er þarna átt við? Er hann e.t.v. að tala um viðskipti Íslands við Evrópubandalagið? En á bls. 11 segir: ,,Á hinn bóginn kynni Evrópubandalag, sem hefði varnarmál á stefnuskrá sinni, einnig að sjá sér hag í auknum samskiptum við Ísland í ljósi hernaðarlegs mikilvægis landsins, en slíkt kynni að greiða fyrir samningum um viðskipti Íslands og Evrópubandalagsins.`` Hvernig hafa þessi mál komið inn í samninga við Evrópubandalagið? Ég tel nauðsynlegt að hæstv. ráðherra varpi ljósi á þetta við þessa umræðu.
    Hér eru einnig mótsagnir sem bera þess merki að hæstv. ráðherra veit ekki sitt rjúkandi ráð. Ég vitna enn í skýrslu ráðherrans: ,,Í varnarmálum hefur mikilvægi tvíhliða varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna aukist, en jafnframt er það Evrópubandalagið sem er orðið stærsti markaðurinn fyrir íslenskar útflutningsvörur.`` Síðan segir enn fremur: ,,Misklíð milli fyrrum bandamanna vestan hafs [og þá er hann væntanlega að tala um Bandaríkin] og austan [og þá er hann væntanlega að tala um Evrópubandalagið] gæti haft varhugaverðar afleiðingar fyrir Ísland sem kynni að standa frammi fyrir afar erfiðu vali.`` Og síðan segir: ,,Hagsmunir í varnarsamstarfi við Bandaríkin og viðskiptum við bandalag Evrópuríkja kynnu á hinn bóginn að togast á með óæskilegum hætti.``
    Hvað er hæstv. ráðherra að fara í þessu sambandi? Telur hann að viðskipti milli þjóða geti ekki farið fram með eðlilegum hætti nema þær séu saman í hernaðarbandalagi? Telur hann að ef svo fer sem horfir að NATO liðist í sundur og Evrópubandalagslöndin taki upp sameiginlega utanríkisstefnu án samvinnu við Bandaríkin muni viðskipti milli Evrópubandalagsins og Bandaríkjanna stöðvast? Mér er eiginlega ómögulegt að skilja hvað ráðherrann er að fara í þessum kafla. Og enn þá síður skil ég hver óvinurinn er þá ef Evrópubandalaginu og Bandaríkjamönnum er stillt upp sem tveimur andstæðum öflum sem geta ekki haft samskipti sín á milli. Hvers vegna vaknar hjá ráðherranum sú spurning hvort tvíhliða varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna kunni ekki að vera enn þýðingarmeiri en áður? Hvernig samræmist þetta þeirri fullyrðingu að við kunnum að þurfa að standa frammi fyrir því að velja milli EB og Bandaríkjanna --- og valið meira að segja talið afar erfitt? Ég skil það mjög vel. Þetta er alveg með ólíkindum. Hvað um viðskipti við Mið - og Austur - Evrópu og hvað með Austur - Asíu? Þetta þarfnast nánari skýringar.
    Ekki virðist örla á þeirri hugsun að Ísland geti

staðið utan við öll hernaðarbandalög eða að þau muni heyra sögunni til innan tíðar. Það virðist gengið út frá því að Ísland verði að kasta sér í fang annaðhvort Bandaríkjanna eða Evrópubandalagsins, um annað sé ekki að velja. Og hæstv. ráðherra tekur meira að segja fram að valið verði erfitt. Þarna lýsir hann Íslandi sem ósjálfstæðu peði í ólgusjó.
    Þegar kemur svo að kaflanum um varnir Íslands er ekki hægt að sjá að neitt hafi breyst í friðarátt í heiminum. Sá kafli er á bls. 44 í skýrslu ráðherrans, en þar segir með leyfi forseta:
    ,,Eftir sem áður verða tryggar land-, loft- og tundurduflavarnir nauðsynlegar til þess að tryggja íslenska varnar - og öryggishagsmuni og sjóflutningaleiðir yfir Atlantshafið.
    Reglubundnar liðsaukaæfingar bandaríska varnarliðsins (ARICE) á Íslandi munu áfram vera forsenda þess að framkvæma megi varnaráætlanir fyrir Ísland á hættu - eða ófriðartímum.``
    Ég hélt að hættu - og ófriðartímar væru liðnir hjá í þessum heimshluta. Mig langar að vekja athygli á þessum reglubundnu liðsaukaæfingum og nú sakna ég hæstv. fjmrh. sem steig hér aðeins í ræðustól áðan þar sem ég hefði gjarnan viljað spyrja þá alþýðubandalagsmenn um þessar reglubundnu liðsaukaæfingar. Ég minni á að síðast þegar þær voru hér voru uppi miklar deilur. Það væri fróðlegt að vita hvað er ráðgert í þessum efnum og hvort búið sé að velja þjóðhátíðardag Íslendinga aftur fyrir þessar æfingar eins og gerð hefur verið. Sérstaklega langar mig til að vita hver hugur alþýðubandalagsmanna er til þessa máls en e.t.v. er ekki rétt að vera að trufla þá með miklum spurningum þar sem þeir eru nú búnir að afnema stefnuskrá sína þannig að þeir vita kannski ekki hvaða stefnu þeir hafa í þessu máli fremur en öðrum.
    Í þessum kafla um varnir Íslands örlar ekki á sjálfstæðri varnarstefnu. Spurningin er hve stór þáttur af því viðhorfi sem þarna kemur fram er tengdur efnahagslegum áhrifum Bandaríkjahers hér á landi en þau eru auðvitað veruleg.
    Ég hef allt aðra sýn til þessara mála. Ísland á að standa utan við öll hernaðarbandalög og önnur bandalög sem hefta viðskipti og önnur samskipti milli þjóða. Við eigum að vinna gegn hugarfari hermennskunnar og stefna að friðlýsingu Íslands án vígbúnaðar. Okkar verkefni er að uppræta hugarfar hermennskunnar í stað þess að ala á því eins og gert hefur verið hingað til af ráðandi öflum.
    Það var mikið ánægjuefni þegar það fréttist að hæstv. utanrrh., studdur dyggilega af hæstv. forsrh., setti fram þá kröfu að takmörkun vígbúnaðar á höfunum væri tekin með í afvopnunarviðræðurnar og þær væru ekki einungis bundnar við landher. Atlantshafsbandalagið hefur neitað að taka undir þetta sjónarmið Íslendinga og eru það helst Sovétmenn sem styðja þá í þessari kröfu ef marka má það sem stendur í skýrslu utanrrh. Þó stendur á bls. 26, með leyfi forseta:
    ,,Íslendingar eru ekki einir bandalagsríkja um þá afstöðu að nauðsynlegt sé að taka höfin inn í samningaviðræður, þegar afvopnunarsamningar um hefðbundin vopn hafa náðst.``
    Mig langar að spyrja ráðherrann hvaða bandalagsríki hafi stutt þessa kröfu okkar eins og þarna er sagt að þau hafi þó gert. Annars mun hv. þm. Anna Ólafsdóttir Björnsson gera frekari grein fyrir þessum þætti síðar í umræðunni.
    Þrátt fyrir friðarhorfur í okkar heimshluta er ástandið mjög slæmt í öðrum hluta heimsins. Eftir innrás Íraka í Kúvæt hefur ástandið við Persaflóa verið þannig að jafnvel er búist við að upp úr sjóði á hverri stundu. Auðvitað vona allir að hægt verði að leysa vandann án þess að til frekari átaka þurfi að koma. Aðgerðir Sameinuðu þjóðanna virðast fremur lítinn árangur hafa borið enn þá. Við verðum að leggja okkar af mörkum til að forða hernaðarátökum. Það getum við gert m.a. á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Ég er hins vegar algjörlega á móti því að Ísland blandist inn í átök við Persaflóa eins og mér sýnist mega ráða af því sem kemur fram á bls. 41 í þessari skýrslu. Þar segir, með leyfi forseta: ,,Einnig hefur ýmiss konar herafli eyrnamerktur vörnum Atlantshafsbandalagsins verið sendur til Persaflóa.`` Hvað er þarna á ferðinni? Lítur NATO á sig sem einhvers konar alþjóðalögreglu? Er það stefna Íslands að fara með beinar hernaðaraðgerðir inn á þetta svæði? Er samstaða um þessa stefnu innan NATO? Þarna er farið inn á mjög hættulega braut.
    Það eru hins vegar fleiri ríki en Írakar sem beita þjóðir vopnavaldi. Ísraelsmenn halda palestínsku þjóðinni undir hervaldi. Einnig þar eiga Íslendingar að beita sér. Hvað hefur hæstv. utanrrh. um þetta mál að segja í skýrslu sinni? Hann telur að ástandið sé óviðunandi og áhyggjuefni hvernig Ísraelsmenn hafa hagað sér. Lengra nær það nú ekki. Veit ráðherrann ekki að ísraelskir hermenn hafa á þremur árum drepið um 900 óbreytta borgara, þar af yfir 160 börn, sært og limlest í kringum 100 þúsund manns? Veit ráðherrann að Ísraelsmenn hafa lagt í rúst allt palestínskt skólakerfi og vinna að því er virðist markvisst að því að útrýma palestínsku þjóðinni?
    Hvað á ráðherrann við þegar hann segir að Arabar og Ísraelsmenn verði sjálfir að hafa forgöngu um að finna friðsamlega lausn á deilunni eins og hann kallar það? Og hvernig getur hann talað um að fólk undir hernámi sé deiluaðili? Telur hæstv. ráðherra ályktun Sameinuðu þjóðanna um friðarráðstefnu um Miðausturlönd einskis virði? Í ályktun Sameinuðu þjóðanna frá 1989, nr. 44, um friðarráðstefnu í Miðausturlöndum, segir m.a., með leyfi forseta, þegar verið er að ræða um þessi mál:
    ,,Kölluð verði saman alþjóðleg friðarráðstefna um Miðausturlönd með þátttöku allra deiluaðila, þar með talin frelsishreyfing Palestínu auk hinna fimm föstu meðlima öryggisráðsins.`` Og síðar: ,,Brottflutningur Ísraels frá landsvæðum í Palestínu sem hernumin voru 1967``, einnig ,,að tryggt sé öryggi allra ríkja á svæðinu, þar með talin þau sem nefnd eru í ályktun nr. 181 frá 29. nóv. 1977, innan öruggra landamæra sem hlotið hafa alþjóðlega viðurkenningu, og leyst verði vandamál Palestínuflóttamanna í samræmi við ályktun allsherjarþingsins, nr. 194 frá 11. des. 1948, og síðari ályktanir þar um, og að rifnir verði niður bústaðir Ísraels á landsvæðum sem hernumin hafa verið síðan 1967.``
    Öll Norðurlöndin greiddu atkvæði með þessari ályktun. Er ráðherrann ekki sammála þessari ályktun? Ísland greiddi þó atkvæði með henni. Hve lengi ætlar Ísland að líða það sem á sér stað á herteknu svæðunum?
    Í Morgunblaðinu þann 6. nóv. 1990 birtist frásögn af einu dæmi um það hvernig Ísraelsmenn beita hinum hrottalegustu aðferðum. Þar segir, með leyfi forseta: ,,Ísraelskir hermenn særðu 300 Palestínumenn á Gazasvæðinu um helgina, 20 þeirra lífshættulega, og skutu a.m.k. einn til bana. Eru það blóðugustu átök sem orðið hafa frá því mótmæli Araba gegn morðum á 18 Palestínumönnum á Musterishæðinni 8. okt. sl. hófust. Hermennirnir skutu plasthúðuðum stálkúlum á mótmælendur og táragasi. Enn fremur var táragassprengjum og grjóti sturtað yfir mannfjöldann úr herþyrlum báða dagana.`` Við Íslendingar getum ekki setið hjá og látið sem okkur komi þetta ekki við. Við höfum skyldum að gegna í þessum efnum. Við eigum að gera ríkisstjórn Ísraels ljóst að við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma í veg fyrir þau mannréttindabrot sem framin eru á herteknu svæðunum. Hingað til hefur ríkisstjórn Íslands með óbeinum hætti lagt blessun sína yfir það sem þarna er að gerast.
    Alþingi hefur látið til sín taka í þessu máli þó að af veikum mætti hafi verið. Þann 8. maí 1989 var samþykkt ályktun hér á Alþingi þar sem m.a. er mælst til þess að Ísland hafi vinsamleg samskipti við frelsissamtök Palestínumanna, PLO. Hvað hefur ríkisstjórnin gert til þess að framfylgja þessari ályktun? Ég tel eðlilegt að Ísland sláist í hóp þeirra ríkja sem viðurkenna rétt Palestínumanna til sjálfsákvörðunar og til ríkis síns þannig að við þurfum ekki að horfa lengur upp á það sem þarna er að gerast. Allir ættu að geta fallist á viðurkenningu Íslands á tilverurétti og sjálfstæði Palestínu og það sé ekki síður mikilvægt en stuðningur okkar við sjálfstæðisviðleitni annarra ríkja þó nær okkur séu.
    Ísland er hluti af samfélagi þjóðanna og okkur ber að axla þá ábyrgð sem því fylgir. Gæðum jarðar er misskipt og réttlætið fótum troðið. Íslendingum ber að taka afstöðu á alþjóðavettvangi gegn misrétti og kúgun í hvaða mynd sem er. Ofnýting jarðargæða, skortur og offjölgun mannkyns kallar á nýjar lausnir. Bilið milli ríkra og fátækra vex og það eru konur og börn og hinir eignalausu og valdalausu sem þjást mest.
    Framlag Íslands til þróunaraðstoðar hefur verið skammarlega lágt og enn hefur ríkisstjórnin ekki á prjónunum að bæta þar um. Það eina sem heyrst hefur af hálfu ríkisstjórnarinnar er það sem forsrh. minntist á hér áðan, að stofna sérstakan sjóð og þá væntanlega með sérstökum skatti á þjóðina í þessu sambandi. Ef sú hugmynd verður að veruleika mun varla líða á löngu að farið verði að hirða þann markaða

tekjustofn eins og af öðrum, t.d. af Þjóðarbókhlöðu, öldruðum, ferðaþjónustu og fleirum. Hv. þm. Þórhildur Þorleifsdóttir mun síðar í umræðunni gera þennan þátt að frekara umtalsefni.
    Ég get tekið undir það með hæstv. forsrh. sem hann sagði hér áðan, hve mikilvæg umhverfismálin eru í alþjóðasamhengi. Ég get líka tekið undir það að mikilvægt er að gerður verði alþjóðasáttmáli um umhverfismál. Við megum samt ekki gleyma því að taka til í okkar eigin garði. Við megum ekki vera upptekin af að segja öðrum hvernig þeir eigi að bregðast við í umhverfismálum á sama tíma og við látum hjá líða að gera kröfur hérna heima. Það er áætluð umhverfismálaráðstefna í Brasilíu árið 1992 og mig langar til að spyrja hæstv. utanrrh. hvað líði undirbúningi fyrir ráðstefnuna og hvernig að þeim undirbúningi hafi verið staðið og hvernig ætlunin er að þátttaka Íslands verði í þeirri ráðstefnu.
    Það eru fjölmargir þættir, virðulegi forseti, í þessari skýrslu sem hefði verið rétt að gera að umtalsefni, en ég ætla ekki að gera það að svo stöddu. Ég verð þó að fara örfáum orðum um utanríkisviðskipti okkar. Það er þó ekki langt síðan við ræddum þau hér í þinginu í tengslum við skýrslu utanrrh. um samningana milli EFTA og Evrópubandalagsins. Þá lýsti ég þeirri skoðun minni að þær samningaviðræður muni ekki tryggja hagsmuni okkar. Íslendingar eiga meira undir utanríkisviðskiptum komið en flestar aðrar þjóðir. Frjáls vöruviðskipti eru því þjóðinni hagkvæm og mikilvægt að geta stundað tollfrjálsa verslun með útflutningsafurðir. Um 3 / 4 hlutar gjaldeyristeknanna eru fyrir sjávarafurðir. Miklar sveiflur hafa verið í útflutningi til einstakra heimshluta á þessari öld. Um tíma var mikið magn sjávarafurða flutt út til Bandaríkjanna og Austur-Evrópu, en að undanförnu hefur vægi markaða í löndum Evrópubandalagsins aukist mikið og nýir markaðir verið að opnast, m.a. í Japan.
    Það er keppikefli fyrir Íslendinga að eiga tollfrjálsan aðgang fyrir afurðir sínar á öllum þessum mörkuðum. Af sögunni má læra að skynsamlegt er að binda sig ekki um of við eitt markaðssvæði heldur eiga möguleika sem víðast. Þannig styrkjum við stöðu okkar út á við og treystum efnahagslegt sjálfstæði. Gæta þarf þess að missa ekki þá fótfestu sem við höfum haft fyrir fiskafurðir á Bandaríkjamarkaði og víða, m.a. í Mið - og Austur - Evrópu, geta verið að opnast nýir markaðir.
    Sérstaða Íslands sem fiskveiðiþjóðar veldur því að afar óskynsamlegt er að binda þjóðina einum markaði eða efnahagsbandalagi sem þrengt gæti svigrúm hennar í utanríkisviðskiptum. Þvert á móti þjónar það hagsmunum okkar að vera óháð í samskiptum út á við og leita sem bestra samskipta með beinum samningum við einstök ríki og markaðsheildir.
    Þetta á við um samskipti Íslands við Evrópubandalagið sem farið hafa vaxandi og eru þjóðinni mikilvæg. Við Evrópubandalagið þurfa Íslendingar að ná hagstæðum viðskiptasamningum og gagnkvæmum samskiptum á öðrum sviðum, þar á meðal í rannsóknum,

menntun og umhverfismálum. Við eigum eðlilega kröfu á hendur EB að veita okkur tollfrjálsan aðgang með fiskafurðir hliðstætt því sem við gerum með innflutning iðnaðarvarnings þaðan. Hitt ætti að vera jafnljóst að það getur ekki þjónað hagsmunum Íslendinga sem smáþjóðar að tengjast Evrópubandalaginu nánum böndum, hvað þá að ganga í bandalagið.
    Við eigum að leggja áherslu á gott samstarf við aðrar þjóðir án þess að stefna efnahagslegu og menningarlegu sjálfstæði okkar í hættu. Við eigum að halda þétt utan um sjálfstæði okkar og fullveldi. Aðeins þannig getum við nýtt þá möguleika sem land okkar býr yfir.