Utanríkismál
Fimmtudaginn 08. nóvember 1990


     Þorv. Garðar Kristjánsson :
    Hæstv. forseti. Sú umræða sem nú stendur yfir hófst með ítarlegri yfirlitsræðu hæstv. utanrrh. um utanríkismál. Stofninn í hans ræðu var skýrsla utanrrh. sem hér er á dagskrá. Skýrsla hæstv. utanrrh. er fyrir margra hluta sakir merkilegt plagg. Þar er að finna ýmsan fróðleik um ástandið í Sovétríkjunum og ríkjum Mið - og Austur - Evrópu. Sovétríkjunum eru gerð skil og Eystrasaltsríkjunum og svo koma hin ríkin hvert af öðru: Búlgaría, Pólland, Rúmenía, Tékkóslóvakía og Ungverjaland. Kaflinn um pólitíska samvinnu, afvopnun og afmörkun vígbúnaðar er og athyglisverður. Þar er að finna ýmsar handhægar upplýsingar um ráðstefnuna um öryggi og samvinnu í Evrópu. Enn fremur er þar minnst á tvær ráðstefnur aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins og Varsjárbandalagsins sem haldnar hafa verið. Tíundaðir eru ýmsir atburðir sem gerst hafa í afvopnunarmálum og takmörkun vígbúnaðar.
    Sá hluti skýrslunnar sem helgaður er alþjóðastofnunum, Sameinuðu þjóðunum og Evrópuráðinu er einnig góðra gjalda verður. Sama má segja um hin svæðisbundnu deilumál sem gerð er grein fyrir, hvort heldur það er Írak og Kúvæt, Kambódía eða annað sem þar er talið upp. Hin hefðbundnu viðfangsefni sem hér er um að ræða láta sig ekki vanta, svo sem Norðurlandasamvinna, samvinna á vettvangi Atlantshafsbandalagsins, utanríkisviðskipti, þróunarsamvinna og hafréttarmálefni. Allt þetta skal móttekið þakksamlega. En jafnframt hrópar þetta á það sem saknað er í skýrslu þessari og hefði ekki mátt missa sín.
    Skýrslan gerir ekki skil nýjum viðhorfum til öryggis - og varnarmála landsins með hliðsjón af hinni öru þróun heimsmála um þessar mundir. Að vísu er í skýrslunni fjallað í sérstökum kafla um starfsemi tengda varnarsvæðum Atlantshafsbandalagsins. Þar er drepið á ýmis atriði svo sem varnarmálaskrifstofuna, ríkisstofnanir á varnarsvæðum og framkvæmdir á vegum varnarliðsins. Jú, allt er þetta með. Ekki er samt nema hálf síða í öllu þessu mikla ritverki hæstv. utanrrh. helgað sjálfri varnarstöð Atlantshafsbandalagsins hér á landi, eftirlits - og varnarhlutverki og vörnum Íslands. Er þar ekkert bitastætt að finna nema þá það helst að hernaðarlegt mikilvægi Íslands byggist á hnattstöðu landsins, eins og það er orðað, ef einhver skyldi ekki hafa vitað það áður. Ekki er minnst á hin breyttu viðhorf sem fylgja nýjum samskiptum risaveldanna, þverrandi stríðsbúnaði, afvopnun og takmörkun vígbúnaðar, þ.e. með tilliti til eðlis og hlutverks varnarstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli. Að sjálfsögðu verður þessi dularfulla þögn um framtíð varnarstöðvarinnar ekki skýrð með því að hæstv. utanrrh. geri sér ekki grein fyrir aðstæðum í alþjóðamálum og að aðstæður í alþjóðamálum hafa gerbreyst á ótrúlega skömmum tíma. Í Evrópu hafa átt sér stað afgerandi umskipti. Hrun kommúnismans hefur borið að með skjótari hætti í Mið - og Austur - Evrópu en nokkur átti von á. Þetta hefur verið undirstrikað af mörgum hér í þessum umræðum. En þetta hefur vakið vonir um nýja skipan friðar og stöðugleika í álfunni. Áhrifa hins upprennandi tímabils sátta og samvinnu hefur gætt utan Evrópu sem innan. Þessar nýju aðstæður hafa hin margvíslegustu áhrif.
    Það er sérstakt ánægjuefni sem hér hefur áður verið tekið fram af öðrum að Sameinuðu þjóðunum skuli hafa vaxið ásmegin. Samtökunum hefur gefist aukið svigrúm til að beita sér í þágu öryggis í heiminum í samræmi við þær vonir sem við þær voru bundnar í upphafi. Hér er vissulega orðin mikil breyting á frá því þegar augljóst var að öryggiskerfi Sameinuðu þjóðanna megnaði ekki að hindra útþenslustefnu Sovétríkjanna og Atlantshafsbandalagið var stofnað til sjálfsvarnar þeim ríkjum sem að því stóðu. Samstaða ríkja Atlantshafsbandalagsins hefur skilað umtalsverðum árangri þó ekki sé nú meira sagt.
    Þegar langþráð markmið bandalagsins eru í höfn er óhjákvæmilegt að bandalagið sjálft taki stakkaskiptum. Aðlögun bandalagsins að nýjum kringumstæðum er nú þegar byrjuð. Unnið er að yfirgripsmiklu endurmati á varnarstefnu bandalagsins.
    Allt kom þetta fram í hinni yfirgripsmiklu ræðu hæstv. utanrrh. Enn fremur að á sviði hefðbundins herafla verður dregið úr vígbúnaði og áhersla lögð á aðstöðu til að kalla saman herlið með skömmum fyrirvara í stað virkra framvarna. Meir er þó um vert að Atlantshafsbandalagið hefur rétt Sovétríkjunum og fyrri fylgiríkjum þeirra í Varsjárbandalaginu hönd sátta og vináttu og áréttað að pólitísk samvinna verði eftirleiðis í öndvegi. Þetta þarf ekki að segja hæstv. utanrrh., allt veit hann þetta. Þetta er allt að finna í skýrslunni góðu sem við nú ræðum.
    En hæstv. utanrrh. veit meira. Hann veit að nauðsyn er að taka tillit til nýrra viðhorfa, m.a.s. ber einn kaflinn í skýrslu utanrrh. heitið ,,Aðlögun að breyttum aðstæðum``. Þar kennir ýmissa grasa. Með tilliti til aðlögunar er lögð áhersla á tiltekin atriði. Bent er á að verndun umhverfisins sé eitt þeirra brýnustu úrlausnarefna sem Sameinuðu þjóðirnar standi frammi fyrir um þessar mundir. Fyrir Íslendinga sem háðir eru auðlindum sjávar öðrum þjóðum fremur varði verndun umhverfisins lífshagsmuni. Allt eru þetta kunn sannindi.
    Það er tekið fram í skýrslu hæstv. utanrrh. að Evrópa hafi styrkst og sé nú farin að bjóða Bandaríkjunum birginn sem forustuafl í alþjóðaefnahagslífi. Af þeim sökum verði samstaða ríkja Atlantshafsbandalagsins í framtíðinni að miklu leyti undir því komin hvernig þeim tekst að leiða til lykta efnahagsleg viðskipti sín innbyrðis. Þannig er haldið áfram að benda á hinar breyttu aðstæður sem við Íslendingar þurfum að aðlaga okkur að. Enn er sagt að nauðsynlegt sé að gaumgæfa að fram sé komið nýtt afl í öryggismálum Evrópu, ráðstefnan um öryggi og samvinnu í Evrópu. Þá þykja aukin afskipti Evrópubandalagsins af öryggismálum orka tvímælis fyrir Íslendinga. Fari bandalagið inn á verksvið Atlantshafsbandalagsins kunni það að draga úr möguleikum Íslendinga sem standa utan Evrópubandalagsins til þess að hafa áhrif á stefnumótun Evrópuríkja í öryggismálum og stuðla þannig

að einangrun landsins. Já, margt kemur til athugunar. Þannig er haldið áfram að boða aðlögun að breyttum aðstæðum og klykkt út með því að segja að á því breytingarskeiði sem nú fari í hönd í heiminum sé þörf fyrir áframhaldandi árvekni Íslendinga í utanríkismálum.
    Allt er þetta sjálfsagt og rétt. Allt er þetta gott og blessað. En það er hrópandi spurning hvers vegna ekki er minnst einu orði á breytingar á hlutverki og stöðu varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli þegar fjallað er um aðlögun að nýjum viðhorfum í hernaðarmálum heimsbyggðarinnar. Það er svo furðulegt að næst er að spyrja hver sé ástæðan, hver sé hinn óttalegi leyndardómur. Það getur engum blandast hugur um að hinir heimssögulegu viðburðir á meginlandi Evrópu hafa bæði bein og óbein áhrif á íslensk öryggismál. Hrun kommúnismans og upplausn í röðum Varsjárbandalagsins gera það að verkum að pólitískar forsendur fyrir beitingu hervalds af hálfu Sovétmanna gegn vestrænum ríkjum eru tæpast fyrir hendi. Umfangsmikill niðurskurður hefðbundinna herja Mið - Evrópu ásamt brottkvaðningu herja Sovétmanna frá ríkjum Mið - og Austur - Evrópu hefur afgerandi áhrif í þá átt að draga úr hættunni á ófriði. Ég ætla að þessu sé hvergi mótmælt. Menn getur greint á um það hvað mikið það dragi úr hættunni en alls ekki um þessi heildaráhrif.
    Það er augljóst að allt þetta hefur í för með sér að yfirburðastyrkur Varsjárbandalagsins til skyndiárása og hernáms landsvæða á meginlandinu er ekki lengur fyrir hendi. Einnig hefur sá aðvörunartími sem aðildarríki Atlantshafsbandalagsins hafa til þess að svara hugsanlegri árás aukist verulega þar sem Sovétríkin kæmu til með að þurfa að flytja liðsauka til hernaðaraðgerða í Vestur - Evrópu lengri veg. Samdráttur á sviði hefðbundins herafla í Evrópu dregur stórlega úr þeirri hernaðarógn sem Atlantshafsbandalagið hefur staðið frammi fyrir.
    Þróun í stjórnmálum Evrópu hefur síðustu missiri öll verið í sömu átt. Það er ekkert nú sem bendir til að stöðugleika sé ógnað. Eðlilegt er því að gera ráð fyrir að þróunin haldi áfram í núverandi farvegi. Haldi stjórnmálaþróunin í Evrópu fram sem horfir er augljóst að það öryggiskerfi sem hefur verið við lýði í Evrópu mestallan tímann frá stríðslokum tekur verulegum breytingum. Hverjar þær breytingar verða í einstökum atriðum mun tíminn skera úr um. En gera má ráð fyrir að vægi pólitískra þátta muni aukast jafnframt því sem dregur úr hernaðarlegum þáttum. Með tilliti til þessa eru ríki Atlantshafsbandalagsins að endurmeta varnarþörfina. Þegar svona er komið gefur auga leið að nú er nauðsyn að endurmeta hlutverk og stöðu varnarstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli og veru bandaríska varnarliðsins hér á landi.
    Öll ríki verða að láta landvarnir til sín taka með einum eða öðrum hætti. Ísland er engin undantekning í þessu efni. Við Íslendingar höfum leyst þetta viðfangsefni, að tryggja öryggi landsins út á við, með þátttöku okkar í Atlantshafsbandalaginu og samningi við Bandaríkin um varnarlið hér á landi. Eitt veigamikið verkefni varnarliðsins er nú að annast margs

konar eftirlitsstörf til öryggis og gæslu. Ýmsum þessara starfa erum við Íslendingar færir um að gegna sjálfir. Þau störf sem varða landvarnir og til mála kemur að við Íslendingar tökum í eigin hendur eru bæði margháttuð og mikilvæg. Sum höfum við þegar tekið að okkur, svo sem flugumferðarstjórn á Keflavíkurflugvelli, lögreglustjórn á Keflavíkurflugvelli og rekstur ratsjárstöðvanna. Ekkert er svo til fyrirstöðu að Íslendingar geti annast þá þyrluþjónustu sem rekin er nú af björgunarsveit varnarliðsins. Við Íslendingar eigum að geta tekið við öryggissveitum á Keflavíkurflugvelli, stjórn slökkviliðsins þar og eftirlitsstarfsemi sem þaðan er haldið uppi með haf - og loftsvæðum umhverfis Ísland. Það þarf undirbúning að sjálfsögðu til að takast á hendur svo veigamikil verkefni. Þjálfun manna til slíkra verka tekur í sumum tilvikum nokkra mánuði, í öðrum nokkur ár. Ekkert er eðlilegra en að þeir hinir sömu sem njóta góðs af öryggisgæslu í okkar heimshluta, svo að friður megi haldast, standi undir kostnaði af þessari umsýslu. Hér gæti þá verið um að ræða skipan ekki óáþekka þeirri sem nú er á umsýslu okkar Íslendinga á hinu víðáttumikla svæði flugumferðarstjórnar á Norður - Atlantshafi sem Alþjóðaflugmálastofnunin ber kostnað af.
    Slíkar aðgerðir sem þessar eru nú þegar tímabærar með hliðsjón af þeirri öru þróun heimsmála um þessar mundir sem taka ber tillit til í viðhorfum til öryggis- og varnarmála landsins. Í landvörnum okkar fer stríðsviðbúnaður þverrandi en umsýsla eftirlits og hvers konar gæslu vegur meira. Þannig flyst áherslan frá því sem við erum sjálfir ófærir um til þess sem er innan marka hins mögulega fyrir okkur sjálfa.
    Hér er ekki gengið út frá að hernaðarlegt mikilvægi Íslands minnki í náinni framtíð nema síður sé. Nauðsynlegt er að eftirlitshlutverk varnarstöðvarinnar í Keflavík verði virkt eftir sem áður. Hér er verið að tala um þátttöku okkar sjálfra í þessu eftirlitshlutverki. Það er ekki verið að tala um að rýra sjálft eftirlitshlutverkið. Það er verið að tala um að við öxlum ábyrgð sem frjálst og fullvalda ríki til
að fara með þau varnarmál sem við erum fær um.
    Ég hefði ætlað að þessum nýju viðhorfum í varnarmálum Íslands yrðu gerð einhver skil í skýrslu hæstv. utanrrh. En það vottar ekki fyrir slíku. Um það er ekki aukatekið orð. Samt er skýrslan sjálf að meginefni skilmerkileg greinargerð um þá byltingarkenndu heimsþróun sem í senn er ástæða og forsenda fyrir gerbreytingu á meðferð okkar á varnarmálum landsins. Það er engin ályktun dregin af því sem hefur verið að gerast úti í hinum stóra heimi á þann veg að það gefi tilefni til breytinga í rekstri varnarstöðvarinnar með tilliti til þátttöku Íslendinga í eigin landvörnum. Ekkert er um þessi efni hér í skýrslu hæstv. utanrrh. Það er ekki einu sinni ýjað að því. Hvenær hefði átt að skenkja þessu hugsun ef ekki nú?
     Öllum er ljóst og við blasir að mikil og söguleg þáttaskil eru að verða. Kalda stríðinu er lokið. Óhjákvæmilega leiðir það til þess að við hljótum að endurskoða stöðu okkar í eigin landvörnum. Við getum ekki gert ráð fyrir öllu óbreyttu. Þó að við vildum

það sjálfir eigum við ekki víst að aðrir sem koma við sögu vilji það. Meira að segja er það ekki fyrir fram gefið að Bandaríkjamenn fýsi að hafa hér á landi herstöð um langa framtíð. Það er ekki fyrir fram gefið, við höfum enga tryggingu fyrir því. Við ráðum ekki þeim á Bandaríkjaþingi. Og við verðum að gera ráð fyrir þeim möguleika að það geti tekið endi eins og er um ýmsar aðrar herstöðvar Bandaríkjanna víðs vegar um heim. Þessu breytir ekki þó að um þessar mundir liggi ekki fyrir neinar breytingar á vilja Bandaríkjamanna í þessu efni hvað viðkemur herstöðinni hér á landi. En við Íslendingar verðum að vera viðbúnir því sem koma vill og við getum ekki verið viðbúnir nema við finnum til þeirrar ábyrgðar sem hvert fullvalda ríki verður að bera á sínum eigin landvörnum. Sú ábyrgð hlýtur óhjákvæmilega að vera í því formi sem efni okkar og ástæður leyfa, hvort sem um er að ræða varnarsamning við Bandaríkin, herstöð Atlantshafsbandalagsins eða alþjóðlega eftirlitsstöð eins og hreyft hefur verið af sumum í umræðum. Kjarni málsins, hvað okkar sjálfa áhrærir, er hvert okkar eigið framlag og þátttaka verður í því sem viðkemur okkar eigin landvörnum.
    Hér er slíkt stórmál á ferðinni að hlýtur að skipta sköpum fyrir land okkar og stöðu í samfélagi þjóðanna. Ég er ekki að gera því skóna að svo umfangsmiklu máli sem þessu væru gerð full skil í þeirri greinargerð sem hæstv. utanrrh. gefur okkur í skýrslu sinni. Ég er ekki einu sinni að gefa í skyn að umtalsverða meðferð þessa mikla máls hefði átt að finna í venjubundinni skýrslu utanrrh. eins og hér er til umræðu. Hér er um slíkt stórmál að ræða að sérstaka skýrslu þyrfti um það og raunar margar áður en öll kurl væru komin til grafar. En engu að síður legg ég áherslu á að í þessari skýrslu sem við nú ræðum hefði átt að vekja athygli á þessu og því mikla viðfangsefni sem biði okkar við að móta framtíðarstefnu fyrir eigin þátttöku í vörnum landsins. Hér er einmitt um að ræða viðfangsefni sem kallar á meðferð stjórnvalda og krefur úrlausnar. Hér er um að ræða mál sem leitar á hugi fólksins í landinu. Þjóðin lætur sig varða þau mál sem snerta varnir landsins. Það þarf ekki að minna á að engin mál hafa snortið þjóðina meir allt lýðveldistímabilið en einmitt varnarmálin. Ekkert hefur valdið meiri ágreiningi. Varnarmálin hafa klofið og sundrað þjóðinni um það sem mestu varðar fyrir frelsi og öryggi landsins. Þessi ágreiningur hefur valdið mestum innanlandsátökum síðari tíma. Slíkt ástand er hættulegt hverri þjóð sem er, hvað þá heldur smáþjóð sem okkur Íslendingum sem varðar mestu að samstaða gæti ríkt um það sem varðar lífshagsmuni og tilveru þjóðarinnar.
    Nú eru þáttaskil í þróun varnarmála. Stefnan sem fylgt hefur verið í rás tímans hefur sannað gildi sitt. Tímum hins hættulega ágreinings og átaka á að vera lokið. Viðfangsefni nútímans og framtíðarinnar bíða úrlausnar. Þau varða fyrst og fremst þátttöku okkar Íslendinga í eigin landvörnum. Um slíkt viðfangsefni ætti þjóðin að geta sameinast. Hæstv. utanrrh. þekkir ekki sinn vitjunartíma þegar hann lætur hjá líða að

geta þessa viðfangsefnis í skýrslu sinni sem við nú ræðum. En það er ekki nóg með þessa vanrækslu hæstv. utanrrh. Skýrsla hans gengur í þveröfuga átt, og taki menn eftir, skýrslan gengur í þveröfuga átt. Hann virðist svo rígbundinn í viðjum kalda stríðsins hvað viðkemur okkar eigin landvörnum að hann eygi ekki framtíðarlandið. Þó að hann lýsi þróun mála og heimsástandinu með ágætum virðist hann draga þær öfugsnúnu, órökréttu ályktanir af öllum breytingunum sem hafa orðið í umheiminum að allt eigi að sitja í sama farinu með landvarnir Íslands og þátttöku Íslendinga sjálfra í þeim. Við engu má hrófla. Þetta heitir, hæstv. utanrrh., að þekkja ekki sinn vitjunartíma.
    Lítum nánar á málin. Getur nokkur verið andsnúinn því að við Íslendingar önnumst sjálfir, eins og önnur fullvalda ríki, eigin landvarnir svo sem við erum færir um og kostur er á? Gerir nokkur ráð fyrir að erlent varnarlið verði í landi okkar um alla framtíð? Ef svo er ekki er spurningin aðeins sú hvenær varnarliðið eigi að halda á brott. Höfum þá í huga að hernum var í upphafi ekki ætlað að vera í landinu á friðartímum og lögð var áhersla á að svo skyldi aldrei verða. Er þá næsta spurning: Hvenær eru friðartímar? Þykir mér þá engin goðgá að tekið sé til athugunar hvort þeir tímar séu ekki einmitt nú eða hvort þróun heimsmála stefni ekki nú til þess að svo verði, ef það þá nokkurn tíma getur orðið. Menn gerðu ráð fyrir að það gæti þó orðið. Þess vegna var í upphafi talað um að herinn skyldi ekki vera á friðartímum. Ég leyfi mér að fullyrða að svo sé og byggi m.a. á lýsingum þeim á ástandinu og þróun heimsmála sem er einmitt að finna í skýrslu utanrrh. og ég hef hér áður greint frá. Ég leyfi mér að fullyrða að það komi til álita hvort nú séu ekki friðartímar eða friðartímar í uppsiglingu. Það fer ekkert á milli mála að friðvænlega horfir. En þá ber annað við en vænta mátti, því í skýrslu hæstv. utanrrh. segir að þrátt fyrir þetta muni verkefni bandaríska varnarliðsins ekki minnka. Þetta er bein fullyrðing í skýrslu utanrrh. Þetta er og í fullu samræmi við það sem sagði í skýrslu hæstv. utanrrh. á þessu ári, frá því í mars sl. Þar sagði að hinar miklu breytingar sem orðið hefðu og væru um það bil að eiga sér stað á sviði öryggis- og varnarmála í Evrópu gefi Íslendingum ekki tilefni til að hrófla --- takið eftir, þetta er orðalag skýrslunnar, --- til að hrófla við því fyrirkomulagi sem þeir hafi stuðst við í öryggis - og varnarmálum undanfarna áratugi. Þannig er það nú orðað. Þá vita menn skoðun hæstv. utanrrh. Manni verður í raun og sannleika orða vant við slíkar yfirlýsingar og það má hver sem er lá mér það.
    En eru aðrir ráðherrar sammála hæstv. utanrrh. í þessu efni? Á að skoða þetta sem stefnu ríkisstjórnarinnar? Er þetta stefna allra ríkisstjórnarflokkanna? Eru þingmenn stjórnarflokkanna sammála þessu? Það væri fróðlegt að heyra. Eða getur verið að búið sé að stinga alla stjórnarþingmenn slíku svefnþorni í varnarmálunum að engu megi breyta, ekki hrófla við neinu, eins og það er orðað í skýrslu hæstv. utanrrh.
    Sú var tíðin að gengið var út frá því að erlent

varnarlið yrði ekki í landinu um alla framtíð. Sú var tíðin. Sú var tíðin að gengið var út frá því að erlent varnarlið yrði ekki í landinu á friðartímum, sú var tíðin. Ég vil fullyrða að slík grundvallarsjónarmið hafi verið ríkjandi hjá öllum ríkisstjórnum landsins fram til þessa. Ég vil fullyrða að þetta grundvallarsjónarmið hafi verið ríkjandi. Með skýrslu hæstv. utanrrh. er hér brotið í blað. Það virðist koma fram það grundvallarsjónarmið að hvort heldur friðartímar gangi í garð eða ófriðvænlega horfi skuli hlutverk hins erlenda varnarliðs vera hið sama, sem þýðir að því verði haldið varanlega í landinu á hverju sem gengur. Hvort heldur er þetta nýja sjónarmið hæstv. utanrrh. stefna ríkisstjórnar, ríkisstjórnarflokka og stjórnarþingmanna eða ekki? Ætla menn kannski að láta sem ekkert sé?