Utanríkismál
Fimmtudaginn 08. nóvember 1990


     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Ég ætlaði ekki að blanda mér í þessa umræðu sem hér hefur farið fram í dag um utanríkismál en ég hef hlustað á hana af athygli. Það er greinilega komið nokkurt nýtt hljóð inn í umræðuna og það er ekki að undra eftir þá stórkostlegu atburði sem hafa átt sér stað í heiminum á síðustu mánuðum.
    Það sem ég ætlaði að gera hér að umtalsefni í örstuttu máli var nokkuð sem kom fram í ræðu hæstv. utanrrh., núna í seinni ræðunni, þar sem bar nokkuð mikið í milli miðað við orð hæstv. forsrh. í morgun þegar hann svaraði fyrirspurn varðandi GATT - viðræðurnar. Hæstv. forsrh. sagði að meining hæstv. ríkisstjórnar væri að færa styrki til landbúnaðar úr svokölluðum framleiðsluhvetjandi styrkjum í það að vera byggðastyrkir, eins og þekktir eru hjá mörgum þjóðum, þannig að ekki væri um það að ræða að minnka fjármagn til styrkja í landbúnaði, enda hefur það komið fram að þeir eru ekki meiri hér en gengur og gerist hjá okkar nágrannaþjóðum. Það hefur einmitt komið fram núna í tengslum við þá vinnu sem fer fram í GATT - samningunum. Aftur á móti talaði hæstv. utanrrh. um það að þarna ætti að draga verulega úr styrkjum, um einhverja milljarða jafnvel.
    Auk þess hefur minn skilningur varðandi svokölluð innflutningsjöfnunargjöld verið sá að varðandi búvörur sem kæmu til með að keppa við íslenskar búvörur yrði fyrst og fremst á grundvelli gæða en ekki verðs vegna innflutningsjöfnunargjaldanna auk þess sem strangar kröfur yrðu að sjálfsögðu gerðar af hálfu íslenskra yfirvalda hvað snerti heilbrigði og hollustu vörunnar, t.d. í sambandi við notkun eiturefna og hormóna og fleiri slíkra efna. Þetta vildi ég að kæmi hér fram, hæstv. forseti, þar sem mér finnst þetta skipta verulega miklu máli og það gangi ekki að á sama deginum komi hér tveir hæstv. ráðherrar og tali svona sinn í hvora áttina.