Utanríkismál
Fimmtudaginn 08. nóvember 1990


     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Hafi ég verið spurður um merkingu hugtaksins stofnvirki í fyrri ræðu hv. þm. þá hefur það farið fram hjá mér, ég biðst þá velvirðingar á því. Þetta er sérviskulegt orð og merking þess er eftirfarandi: Ráðstefnan um samvinnu og öryggi í Evrópu er að breytast í eitthvað sem heitir stofnun, institution. Undir þeirri regnhlíf er síðan verið að setja upp aðrar undirstofnanir, þannig að stofnvirki merkir hér undirstofnun.
    Að því er varðar hvað merki hin vestræna dýpt þegar verið er að ræða annars vegar þennan vísi að nýju öryggiskerfi Evrópu sem heildar með þátttöku 34 ríkja og hins vegar hin hefðbundnu varnar - og öryggissamtök vestrænna ríkja, þá þarf ekki að leggjast djúpt eftir merkingunni. Þarna er einfaldlega verið að undirstrika að sá er munurinn á að Atlantshafsbandalagið er samtök Vestur - Evrópuríkja og ríkja Norður - Ameríku sem hefur staðið í tæpa fimm áratugi. Hins vegar er verið að koma á samstarfsvettvangi ríkja sem styðjast við ýmsar ólíkar forsendur. Í þeim hópi verða hlutlaus ríki, í þeim hópi eru fyrrverandi aðildarríki Varsjárbandalagsins, í þeim hópi eru Sovétríkin sjálf. Við höfum sagt, og það er mín afstaða, þetta tvennt útilokar ekki hvort annað. Það ber að óbreyttu að viðhalda Atlantshafsbandalaginu sem samtökum, hinni vestrænu dýpt í hinu nýja öryggiskerfi, þótt hlutverk þess muni vafalaust breytast.
    Þriðja spurning var sú af hverju talað væri um varnarstöð NATO. Það er rétt sem hv. þm. segir. Varnarstöðinni er komið á með tvíhliða varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna. En það er gert innan ramma samstarfs Atlantshafsbandalagsríkjanna og innan ramma öryggiskerfis þess þannig að þessi varnarstöð starfar undir sameiginlegri herstjórn Atlantshafsbandalagsins og er þáttur í öryggiskerfi Atlantshafsbandalagsins. Þess vegna er í fyllsta máta eðlilegt að tala um hana sem varnarstöð Atlantshafsbandalagsins eins og gert er.
    Að því er varðar fjórðu spurninguna um ríkisoddvita þá merkir ríkisoddviti forsætisráðherra.