Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. sem ég er flm. að um forgang Vestfirðinga til samninga við Grænlendinga. Þar er gert ráð fyrir að fela ríkisstjórninni að taka upp viðræður og leita samninga við grænlensk stjórnvöld um samvinnu og sameiginlega aðild Grænlendinga og Vestfirðinga að ráðstöfunum, framkvæmdum og viðskiptum til hagnýtingar auðlinda og aðstöðu beggja aðila til gagnkvæmra hagsbóta. Þá er gert ráð fyrir að haft verði samráð við Fjórðungssamband Vestfirðinga.
    Það er margt sem tengir Ísland og Grænland, þó maður fari nú ekki að rekja söguna allt frá fundi Grænlands. Á síðustu árum hafa samskipti landanna aukist mjög og tekið á sig myndir sem leiðir af því að Grænlendingar hafa fengið sína heimastjórn. Á Alþingi 1984 var samþykkt ályktun um sameiginleg hagsmunamál Grænlendinga og Íslendinga. Þar var ríkisstjórninni falið að kanna til fullnustu möguleika á samkomulagi við Grænlendinga um sameiginleg hagsmunamál. Norræni þróunarsjóðurinn fyrir Færeyjar, Grænland og Ísland var stofnaður 1986. Alþingi samþykkti 1988 ályktun um samvinnu Íslands, Færeyja og Grænlands á sviði markaðsmála og viðskipta. Þá er samningurinn um loðnustofninn á hafsvæðinu milli Grænlands og Íslands og Jan Mayen, svo að eitthvað sé nefnt. Allt eru þetta mál á vettvangi hinna almennu samskipta milli landanna beggja, Grænlands og Íslands.
    Sú till. til þál. sem hér er lögð fram er annars eðlis. Hér er um að ræða mál sem varðar viðskipti Grænlendinga og Vestfirðinga sérstaklega. Till. þessi til þál. helgast af landfræðilegri legu Vestfjarða og nálægð við Grænland. Það er eðlilegast og hagkvæmast af þessum ástæðum að beina sem mestu af viðskiptum Íslendinga og Grænlendinga um Vestfirði. Er þess að gæta að þau samskipti sem hér er átt við eru þess eðlis að því minni sem fjarlægðin er milli aðila, þeim mun sjálfsagðara er náið samband um þau efni sem hér koma helst til álita. Er af mörgu að taka í þessu tilliti.
    Umskipanir á Vestfjörðum vegna hugsanlegrar námuvinnslu á Grænlandi má með sanni nefna. Hafnarskilyrði geta verið ákjósanleg á fleiri en einum stað á Vestfjörðum til að anna slíkum þörfum. Umskipun á öðrum afurðum Grænlendinga getur verið báðum aðilum til hagræðis og hagsbóta og þá ekki síst fiski til fiskvinnslustöðva. Slík viðskipti varða Vestfirðinga miklu hvort heldur þar er um að ræða tekjur af hafnargjöldum, skipaafgreiðslum, olíuviðskiptum, sölu á vistum eða viðgerðarþjónustu fyrir fiskiskip.
    Þá hafa Vestfirðingar tök á að veita Grænlendingum mikilvæga ráðgjöf um fiskvinnslu. Má þar nefna hönnun, smíði og uppsetningu vinnslukerfa og rekstrarráðgjöf kunnáttumanna. Ekki má heldur gleyma að Vestfirðingar eru sérlega vel færir um að veita Grænlendingum hina mikilvægu rafeindaþjónustu með sitt brautryðjendafyrirtæki í þeirri grein. Sama er að segja um veiðarfærasölu þar sem um er að ræða t.d. hina

ágætu netagerð sem fyrir hendi er.
    Vestfirðingar eiga á að skipa sérhæfðum iðnaðarmönnum og verktökum sem hafa ekki of mikið verkefni alltaf en ættu að geta sinnt byggingarverkefnum á Grænlandi. Í þessu sambandi er sérstaklega að geta möguleika á skipasmíði fyrir Grænlendinga sem Vestfirðingar eru færir um að sinna með sinni fullkomnu skipasmíðastöð og vélsmiðjum.
    Flugþjónusta kemur inn í þessa mynd og þá spurningin um hvort Vestfirðingar geti ekki með eigin flugfélagi gegnt veigamiklu hlutverki í flugsamgöngum við Grænland. Sérstaklega er áhugavert að tengja Vestfirði Grænlandi í ferðamálaþjónustu.
    Umboðssala á afurðum Grænlendinga kemur til greina, t.d. á ferskum og frosnum fiski, en Vestfirðingar hafa þegar fyrirtæki sem geta tekið að sér slík hlutverk. Í þessu sambandi orkar ekki tvímælis mikilvægi millilandaflugvallar í Dýrafirði sem á eftir að verða að veruleika.
    Margt fleira má að sjálfsögðu nefna sem getur orðið til hagsbóta báðum aðilum, Vestfirðingum og Grænlendingum. Grænlendingar mættu t.d. eiga eignarhlut í vestfirskum fyrirtækjum og öfugt. Það gæti verið eins gott að fá fiskvinnslufólk frá Grænlandi til starfa á Vestfjörðum og að sækja það til Ástralíu og Nýja - Sjálands.
    Hér verður engin tæmandi upptalning gerð á möguleikum á samvinnu Vestfirðinga og Grænlendinga. Á þessu máli er víðtækur skilningur og áhugi hjá Vestfirðingum. Fjórðungsþing Vestfirðinga samþykkti 1. sept. sl. eftirfarandi ályktun, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Fjórðungsþing Vestfirðinga 1990 fer fram á að Vestfirðingum verði veittur forgangur til samningagerðar við Grænlendinga á sviði atvinnu, viðskipta og þjónustu. Í því gæti m.a. falist eignaraðild að atvinnu- og þjónustusviði hér á landi og tengst hagnýtingu auðlinda. Þingið bendir á að nú fara fram forkannanir á flugvallarsvæði í Dýrafirði og ef þær rannsóknir lofa góðu opnast möguleikar á millilandaflugi. Með tilkomu jarðganganna yrði því greiður aðgangur milli hafna á svæðinu.``
    Að lokum skal tekið fram að þó að þessi þáltill. snerti Vestfirðinga sérstaklega hefur hún að sjálfsögðu mikið gildi fyrir samvinnu og viðskipti beggja þjóðanna í heild, Grænlendinga og Íslendinga. Ég leyfi mér, hæstv. forseti, að leggja til að þessari tillögu verði að lokinni þessari umræðu vísað til síðari umræðu og til hv. utanrmn.