Pétur Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Ég fagna því að þessi þáltill. er fram komin. Fyrst og fremst vegna þess að ég held að það sé löngu tímabært að við gerum okkur ljósa grein þess að samskipti okkar við Grænlendinga eru orðin nokkur, munu fara vaxandi og eru að mínu viti mjög æskileg fyrir Íslendinga ekki síður en Grænlendinga. Og það að fela Vestfirðingum forgang eða veita þeim forgang til samninga við Grænlendinga er kannski fyrst og fremst staðfesting á því sem Vestfirðingar hafa verið að gera. Það hafa verið býsna mikil samskipti við Grænlendinga af hálfu Vestfirðinga. Sem dæmi um það vil ég nefna að vinabær Ísafjarðar á Grænlandi heitir Nanortalik og milli þeirra bæja hafa verið öflug og góð samskipti um margra ára bil. M.a. kom sendinefnd allfjölmenn fyrir tveimur árum og átti viðræður við bæjarstjórn og ýmsa aðila á Ísafirði um ferðamál og samskipti og kynningu á ýmsum atvinnuháttum á báðum stöðum. Í framhaldi af því var síðan stór hópur skólamanna núna í vetur í heimsókn á Ísafirði og kynnti sér það sem þar er að sjá, atvinnuhætti, menningu og sögu. Þessi viðskipti eru gagnkvæm þannig að Ísfirðingar hafa á sama hátt farið utan og kynnt sér það sem er að gerast þarna sem er okkur að mörgu leyti mjög fróðlegt því margt í skipulagi og stjórnun þarna er þess eðlis að við getum lært af því, þó að ekki sé svo um allt.
    Ég bendi á þetta til að ítreka það að Vestfirðingar hafa haft mikil og vaxandi og mjög góð samskipti við Grænlendinga. Í gegnum flugvöllinn á Ísafirði hefur Flugfélag Norðurlands reyndar annast mjög viðamikla þjónustu við Grænlendinga en Ísafjarðarflugvöllur er núna sá sem liggur einna best við. Og eins og bent er á hér er flugvöllur í Dýrafirði sá flugvöllur sem sennilega mundi taka við stærstu hlutverki í millilandaflugi á Vestfjörðum en hann liggur mjög vel við samgöngum við Grænland.
    Af því að hér er getið um atvinnugreinar sem hentugt væri að þjónuðu Grænlendingum þá vil ég taka undir það að Netagerð Vestfjarða er orðið mjög öflugt fyrirtæki, hefur reyndar tekið frumkvæði, ekki bara í netagerð heldur líka með neðansjávarrannsóknum ýmsum. Í sjónvarpi núna fyrir skömmu var einmitt greint frá því sem þeir hafa verið að vinna með neðansjávarmyndavél. Þeir hafa unnið að veiðafærarannsóknum og þróun og eru mjög framarlega í sinni grein. Og ekki er þá síður fyrirtækið Pólstækni, sem er eitt af leiðandi fyrirtækjum í rafeindatækni fyrir sjávarútveg og sjávaraflavinnslu, þannig að á margan hátt held ég að Vestfirðingar geti átt þarna gott hlutverk til þess að þjóna Grænlendingum.
    Þá vil ég benda á að þessi þáltill. rímar ósköp vel við frv. til laga sem lagt var fram hér á þessu þingi, 100. mál á þskj. 103, sem er um breytingu á lögum nr. 33/1922, um rétt til fiskveiða í landhelgi Íslands. Þessi tvö mál fara ósköp vel saman því þar er verið að leggja til að færeysk og grænlensk fiskiskip verði undanþegin ákvæðum gamalla laga sem banna þeim að landa afla sínum í íslenskum höfnum nema með

sérstöku leyfi ráðherra. Þetta gæti einmitt farið mjög vel saman því að því hefur oft verið slegið fram fyrir vestan að við gætum haft meiri samskipti við Grænlendinga. Við vitum af kvóta sem þeir eiga til sjávarfangs við miðlínu sem liggur tiltölulega vel við Vestfjörðum. Þar má nefna t.d. loðnukvóta. Sú hugmynd hefur komið upp að Íslendingar eða Grænlendingar eða þjóðirnar í sameiningu gætu byggt og rekið loðnuverksmiðju t.d. á Vestfjörðum, Flateyri hefur verið nefnd, þar sem saman færu hagsmunir þessara tveggja þjóða um vinnslu þessa afla sem Grænlendingar yrðu ella að sigla með um langan veg til síns heimalands eða þá í erlend verksmiðjuskip við Grænlandsstrendur. Hvorugt er okkur hagkvæmt en aftur á móti gæti þetta fyrirkomulag verið okkur á margan hátt mjög hagstætt.
    Það er ítrekað hér að haft verði samband við Fjórðungssamband Vestfirðinga. Ég tek undir það vegna þess að þrátt fyrir ýmsar fréttir af áliti sveitarstjórnarmanna og landshlutasamtaka verðum við ekki vör við annað á Vestfjörðum en að Fjórðungssamband Vestfirðinga standi vel fyrir sínu sem sameiningartákn og samvinnutákn vestfirskra sveitarfélaga. Því held ég að það sé mjög æskilegt að samráð verði haft við það í þessu máli.