Karl Steinar Guðnason :
    Frú forseti. Ég er algerlega andvígur þessari till. Mér finnst gegna furðu að menn skuli flytja till. um að veita forgang til samninga við erlend ríki og á það sér vart hliðstæðu. Ég er hins vegar mjög sammála því að efla tengsl með Íslendingum og Grænlendingum. Báðir geta haft mikið gagn af því og ég er viss um að Grænlendingar vilja fá að ráða því hvert þeir leita um viðskipti við Íslendinga. Það eru nefnilega í lögum frá 1922 eða 1924 ákvæði um að ráðherra skuli einn geta veitt heimild til þess að erlend fiskiskip geti landað hér. Það er í krafti þessara laga sem Grænlendingar eru þvingaðir til þess að hafa samskipti við Vestfirðinga eina nema í undantekningartilfellum.
    Ég vil að það komi hér fram að Grænlendingar hafa mjög leitað til Hafnfirðinga um þjónustu. Þar hefur þeim verið veitt hvers kyns þjónusta með miklum ágætum og þeim líkað það mjög vel og vilja þangað helst koma eða a.m.k. ekki síður en annað. Ég minni á það líka að hvers konar aðstaða er fyrir hendi þar og annars staðar til þess að veita þá þjónustu sem hér er tilgreind.
    Ég var staddur á Grænlandi í sumar og ræddi m.a. við Grænlendinga um þessi samskipti. Þar kom greinilega fram að þeir vilja fá að ráða því sjálfir hvert þeir leita. Og ég er sannfærður um það að ætlum við að koma á góðum samskiptum þurfa báðir aðilar að ráða því við hverja þeir tala.
    Ég minni líka á það að ekki þarf að horfa nokkur ár fram í tímann hvað varðar gerð millilandaflugvallar, hann er fyrir hendi hér og við eigum náttúrlega að nota hann. Ég minni á það að maður sem ætlar að fara til Grænlands eða frá Grænlandi til Íslands verður að koma við í Reykjavík, þannig að það yrði nú að æra óstöðugan að ætla að átthagabinda það hvar menn koma að landi eða við hvern þeir hafa samskipti.
    Nokkrum sinnum hafa verið fluttar tillögur hér um að afnema þær hömlur sem lögin gömlu frá 1922 eða 1924 hafa í för með sér. Ég tel sjálfsagt að svo verði gert vegna þess að það er gersamlega úrelt og nær ekki nokkurri átt að það sé í hendi ráðherra hvar menn landa og hvar þeir hafa viðskipti. Og ég skil ekki þá miðstýringaráráttu sem þarna er að baki.
    Það er eitt í grg. sem vekur furðu mína þar sem segir: ,,Það gæti verið eins gott að fá fiskvinnslufólk frá Grænlandi til starfa á Vestfjörðum eins og að sækja það til Ástralíu og Nýja - Sjálands.`` Þarna er eiginlega látið að því liggja að það sé sjálfsagt að menn sæki útlendinga til vinnu hingað. Ég held að það væri öllu nær að stuðla að því að fiskvinnslan gæti greitt sæmileg laun, góð laun handa verkafólki svo það fáist í vinnu. Ef það eru ekki launin sem hamla þá hlýtur það að vera of mikill fiskur, sem Vestfirðingar segja reyndar að sé ekki. Ég tel alveg ótækt að það skuli vera hátt á þriðja hundrað manns, útlendingar, sem starfa við fiskvinnslu þar um slóðir. Við eigum ekki að fjölga slíkum störfum, þau eiga að falla í hlut Íslendinga og þeir eiga að njóta þeirra kjara sem fyrirtæki fyrir vestan virðast geta greitt útlendingum, sem hlýtur að vera kostnaðarsamara en að hafa Íslendinga í vinnu.
    Ég ætla ekki að fara fleiri orðum um þessa till. Ég er henni algerlega andvígur en legg áherslu á að það verði gert allt sem mögulegt er til að ná góðum samskiptum við Grænlendinga, auka þau og efla báðum til hagsbóta, en ekki að binda þau í átthagafjötra og miðstýringu.