Brúarframkvæmdir á Suðurlandi
Mánudaginn 12. nóvember 1990


     Flm. (Eggert Haukdal) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um brúarframkvæmdir á Suðurlandi svohljóðandi:
    ,,Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að hún hlutist til um að hraða hönnun og öðrum undirbúningi brúarframkvæmda á Suðurlandi í þeim tilgangi að eftirtaldar framkvæmdir verði ákveðnar sem hér segir við endurskoðun vegáætlunar í vetur:
    1. Ný brú á Markarfljót verði byggð og henni lokið á árinu 1991 vegna þeirrar miklu hættu sem stafar af skemmdum á gömlu brúnni frá því í sumar.
    2. Ný brú á Kúðafljót verði byggð í beinu framhaldi af framkvæmdum við Markarfljót.
    3. Brú á Hvítá hjá Bræðratungu verði byggð samkvæmt nánari tímaáætlun í framhaldi af verklokum við Kúðafljót.
    4. Áformum um byggingu göngubrúar yfir Ölfusá hjá Selfossi verði hrint í framkvæmd árið 1991.``
    Ný brú á Markarfljót er á gildandi vegáætlun þar sem gert er ráð fyrir að hún verði byggð á árunum 1991 og 1992 og ætlað fjármagn til hennar þessi ár. Í sumar bilaði núverandi brú og var gert við hana til bráðabirgða, en óvíst er hversu lengi sú viðgerð dugar. Með nýrri brú styttist vegalengdin um 5 km.
    Þessi tillaga er fyrst og fremst flutt til að undirstrika nauðsyn þess að byggingu brúarinnar ásamt tengingu verði lokið á næsta ári í ljósi þeirra atburða er gerðust í sumar. Ný Markarfljótsbrú hefur of lengi verið sett til hliðar í brúarframkvæmdum á Suðurlandi. Veldur því m.a. hinn stöðugi niðurskurður á fé til vegamála, en einnig að ýmsir sérfræðingar og stjórnmálamenn hafa talið hana svo trausta að ekkert lægi á. Brúin minnti hins vegar á sig sjálf í sumar og ber að fagna því. En jafnframt ber að þakka að ekki hlaust af slys. Þessi atburður vakti menn loks til umhugsunar um að það þyrfti að taka til hendinni.
    Frá þeim tíma er brúin bilaði hefur Vegagerðin verið að skoða málið. Á fundi Vegagerðarinnar með þingmönnum Suðurlands sl. fimmtudag voru niðurstöður Vegagerðarinnar kynntar. Með leyfi hæstv. forseta segir svo í minnisblaði um Markarfljót:
    ,,Samkvæmt skýrslu um ástand brúar á Markarfljóti kemur eftirfarandi fram: Niðurstöður vettvangsskoðunar: Ástand yfirbyggingar er sæmilegt og gefur ekki tilefni til neinna sérstakra ráðstafana nú. Hins vegar eru nokkrir sökklar illa farnir og sig brúarstöpuls í sumar bendir til að staurar undir brúnni séu að gefa sig. Brúin er nú orðin 57 ára gömul og það flóð sem var í ánni í sumar var ekki nærri því að vera eitt af stórflóðum sem komið hefur í ána.
    Hversu lengi getur núverandi brú dugað?`` spyr Vegagerðin. ,,Niðurstöður: Yfirbygging er í nothæfu ástandi en ástand fimm sökkla að austan er slæmt og hefur sökkull einn þegar sigið um 15 cm. Mestar líkur eru á því að einn eða fleiri staurar hafi gefið sig í stöpli eitt þegar hann seig. Ástand stöpuls tvö er mjög slæmt og sökklar þrjú til fimm eru rétt á vetur setjandi. Nú í haust verður að styrkja stöpla eitt og tvö. Ef stöplar þrjú, fjögur og fimm eiga að standa undir

umferð meira en til næsta hausts verður einnig að setja grjót að þeim.`` Og síðan er undirstrikað: ,,Grjótvörn við stöplana er á engan hátt trygging fyrir að stöplarnir standi vegna þess að í flóðum getur hún skolast í burtu.``
    Svo mörg eru þau orð. En í lok minnisblaðsins leggur Vegagerðin til að byggð verði brú á Markarfljót 1991, þ.e. á næsta ári. Hafist verði handa í mars og brúnni lokið í október. Útboð á vegi og varnargörðum verði hins vegar ekki fyrr en síðari hluta árs 1991. Kostnaður 1991 er áætlaður 140 millj. kr. Áður er fram komið í minnisblaðinu að heildarkostnaður við brúna ásamt vegi og varnargörðum sé 289 millj.
    Ef þessar tillögur ná fram að ganga verður brúin ekki tekin í notkun fyrr en hálfu til heilu ári eftir að henni er lokið. Það virðist eiga að bíða í marga mánuði eftir vegi og görðum. Er þetta hægt, Matthías, var einhvern tíma sagt. Þeirri spurningu mætti varpa fram ef hv. 1. þm. Vestf. væri enn samgrh. En þá var nú öldin önnur þegar hann fór með þessi mál. T.d. var lagt á 300 km slitlag eitt ár en á því ári sem nú er að líða eru þeir víst ekki nema 100. Hæstv. núv. samgrh. er ekki viðstaddur, því miður. En í framhaldi vil ég segja: Það er ekki hægt að bjóða upp á að hafa brúna sjálfa tilbúna í október 1991 en taka hana ekki í notkun fyrr en í fyrsta lagi á miðju sumri 1992. Það verður að hefjast handa um vegi og varnargarða miklu fyrr þannig að brú og vegur komist í gagnið snemma árs 1992. Þessa verður að krefjast af stjórnvöldum, að mál verði leyst með þeim hætti. Benda má á í þessu sambandi að útboð eftir áramótin nú gætu verið hagkvæm miðað við þann hægagang sem er t.d. í álversmálinu. Eins má minna á hættuna sem vatnsveitunni til Vestmannaeyja og landbroti stafar af ánni, sem leysist með nýrri brú og tilheyrandi varnargörðum.
    Auk Markarfljóts fjallar tillaga mín um Kúðafljót, brú á Hvítá hjá Bræðratungu og göngubrú á Ölfusá svo sem fram kemur í tillgr. Ný brú á Kúðafljót er ekki inni á núverandi vegáætlun. Vegagerðin gerir ráð fyrir að hún verði byggð fyrir sunnan Skaftártunguna, þannig að nýr Suðurlandsvegur á þessum kafla mundi ekki liggja um Skaftártunguna eins og hann gerir nú. Skaftártungan er snjóþyngsti kaflinn á leiðinni frá Reykjavík og austur á firði. Sérstaklega sker hún sig nú úr eftir að nýr vegur var gerður yfir Mýrdalssand, mun sunnar en gamli vegurinn. Hin nýja brú verður því ekki aðeins mikil samgöngubót fyrir austurhluta Vestur - Skaftafellssýslu heldur einnig fyrir alla Austfirði. Stytting vegna nýrrar brúar á Kúðafljót er í kringum 7 km.
    Nýlokið er byggingu nýrrar brúar á Tungufljót við bæinn Krók í Biskupstungum. Þessi brú leysir af hólmi gamla brú, sem er nokkru ofar, eða við fossinn Faxa. Með þessu er þó aðeins hálf sagan sögð. Nauðsynlegt er að byggja líka brú á Hvítá á móts við Bræðratungu. Með byggingu brúar á þessum stað yrði komið á tengingu milli miðstöðva tveggja stærstu hreppanna í uppsveitum Árnessýslu. Samanlagður íbúafjöldi í þessum tveimur hreppum er rúmlega 1100 manns. Ekki þarf að fjölyrða um hve mikil lyftistöng

þessi tenging yrði fyrir atvinnulíf þessara sveitarfélaga ef þau yrðu eitt atvinnusvæði, en fátt er jafnbrýnt um þessar mundir og einmitt efling atvinnulífs í sveitum landsins til þess að mæta samdrætti í framleiðslu landbúnaðarafurða.
    Göngubrú á Ölfusá á Selfossi var upphaflega á vegáætlun 1990. Framkvæmdum var hins vegar frestað vegna byggingar nýrrar brúar á Múlakvísl sem ekki var inni á vegáætlun. Nauðsynlegt er hins vegar að byggja þessa brú vegna ört vaxandi byggðar Selfoss norðan Ölfusár. Er hér um að ræða bæði íbúðar - og iðnaðarhús. Á næsta ári eru 100 ár frá byggingu Ölfusárbrúar og jafnframt afmæli byggðar á Selfossiog er því verðugt verkefni að taka í notkun nýja göngubrú á þeim tímamótum. Kostnaður við allar þessar brýr mun samtals nema um 800 millj. kr.
    Með vegáætlun 1989 -- 1992 var mörkuð viðunandi stefna að því er varðar árin 1990 -- 1992, en með breytingu á vegáætlun fyrir 1990, sem afgreidd var í fyrra, voru framlög til vegamála skorin niður af stjórnarliðum um tæpan milljarð. Samkvæmt fregnum úr stjórnarherbúðum á enn að vega í sama knérunn og skera milljarð í viðbót af fé til vegamála samkvæmt samþykktri vegáætlun. Ætli stjórnarliðið að halda sér við þann ásetning við afgreiðslu vegáætlunar síðar í vetur er engin önnur leið til að leysa jafnþýðingarmikil verkefni og nýja brú á Markarfljót, ásamt vegtengingu og varnargörðum, en með auknum lántökum.
    Virðulegur forseti. Að lokinni þessari umræðu óska ég þess að tillögunni verði vísað til hv. fjvn.