Kynning á vörum frá vernduðum vinnustöðum
Mánudaginn 12. nóvember 1990


     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Hér er hreyft nauðsynjamáli. Eins og fram kom í ræðu flm. hefur vernduðum vinnustöðum fjölgað mjög á undanförnum árum og um leið hafa lífsskilyrði fatlaðra batnað. Það er sjálfsögð þörf og krafa hvers manns að fá tækifæri til þess að leggja sitt af mörkum til samfélagsins og skapa sjálfum sér um leið bætta stöðu til þess að lifa sem sjálfstæður, fullgildur þjóðfélagsþegn.
    Verndaðir vinnustaðir hafa átt þátt í að bæta möguleika fatlaðra á ýmsum sviðum. Á tímum nokkurs atvinnuleysis eiga fatlaðir oft erfitt með að komast inn á hinn almenna vinnumarkað og vex því hlutverk vernduðu vinnustaðanna í hlutfalli við það. Svo mikil er aðsókn að vernduðum vinnustöðum í dag að hinir fötluðu fá oft aðeins tímabundna vinnu þar, með reglulegu millibili þó, en ekki stöðuga vinnu eins og ef til vill væri æskilegt fyrir suma þeirra. Öðrum þræði er litið á verndaða vinnustaði sem endurhæfingarstaði, eins og fram kom í máli hv. flm., og vonast er til að sá sem hættir á vernduðum vinnustað komist að úti á hinum almenna vinnumarkaði. En því bregður oft til beggja vona og fjölmargir eru þeir sem alls ekki eiga heima úti á almennum vinnumarkaði.
    Ýmsir verndaðir vinnustaðir hafa átt við verkefnaskort að etja að undanförnu og ég vil bæta því við þá tillögu sem hér hefur verið lögð fram að ríkisstjórnin mætti mjög gjarnan beina verkefnum sínum, og raunar önnur fyrirtæki, til þessara vinnustaða. Það er augljóst hversu hagkvæmt það er fyrir þjóðina að allir þessir vinnustaðir hafi yfrin verkefni. Að auki vita þeir sem viðskipti eiga við verndaða vinnustaði, og ég er ein af þeim sem hafa átt viðskipti við verndaða vinnustaði sennilega í áratug, að vinnan sem kemur frá þessum stöðum er mjög vönduð. Hún er yfirleitt eins vönduð og hægt er að hugsa sér. Það er því mikil þörf á að kynna þessar vörur og kynna möguleika sem fyrirtæki og einstaklingar hafa á að nýta sér þjónustu vernduðu vinnustaðanna. Mér kemur til hugar að hugsanlega væri rétt að til væri, a.m.k. hér á Reykjavíkursvæðinu, einn útsölustaður fyrir verndaða vinnustaði þar sem fólk gæti komið og kynnt sér það sem á markaðnum væri. Mér hefur oft virst að fólk vildi gjarnan kaupa vörur frá vernduðum vinnustöðum en vissi ekki alveg hvernig það ætti að snúa sér í því máli.
    Ég legg til að ríkisstjórnin athugi hvort ekki væri hægt að koma upp slíkum kynningar - og útsölustað. En sú þjónusta sem vinnustaðirnir veita er, eins og ég sagði áðan, í hinu besta lagi í alla staði og því engin goðgá að vænta þess að við viljum heldur kaupa þessa vönduðu vinnu sem oftast er ekki mjög dýr því það er ekki mikið á hana lagt. Vinnustaðirnir reka sig þannig að þeir ætla að reyna að standa undir kostnaði þó að þeir geri það í rauninni alls ekki. Ég held að með því að samþykkja þessa till. þá værum við að ýta á eftir mjög mikilvægu máli.