Kynning á vörum frá vernduðum vinnustöðum
Mánudaginn 12. nóvember 1990


     Pétur Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þessa till. til þál. um kynningu á vörum frá vernduðum vinnustöðum og fagna því mjög að hún skuli vera fram komin og vonast til að hún fái hinn besta framgang.
    Það hefur löngum verið svo að við höfum glímt við fáfræði og fordóma gagnvart fötlun þrátt fyrir það að forfeður okkar hafi verið miklu framsýnni því að í Hávamálum voru menn farnir að gera sér grein fyrir því að menn gætu ýmislegt á einu sviði þó þeir væru kannski fatlaðir á öðrum, sbr. ,,haltur ríður hrossi``, ,,hjörð rekur handarvanur`` o.s.frv. Þetta hefur samt sem áður veist okkur býsna erfitt að viðurkenna í reynd og framkvæmd. Hér hefur verið rætt um þessa vinnustaði og hvernig þeir framleiða á margan hátt gagnlega og góða vöru sem fer á markað. Það er alveg rétt að hana þarf að kynna, en það eru fleiri þættir í þessu máli en bara varan sem framleidd er og vinnan sem þar er unnin.
    Þetta orð, ,,verndaður vinnustaður``, það sem þar er unnið og þeir sem þar vinna, ég held að við þurfum líka að opna augu okkar fyrir því að það eru fordómar ríkjandi gagnvart þessu. Of margir ráðamenn og of margir af almenningi hafa þá skoðun að verndaðir vinnustaðir séu fyrst og fremst eins konar hæli þar sem þeir sem þar vinni séu bara í endurhæfingu og séu eins konar styrkþegar. Þetta er viðhorf sem þarf að eyða og útrýma og einmitt þessi kynning þyrfti að beina spjótum sínum líka að þessum fordómum og reyna að eyða þeim. Ekki síst vegna þeirra sem þar starfa. Þeir verða auðvitað fyrst og fremst að hafa það á tilfinningunni að aðrir meti það eins og þeir að það sem þeir starfa á þessum vinnustöðum sé þjóðfélagslega hagkvæm vinna og arðbær. Yfirleitt, eins og kom fram hér í ágætri grg., er um að ræða vöru sem stenst fyllilega samkeppni við hvað sem er. Þetta vita þeir sem vinna þetta og það þarf að styrkja þá í þeirri tilfinningu.
    Hvað snertir það að erfiðleikar séu á vinnu nema hluta úr degi og verkefnaskortur sé hjá þessum vinnustöðum sem hafa fengið þennan stimpil að vera verndaðir vinnustaðir, gæðastimpil vil ég segja, og veita þar með þá þjónustu, þá aðstoð sem þarf, þá vil ég minna á að það er líka hugtak sem kalla má vernduð atvinnutækifæri. Það held ég að sé hlutur sem við þurfum að gefa miklu meiri gaum. Ég hef oftar en einu sinni orðið vitni að því að einstaklingar, sem höfðu árum saman og jafnvel áratugum saman verið hælismatur og voru afskrifaðir af þjóðfélaginu, fengu tækifæri til þess að stunda vinnu með aðstoð þeirra sem þar störfuðu, án þess að þar væri um að ræða löggiltan eða sérstakan verndaðan vinnustað, með þeim árangri að á fáum árum náðu þeir fullum tökum á vissum þætti þeirrar starfsemi. Í dag eru þetta einstaklingar sem eru sjálfstæðir. Eftir að hafa alist upp og starfað á fullorðinsárum ósjálfbjarga fjárhagslega og félagslega eru þeir nú farnir að vinna fyrir þó nokkuð góðum tekjum, eru í þann veginn að festa kaup á eigin húsnæði og þeirra tilvera hefur gjörbreyst, auk þess

sem þjóðfélagið hlýtur að hafa hagnast mjög á þessum umskiptum.
    Þetta er kannski sá hlutur sem getur leyst einmitt atvinnuerfiðleikana á þessum vernduðu vinnustöðum, að jafnframt verði kannað að hvaða leyti almennir vinnustaðir geti veitt vernduð atvinnutækifæri innan sinna veggja. Það er þar að auki líka hagkvæmt fyrir þá sem þessa vinnu stunda að vera ekki eingöngu á sérstökum og lokuðum vinnustöðum, þó góðir séu, enda er auðvitað takmarkið með marga þessa vinnustaði að hleypa mönnum síðan út á almennan markað en hjá öðrum er það þó þannig að þeir sem þar starfa munu starfa þar áfram við sín sérhæfðu störf.