Kynning á vörum frá vernduðum vinnustöðum
Mánudaginn 12. nóvember 1990


     Flm. (Skúli Alexandersson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka þeim hv. þm. sem hafa tekið undir þessa till. og komið með ýmsar ábendingar sem ekki eru í till. okkar né grg. Ég vil sérstaklega taka undir það sem hv. þm. Pétur Bjarnason nefndi hér um vernduð atvinnutækifæri. Í þeirri skýrslu sem ég nefndi hér áðan, Atvinnumál fatlaðra á vernduðum vinnustöðum og á almennum vinnumarkaði, er fjallað um þann þátt málsins líka jöfnum höndum. Það er kannski erfitt að gera þar upp á milli en báðir þessir þættir eru mjög mikilsverðir og mikilsvert að þeir séu athugaðir án nokkurra fordóma og staðið að því að þeir sem möguleika hafa til þess að vinna á hinum almenna vinnumarkaði hafi til þess aðstöðu.
    Ég sé ekki ástæðu til þess að lengja þessa umræðu, aðeins undirstrika tillgr. okkar um það að hvetja ríkisstjórnina til þess að beina því til sinna stofnana að þær hafi frekari viðskipti við verndaða vinnustaði og kaupi þeirra framleiðsluvörur og svo að hinir vernduðu vinnustaðir og framleiðsluvörur þeirra verði betur kynntar og verði kynntar á vegum ríkisins.