Jöfnun orkukostnaðar
Mánudaginn 12. nóvember 1990


     Flm. (Friðjón Þórðarson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um jöfnun orkukostnaðar á þskj. 89. Flm. eru fimm af þingmönnum Vesturl., Friðjón Þórðarson, Alexander Stefánsson, Skúli Alexandersson, Ingi Björn Albertsson og Danfríður Skarphéðinsdóttir. Hv. 3. þm. Vesturl. Eiður Guðnason taldi sig ekki geta verið meðflutningsmann að þessu sinni þar sem hæstv. iðnrh. hefur skipað hann formann í nefnd sem á að athuga þessi mál og hafa hraðan á að ljúka störfum. Tillagan er svohljóðandi:
    ,,Alþingi ályktar að beina þeirri áskorun til ríkisstjórnarinnar að markvisst verði unnið að jöfnun orkukostnaðar í landinu og stefnt að því að allir landsmenn greiði sama orkuverð óháð búsetu.``
    Tillaga þessi var flutt á síðasta þingi en varð ekki útrædd. Flm. voru þá allir þingmenn Vesturl. Henni fylgdi ítarleg greinargerð ásamt fylgiskjölum. Sú greinargerð fylgir henni og sömu fylgiskjöl, eins og ég kem nánar að síðar.
    Þetta mál er ekki nýtt af nálinni, síður en svo. Það hefur verið rætt mikið á síðustu árum. En kveikjan að þessari tillögu eins og hún liggur fyrir nú var sú að á aðalfundi Samtaka sveitarfélaga í Vesturlandskjördæmi, sem haldinn var í Borgarnesi haustið 1989, var einróma samþykkt að beina þeirri áskorun til Alþingis og ríkisstjórnar að markvisst verði unnið að jöfnun húshitunarkostnaðar í landinu og stefnt að því að allir landsmenn greiði sama orkuverð óháð búsetu. Telja samtökin þetta mál vera mjög brýnt mál til jöfnunar lífskjara og mjög vel til þess fallið að veita jöfnuð og styrkja búsetu á landsbyggðinni.
    Tillagan sem hér er flutt er alveg samhljóða þessari yfirlýsingu samtakanna að öðru leyti en því að hér er fjallað um jöfnun orkukostnaðar almennt í stað húshitunarkostnaðar eingöngu. Okkur er öllum ljóst að meginforsenda þess að fólk geti búið í strjálum byggðum landsins er sú að næg atvinna sé fyrir hendi og að fólk búi við svipaða aðstöðu hvað snertir öflun brýnustu lífsnauðsynja. Nú á tímum er orkunotkun orðin svo mikil og almenn að verðið á orkunni vegur þungt og skiptir miklu máli á búreikningi hverrar fjölskyldu. Það getur jafnvel ráðið úrslitum um það hvar fjölskyldan ákveður að velja heimili sínu stað til frambúðar og munum við öll þekkja dæmi þess. Til þess að hægt sé að gera verulegt átak í jöfnun orkuverðs þarf að sjálfsögðu vilja meiri hluta alþingismanna og ríkisstjórnar. Svo vel vill til að nægar heimildir eru fyrir hendi sem hafa að geyma ótvíræðar yfirlýsingar íslenskra stjórnmálamanna um þessi efni. Ég mun vitna í örfá sýnishorn af slíkum yfirlýsingum, bæði úr ríkisstjórnarsáttmálum og yfirlýsingum alþingismanna fyrr og síðar. Ég hef satt að segja ekki hugsað um það að ná í nýjar yfirlýsingar af þessu tagi en þær eru nægar fyrir hendi, einnig eftir að þessi tillaga var flutt. En ég læt nægja að vitna í nokkur af þeim atriðum sem hér getur í greinargerðinni.
    Má þá fyrst nefna hæstv. ríkisstjórn og málefnasamning hennar. Þar segir m.a. að framfylgja beri árangursríkri byggðastefnu sem komi betra jafnvægi á byggðaþróun í landinu. Þegar hæstv. núv. ríkisstjórn var endurskipulögð var lögð áhersla á það ,,að gera sérstakar ráðstafanir til jöfnunar á flutningskostnaði og kostnaði við síma, húshitun og skólagöngu``. Um þetta má allt lesa í málefnasamningi sem ég nefndi, sem vonandi er rifjaður upp af einhverjum hv. alþm., jafnvel bæði kvölds og morgna eins og hér var eitt sinn talað um.
    Fulltrúar Framsfl., flokksþing og miðstjórnarfundir hafa margoft lagt sérstaka áherslu á jöfnun orkuverðs í landinu. Hér er ein samþykkt sem ég ætla að hafa yfir, með leyfi virðulegs forseta. Hún er frá kjördæmisþingi Alþfl. í Vesturlandskjördæmi sem haldið var í Röst á Akranesi 30. sept. 1989. Það samþykkti stjórnmálaályktun sem birtist í Alþýðublaðinu 10. okt. Þar segir svo í 4. tölul.:
    ,,Kjördæmisráðið beinir því til iðnrh. að hann vinni ötullega að jöfnun orkuverðs í landinu, enda er það ein meginforsendan fyrir áframhaldandi búsetu fólks á landsbyggðinni. Sama orkuverð á að gilda um land allt án tillits til búsetu.``
    Í fórum Sjálfstfl. er að finna margar ályktanir frá ýmsum tímum um þetta efni. Get ég farið alla leið aftur í landsfundarsamþykkt frá 1953, en þar segir m.a. að fundinum sé ljóst að raforka sé eitt mikilsverðasta atriðið til þess að skapa lífsþægindi og vinna gegn því að fólkið flytji úr sveitum og kauptúnum landsins til kaupstaðanna. Þegar Sjálfstfl. varð sextugur á sl. ári voru þessi atriði meira og minna endurtekin og lögð áhersla á þau. Og Sjálfstfl. hefur hvað eftir annað lýst því yfir að íbúar landsins, landsmenn allir, eigi að búa við sem allra jöfnust lífsskilyrði, hvar sem þeir eiga heima í lífvænlegum byggðum landsins.
    Það er m.a. hér frá afmælisári flokksins að hann vilji treysta búsetu í landinu og jafna aðstöðu í landshlutunum með markvissum aðgerðum. Í því gegna sveitarfélögin viðamiklu hlutverki, segir þar, og borg og byggð eiga að vaxa og dafna eðlilega og styðja hvort annað.
    Ég held að ég reki ekki fleiri af slíkum yfirlýsingum þó að af nægu sé að taka. En ég vil aðeins vitna í það hvað embættismenn og aðrir sem við þessi málefni eiga að vinna segja um þetta atriði. Ég vitna hér í Raforku, fréttarit Sambands ísl. rafveitna. Þar hefur orðið Kristján Haraldsson, orkubússtjóri Vestfjarða. Hann segir m.a.: ,,Við skulum minnast þess að ef við ætlum að lifa sem ein þjóð í þessu landi í sátt og samlyndi þá verður að skipta gæðum landsins sem jafnast meðal allra íbúanna.`` Og hér segir Kristján Jónsson, rafmagnsveitustjóri ríkisins, með leyfi hæstv. forseta: ,,Dreifing raforku og hagkvæm nýting hennar er undirstaða velferðarþjóðfélagsins. Nánast allir hlutir, bæði í atvinnulífi og á heimilum, eru háðir raforkunni. Gæði raforkunnar og þjónusta í dreifingunni eru því lykillinn að betra mannlífi.`` Svo djúpt er tekið í árinni en munu þó margir geta undir þetta tekið.
    Þó ég hafi ekki hér vitnað í alla stjórnmálaflokka, sem auðvelt væri, þá má ljóst vera að allir flokkarnir eru hlynntir því að jafna orkuverð til landsmanna, að ekki sé meira sagt. Til nánari skýringar fylgdi á sl. ári bréf svæðisrafveitustjóra á Vesturlandi dags. 30. jan. 1990 ásamt línuriti um húshitunartaxta eða sérstök hugleiðing um orkuverð. Þessi fylgiskjöl eru prentuð með tillögunni eins og hún er fram borin og fyrir henni talað í dag. Þar lætur svæðisrafveitustjóri m.a. orð falla á þá leið að hann voni að ,,farsæl niðurstaða fáist við þá umræðu sem fram undan er og að orkukaupendur á hinum ,,köldu svæðum`` fái rétt sinn hlut miðað við orkukaupendur á hagstæðum hitaveitusvæðum. ,,Hætt er við enn frekari búseturöskun en hana má m.a. rekja til orkukostnaðar,`` segir þar.
    Ég vona að nefnd sú sem hæstv. iðnrh. hefur sett á fót undir forustu hv. 3. þm. Vesturl. Eiðs Guðnasonar fjalli fljótt og vel um þessi mál. Heyrst hefur að hún eigi að ljúka störfum fyrir jól og er það vel ef unnt er.
    Ég legg svo til, þegar þessari umræðu er lokið, að tillögunni verði vísað til síðari umræðu og hv. allshn.