Jöfnun orkukostnaðar
Mánudaginn 12. nóvember 1990


     Skúli Alexandersson :
    Virðulegi forseti. Ég held að það sé hverju orði sannara að nú sé svo komið að ekki sé ágreiningur um það markmið sem stefnt er að í þessum málum. Menn hamast við að lýsa því yfir að allir séu þeir sammála um að hér þurfi að breyta, hér þurfi að jafna aðstöðu, bæði í sambandi við almennan orkukostnað í landinu svo og sérstaklega vegna húshitunar sem er auðvitað það sem kemur þyngst niður á almenningi. Þrátt fyrir það gerist lítið annað en það að gerðar eru samþykktir á fundum samtaka sveitarfélaga í öllum landshlutum, svipaðar og sú samþykkt sem gerð var á fundi Samtaka sveitarfélaga í Vesturlandskjördæmi á sl. hausti. Flokkarnir lýsa yfir stuðningi sínum við þessar tillögur og ríkisstjórnir eru myndaðar sem hafa í stefnuskrá sinni hástemmd orð um það að hér þurfi að breyta og hér skuli breyta.
    Í grg. þeirrar till. sem hér er til umræðu er tekið upp úr málefnasamningi ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar frá 28. sept. 1988, þar sem sagt er: ,,Höfuðverkefni hennar [þ.e. ríkisstjórnarinnar] er að treysta grundvöll atvinnulífsins, stöðu landsbyggðarinnar og undirstöðu velferðarríkis á Íslandi.`` Staða landsbyggðarinnar er þarna viðurkennd sem undirstaða velferðarríkis á Íslandi. Og síðar segir: ,,Gerðar verði ráðstafanir til jöfnunar á flutningskostnaði og kostnaði við síma, húshitun og skólagöngu.`` Húshitun er þarna eitt af aðalatriðunum og stóru punktunum. Og enn eru í málefnasamningi nýrrar ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar frá 10. sept. 1989 þessir hlutir ítrekaðir. Þrátt fyrir þennan mikla vilja þessara tveggja ríkisstjórna Steingríms Hermannssonar gerist það ekki fyrr en 12. júlí 1990 að það er ákveðið að fara að gera eitthvað, huga að einhverju markvissu starfi. Þá skrifar hæstv. iðnrh. þingflokkum ríkisstjórnarinnar og óskar eftir því að tilnefndir verði menn í nefnd til þessa verkefnis. Og það er ekki fyrr en 1. okt. sl. sem þessi nefnd er skipuð.
    Getur það nú verið þrátt fyrir að allar þessar yfirlýsingar, góðu yfirlýsingar, og myndina sem ég hef verið að draga hér upp af tveimur ríkisstjórnum Steingríms Hermannssonar, að vilji til framkvæmda sé ekki meiri en þetta? Að það líði næstum því tvö ár frá því að hástemmd yfirlýsing er gefin þar til farið er að huga að því að undirbúa aðgerðir, markvissar aðgerðir? Sjálfsagt hefur verið hugsað um einhverjar aðgerðir, en ég tel að einmitt sú nefndarskipan sem varð til 1. okt. sl. sé fyrsti vísirinn að því að það eigi að vinna eitthvað markvisst að þessu. Eru nú líkur fyrir því að sú hæstv. ríkisstjórn sem núna situr fái í hendurnar tillögur frá þessari virðulegu nefnd til þess að hún hafi möguleika til að sýna einhverjar aðgerðir áður en gengið verður til kosninga, nýir þingmenn og jafnvel nýir ráðherrar komi og setjist í ráðherrastóla.
    Því miður er sú umræða sem hefur farið fram um þessi mál á undanförnum árum allt of mikið með þessu marki brennd. Ég er ekki að gera þar neitt upp á milli flokka. Það eru alveg jafnhástemmdar yfirlýsingar frá Alþb., þó þær séu ekki taldar upp hér í fskj.,

eins og frá öðrum flokkum.
    Mér sýnist sú grg. sem hér fylgir vera fyrst og fremst undirstrikun á því hvernig hefur verið staðið að þessum málum og að það sé einmitt í þeirri mynd sem ég hef verið að nefna. Hér eru taldar upp samþykktir flokksþinga og miðstjórna Framsfl. og svo eru taldar upp samþykktir Sjálfstfl., en þær benda okkur til nokkurs annars tíma eins og hv. þm. Eiður Guðnason, 3. þm. Vesturl., benti á áðan. Árið 1953 gerir Sjálfstfl. samþykkt en hann er ekki að gera samþykkt um jöfnun orkukostnaðar, ég undirstrika það, heldur er hann þá að gera samþykkt um dreifingu raforkunnar um landið. Þá hafði það gerst, sem gerist því miður oftast og kannski ekki mjög óeðlilegt, að landsbyggðin verður að bíða ýmissa þæginda í langan tíma eftir það að þéttbýlið og þó fyrst og fremst þéttbýlið hér við Faxaflóa hefur fengið þá fyrirgreiðslu. En fátæka þjóðin, og fámennari þjóð sem bjó í landinu á tímabilinu frá 1950 og fram yfir 1960, sjálfsagt fram undir 1970, hafði það þó af að jafna þessa stöðu. Inn á hvert heimili í landinu er búið að tengja raforku. Það voru lagðar línur þvert og breitt um landið, háspennu - og lágspennulínur, og inn á hvern einasta sveitabæ sem í byggð er. Við erfiðari aðstæður en núna eru tókst þjóðinni að jafna þessa stöðu. En við tölum um það núna þing eftir þing við mikið betri aðstöðu, mikið meiri möguleika til þess að jafna þá stöðu sem við erum að tala um hér, og látum það eiga sig á annan máta en þann að gera samþykktir.
    Ég vil þó ekki bera á móti því, og tek undir það sem hv. 3. þm. Vesturl. sagði, að það er ekki eins mikill mismunur á orkuverði núna og var fyrir tíu árum síðan. Það er heldur betri staða, þó það nú væri. En ég vil undirstrika það að það sem okkur tókst að gera á tímabilinu frá 1953 og fram undir 1970, að jafna stöðuna í orkumálum landsbyggðarinnar með því að leggja rafmagn heim á næstum því hvert einasta heimili, það þarf okkur að takast og ætti okkur að vera búið að takast núna við mikið betri aðstæður sem þjóðin hefur yfir að ráða og við að búa.