Jöfnun orkukostnaðar
Mánudaginn 12. nóvember 1990


     Alexander Stefánsson :
    Virðulegi forseti. Það má kannski telja merkilegt að á undanförnum þingum og núna á undanförnum árum hefur það komið í hlut Vestlendinga oftar en flestra annarra að rifja þetta mál hér upp á hv. Alþingi og mæla fyrir áherslum í sambandi við þetta mál. Ekki af því að Vesturland sé verr í sveit sett hvað þetta varðar en aðrir landshlutar en þar finna menn illilega fyrir þessum mismun. Og almenningur lætur í sér heyra. Enn er svo að það er 2,8 sinnum dýrara að kynda með raforku á Vesturlandi en t.d. hér á ódýru svæðunum.
    Ég ætla ekki að flytja langt mál hér um þessa þáltill. Okkur fannst sjálfsagt að endurflytja hana vegna þess að hún tekur á þessu vandamáli því stór hluti þjóðarinnar reiknar með að einhvern tímann komi að því að Alþingi manni sig upp í að finna lausn sem jafni þennan óþægilega mismun á lífskjörum. Og það kom meira að segja fram í stefnuræðu hæstv. forsrh. ekki alls fyrir löngu að hann taldi að þetta ætti að vera alveg framkvæmanlegt eins og t.d. bensín og olía er á sama verði hvar sem er á landinu og mjólk og mjólkurvörur o.s.frv. Svo einfalt er nú málið þegar farið er að skoða það.
    Það sem ég held að sé orsök þess að ekki hefur náðst árangur sem skyldi í þessu máli er það að mér finnst að landsbyggðarþingmenn hafi ekki sýnt nógu mikla samstöðu þegar á hefur þurft að halda til þess að knýja fram aðgerðir, því til þess hafa þeir atkvæðamagn hér á hv. Alþingi og hafa haft á undanförnum árum.
    En ég get tekið undir að þetta er ekkert einfalt mál, eins og kom fram hjá hv. 3. þm. Vesturl. Og auðvitað er engin einföld lausn til í þessu máli. Sennilega er fljótvirkasta lausnin þó að fyrirskipa Landsvirkjun að taka fyrsta skrefið í þessu máli sem væri kannski viðráðanlegt eða ásættanlegt þangað til önnur lausn finnst.
    En ég ætlaði að endurtaka það sem ég hef sagt áður og það er svo um fleiri hv. þm. veit ég um, að það er útilokað á þessu þingi að samþykkja nýjar stórvirkjanir í landinu ef þetta mál verður ekki komið á það stig að hægt sé að sætta sig við það sem fram undan er. Og ég endurtek það hér að ég verð ekki tilbúinn að samþykkja nýjar stórvirkjanir ef það verður ekki búið að finna lausn á þessum málum. Ég veit að hæstv. iðnrh. gerir sér grein fyrir þessu því það er svo um fleiri landsbyggðarþingmenn. Þetta er aðeins smámál í sambandi við það sem fram undan er og ég a.m.k. vil treysta því að þessi þó síðbúnu viðbrögð, hvort sem það hefur verið í júlí eða núna í október, sýni að ríkisstjórninni er alvara með að leysa þetta mál. Þess vegna held ég að þessi þáltill. eigi fyllilega rétt á sér, hún þrýstir á aðgerðir. Ég vænti þess núna fremur en nokkurn tímann áður þegar menn í alvöru vita hvað fram undan er í orkumálum að þá sameinist þingmenn um að leysa þetta mál á viðunandi hátt áður en Alþingi fer heim í vor. Öðruvísi verða vandræði að koma hinu stóra málinu í gegn.