Jöfnun orkukostnaðar
Mánudaginn 12. nóvember 1990


     Eiður Guðnason :
    Virðulegi forseti. Það er auðvitað hverju orði sannara eins og kom fram í ræðu hv. 2. þm. Suðurl. að hér er sannarlega um mikið réttlætismál að ræða. Mér finnst það deginum ljósara að þetta þing lýkur ekki störfum, fer ekki heim án þess að afstaða verði tekin og þetta mál með einhverjum hætti afgreitt. Ég held að það sé alveg deginum ljósara og skýrt í huga okkar allra sem störfum í þessari nefnd, og ekki bara okkar, heldur líka allra þeirra sem sitja hér á hinu háa Alþingi og vilja ná fram auknu réttlæti í þessum efnum. Um það þarf ekki að hafa mörg orð.
    Virðulegi forseti. Vegna orða hv. 4. þm. Vesturl. sem talaði hér eins og ekkert hefði verið gert í þessu máli fyrr en þessi nefnd var skipuð nú í haust eða óskað tilnefningar í hana á miðju sumri, þá er auðvitað rétt og skylt að láta það koma fram að yfirtaka skulda Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða á sínum tíma hafði auðvitað veruleg áhrif, það að ríkið tók þessar skuldir að sér hafði auðvitað veruleg áhrif til að draga úr þeim mun sem annars væri á taxta þessara fyrirtækja og annarra rafveitna í landinu. Þetta er alveg nauðsynlegt að komi fram vegna þess að hv. þm. Skúli Alexandersson, sem nú gengur í salinn, talaði eins og ekkert hefði verið gert. Og ég ítreka það að yfirtaka skulda Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða hafði auðvitað veruleg áhrif til þess að draga úr mun á töxtum þeirra fyrirtækja og annarra rafveitna í landinu. Því mótmælir held ég enginn sem kynnt hefur sér þessi mál.