Jöfnun orkukostnaðar
Mánudaginn 12. nóvember 1990


     Pétur Bjarnason :
     Virðulegi forseti. Ég vil aðeins taka undir það mál sem er hérna til umræðu vegna þess að mér finnst ófært annað en rödd Vestfirðinga heyrist því að fáir landshlutar eru jafnháðir raforkunni og eiga jafnmikið undir því að jöfnuður fáist í þeim efnum eins og við Vestfirðingar, bæði hvað snertir raforku til heimilisnota, húshitunar og ekki síður til framleiðslu.
    Ég skal ekki tala langt mál. Hérna hafa komið fram flest þau rök sem styðja þetta. Það sem hefur kannski komið fram hvað skýrast og veldur þá umhugsun er það að í greinargerð er þess getið að æðstu valdastofnanir Framsfl., Sjálfstfl. og Alþfl. hafi tekið mjög skýra afstöðu þar sem kveðið er á um að orkuverð skuli jafnað. Það er að vísu ekki getið um það hjá Alþb. sem ég sá hérna, en hitt veit ég að það hefur verið á stefnuskrá þess flokks líka svo að mér virðist það nokkuð ljóst að það er fullur vilji fyrir að gera þetta. Það kom fram hjá hv. 2. þm. Suðurl. að það vantaði kannski að finna leiðir, en það fer ekki hjá því að séu allir þessir flokkar sammála um það, og reyndar á ég von á að aðrir flokkar sem ekki eru hér nefndir og ég tala ekki um, ég veit að flestir flokkar sem hafa ályktað um orkumál hafa haft uppi þessa stefnu.
    Sé það svo að þetta sé eindreginn vilji allra þessara flokka þá hlýtur að verða að finna leiðir. Hérna er stefnan mörkuð og þeir hafa markað sér hana sjálfir. Mér þótti því vænt um að heyra það sem hv. 3. þm. Vesturl. sagði: Alþingi fer ekki heim án þess að taka afstöðu. Ef þingmenn þessara stjórnmálaflokka eru sjálfum sér samkvæmir í ályktun þeirra flokka, þá hljóta þeir að taka afstöðu með þessu máli og þá verða þeir að gera svo vel að finna leiðir og hrinda þessu máli í framkvæmd.
    Ég tek undir það að ýmislegt hefur verið gert. Við sem búum á þessum svæðum finnum það best á buddunni okkar að þrátt fyrir allt hefur áunnist eitt og annað í jöfnunarátt, en það þarf að gera betur ef duga skal og ég fagna því að þetta er komið fram og ég treysti því að Alþingi muni taka afstöðu og í samræmi við vilja þeirra sem þar sitja.