Jöfnun orkukostnaðar
Mánudaginn 12. nóvember 1990


     Flm. (Friðjón Þórðarson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka þeim hv. þm. sem hér hafa talað og tekið vel í þetta mál. Ég fagna sérstaklega skipan nefndarinnar sem hér hefur verið getið um frá 1. okt. sl. Ég fagna því einnig að formaður hennar er hv. 3. þm. Vesturl. sem við þekkjum að er ötull og duglegur við að ýta málum áfram.
    Hann sagði hér áðan að ekki væri auðvelt verk að framkvæma hlutina þó að allir vildu jöfnuð í þessum málum og jöfnuður hefði aukist. Það er rétt en betur má ef duga skal. Það er kannski erfitt að finna leiðir en ég vil benda á eitt. Nú stendur til að reisa álver á Keilisnesi og það á að vera mikið gróðafyrirtæki. Sumir segja að það ógni jafnvægi í byggð landsins. Væri ekki tilvalið að taka eitthvað af þeim gróða sem þar til fellur og veita út um byggðir landsins til að byggja upp? Þar á meðal mætti hafa þetta mál í huga á svipaðan hátt og gert var þegar álverið fór af stað í Straumsvík og við munum eftir.
    Hv. 4. þm. Vesturl. og fleiri ræddu um að hér hefðu aðeins verið orð viðhöfð en ekki framkvæmdir. Við verðum að sætta okkur við það alþingismenn og lærum það fljótt að ,,vort ferðalag gengur svo grátlega seint`` og það er oft langt á milli þess að tillaga er flutt og þar til hún kemur til framkvæmda. Ég nefni dæmi af Vesturlandi að gamni mínu.
    Heydalsvegur komst í tölu þjóðvega 1944. Hann var talinn einn allra auðveldasti fjallvegur landsins en þó leið röskur aldarfjórðungur þangað til sá vegur var opnaður til umferðar 11. nóv. 1971.
    Allir hv. ræðumenn tóku undir það að jafna bæri þennan óþægilega mun á lífskjörum. Hv. 2. þm. Suðurl. benti á að þessi tillaga væri svona nánast orð en ekki væri bent á neinar raunhæfar leiðir til úrbóta. Ég vil benda hv. þm. á að fletta upp í greinargerðinni neðst á bls. 3. Þar segir svo, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,En vera má að það vefjist fyrir mönnum á hvern hátt það skuli gert,`` þ.e. að jafna orkuverðið. ,,Þar koma vafalaust fleiri en ein leið til greina. Nefna má að fyrir þessu þingi liggur frv. til laga um breytingu á lögum um Landsvirkjun. Það er 264. mál þingsins. Þar er gert ráð fyrir því ,,að smásöluverð fyrir hverja tegund afnota verði hvergi meira en 5% hærra en vegið meðaltal á landinu öllu``, sjá nánar þskj. 470``, sem hv. þm. vel kannast við, enda var hann 1. flm. ef ég man rétt.
    Ég hef svo ekki fleiri orð um það en endurtek þakkir mínar og vona að þetta réttlætismál, sem svo hefur verið nefnt hér í þessum umræðum, verði athugað vel og vandlega og nái fram að ganga sem allra fyrst.