Úrbætur á aðstæðum ungmenna
Mánudaginn 12. nóvember 1990


     Salome Þorkelsdóttir :
    Hæstv. forseti. Ég get nú ekki orða bundist. Hér er komið að því að ræða mjúku málin og hér eru staddir í þingsal fjórir hv. þm. auk forseta sem allir eru kvenkyns og að auki einn hv. þm. sem er karlkyns og skólamaður og væntanlega gerir sér grein fyrir því hvað hér er mikilvægt mál á dagskrá. Það vill stundum verða svo að stjórnmálamenn festa sig í farvegi umræðunnar um hörðu málin, svokölluð efnahagsmál, hagvöxtinn, framleiðniaukninguna eða hjöðnun verðbólgunnar, svo að dæmi séu tekin. Auðvitað verður að leggja áherslu á þessa þætti sem
varða afkomu íslenska þjóðarbúsins. En þegar menn sem teljast sérfræðingar í þessum svokölluðu hörðu málum eru farnir að kveðja sér hljóðs á fjölmennum fundum og gerast málsvarar mjúku málanna þá hlýtur að vera ástæða til að gefa því gaum. En þetta upplifði ég fyrir skömmu á fjölmennum fundi, að einn af málsvörum hörðu málanna kvaddi sér hljóðs og gat þess sérstaklega að honum væri eiginlegra að tala um hörðu málin, hagvöxtinn og framleiðnina, en mjúku málin en nú gat hann ekki orða bundist. Hann hafði nefnilega hlustað á viðtal við prest þar sem hann var að gera grein fyrir því ástandi sem ríkir hjá stórum hópi grunnskólabarna á aldrinum 8 -- 12 ára. Þar kom fram að þriðja hvert barn, eftir því sem mér var tjáð, ég tek fram að ég hlustaði ekki á viðtalið, gengur sjálfala á daginn. Og 20% af aðspurðum börnum, þetta voru börn á aldrinum 8 -- 12 ára, hlökkuðu ekki til framtíðarinnar.
    Það var kannski von að þessi ágæti maður gæti ekki orða bundist og ég verð að segja það að ég held að það sé ástæða fyrir fleiri að fara að huga að þessum málum og gera sér grein fyrir því að það er ekki nóg að hafa góðan hagvöxt, auka framleiðni og ná niður verðbólgu ef börn framtíðarinnar verða ekki í stakk búin til þess að njóta betra þjóðarbús hjá okkur. Þetta vildi ég aðeins láta koma fram, hæstv. forseti. Það er líka dæmigert að það er ekki gert ráð fyrir langri umræðu um þetta mál af því að það er eitt af mjúku málunum. Þess vegna er okkur ekki ætlaður langur tími enda ekki margir sem þurfa að ræða þessi mál hér.
    En ég vil ítreka það og um leið þakka hv. 18. þm. Reykv. fyrir að hafa frumkvæði að að flytja þessa till. hér og gefa mér m.a. kost á að vera meðflm. því ég tel að hér sé svo alvarlegt og mikilvægt mál á ferðinni að það verði að vinda bráðan bug að því að finna einhverjar lausnir til sameiginlegra forvarna gegn þessum vanda.