Úrbætur á aðstæðum ungmenna
Mánudaginn 12. nóvember 1990


     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Hér er á ferðinni mál sem varðar þá sem eiga sér fáa málsvara. Í samfélagi þar sem ætlast er til að allir spjari sig upp á eigin spýtur hlýtur að vera erfitt að heyra til hópi ungmenna sem ekki uppfylla kröfur miðlungsins eða þaðan af hærri kröfur né falla að því fari sem flestir eru mótaðir í. Á athyglisverðri ráðstefnu um velferðarsveitarfélagið sem félagsmálastjórar stóðu fyrir í síðustu viku var m.a. fjallað um skyldur samfélagsins við þá sem þurfa stuðning til þess að verða ekki undir. Meðal þess sem fjallað var þar um var hvort íslenskt samfélag væri örðugra fyrir þá sem eiga undir högg að sækja en ýmis þau samfélög sem standa okkur næst, hvort dugnaður og sjálfstæðisdýrkunin setji þá sem minna mega sín hjá eða veki með þeim vonir og drauma sem e.t.v. eru óraunhæfir.
    Vinnudagur Íslendinga er lengri en gerist víðast hvar annars staðar. Ekki einungis vegna þess að allir séu svo uppteknir af lífsgæðakapphlaupinu, heldur einnig vegna þess að lágtekjufólk býr við mjög léleg kjör. Bara til að tryggja sér öruggt húsnæði, þar sem séreignarstefna er allsráðandi, þarf að vinna langan vinnudag og þar sem skattlagning matvæla er staðreynd er erfitt að ná endum saman nema með óralöngum vinnudegi. Og hverjir eru svo fórnarlömb í vinnulúnu samfélagi? Það eru auðvitað ekki síst unglingarnir sem njóta ekki þeirra samvista við fjölskyldur sínar sem sumir hverjir þyrftu.
    Samfélagið hefur alls ekki komið til móts við vinnuálag fjölskyldna. Allt of lítið bólar á að stytting vinnudags sé baráttumál í kjarabaráttu eða í annarri pólitík. Skólakerfið er gjörsamlega vanbúið að mæta þörfum einstaklinga með margbreytilegar óskir, ekki vegna þess að þar starfi ekki hæft fólk og ekki vegna þess að þar sé ekki vilji fyrir hendi, heldur vegna þess að það er hreinlega allt of sjaldan gert ráð fyrir að þessar kröfur séu uppfylltar. List - og verkmenntagreinum er ekki gert hátt undir höfði í skólakerfinu og þar af leiðandi er ekki alltaf til reiðu framhaldsnám fyrir alla nemendur. Illa er búið að námsráðgjöf og sálfræðideildum skóla þannig að varla gefst færi á öðru en neyðaraðstoð í stað markvissra forvarna. Unglingar sem lenda utan garðs gera það að sjálfsögðu af margvíslegum ástæðum. Sá hópur sem ég er hér að tala um er e.t.v. ekki sá stærsti en hann er engu að síður hópur sem ástæða er til að hafa áhyggjur af.
    Þessir unglingar eiga oft langa og erfiða leið fyrir höndum. Sumir finna því miður leiðarenda í vitlausri átt, enda við blindgötu, óreglu og umhirðuleysi. Ég fagna því þessari þáltill. og tel þann hóp sem hér er lagt til að verði settur á laggirnar hafa mjög brýnum erindum að sinna.