Skipti á dánarbúum o.fl.
Þriðjudaginn 13. nóvember 1990


     Dómsmálaráðherra (Óli Þ. Guðbjartsson) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um skipti á dánarbúum o.fl. á þskj. 108. Helsta viðfangsefni frv. er að mæla fyrir um hvernig staðið verði að aðgerðum við skipti á dánarbúum. Að auki hefur það að geyma reglur um skipti við slit hjúskapar og óvígðrar sambúðar og félagsslit ef ekki semst um þau milli hlutaðeigenda, en slík skipti fara að miklu leyti eftir sömu reglum og gilda um skipti á dánarbúum.
    Frv. er ætlað að leysa af hólmi gildandi lög um skipti á dánarbúum og félagsbúum o.fl. nr. 3 frá 1878. Auk þess tekur það til efnis nokkurra annarra laga. Umrædd lög voru að mestu þýðing á dönskum lögum um sama efni er sett voru skömmu áður í Danmörku. Lögum nr. 3/1878 hefur tiltölulega lítið verið breytt frá upphafi ef frá er talin endurskoðun á reglum VIII. kafla um skuldaröð sem átti sér stað við setningu laga nr. 32/1974 og nr. 23/1979. Þótt núgildandi lög um skipti dánarbúa hafi að meginstofni til staðið óbreytt í meira en eina öld eru þau af augljósum ástæðum vegna breyttra staðhátta orðin úrelt í fjöldamörgum atriðum.
    Frv. er samið sem þáttur í heildarendurskoðun löggjafar um dómstólaskipan, réttarfar og meðferð framkvæmdarvalds í héraði og er sniðið að þeirri skipan sem kveðið er á um í lögum um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði nr. 92 1. júní 1989. Þau lög leiða til umfangsmikilla breytinga á skipan dómstóla og framkvæmdarvalds í héraði og gera nauðsynlegt að fram fari endurskoðun á allri réttarfarslöggjöfinni, þar á meðal lögum um skipti á dánarbúum. Að auki er þörf endurskoðunar á ýmsum ákvæðum laganna þar sem þau eru aldurs síns vegna orðin úrelt í mörgum atriðum.
    Samhliða þessu frv. hefur verið samið heildarfrv. til nýrra laga um gjaldþrotaskipti o.fl. og hefur það frv. þegar verið lagt fram hér á Alþingi. Hefur verið leitast við að samræma ákvæði þessara frv. í þeim mæli sem unnt er, enda fjalla þau um náskyld lagasvið. Ein helsta breytingin frá núgildandi lögum, sem stefnt er að í frv., felst í því hverjir annist störf sem tengjast skiptum á sviði frv. Í núgildandi lögum eru þessi störf nánast öll lögð í hendur dómara, skiptaráðenda, sem m.a. taka við tilkynningum um andlát, veita leyfi til setu í óskiptu búi og einkaskipta á dánarbúum, annast framkvæmd opinberra skipta, leggja á erfðafjárskatt og innheimta hann, auk þess að leysa úr ágreiningi í héraði í dómsmálum sem verða rekin eftir sérreglum laga um skipti á dánarbúum.
    Frv. þetta er, sem fyrr segir, m.a. byggt á þeim grunni sem var lagður með setningu laga um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði. Eins og fram kemur í athugasemdum með frv., sem varð að þeim lögum, eru ein þýðingarmestu markmið þeirra annars vegar að framkvæmdarvaldsstörf verði tekin úr höndum dómara og hins vegar að breytt verði eðli ýmissa umsýslustarfa, sem dómarar hafa haft með höndum og hafa talist dómstörf, þannig að þau verði talin til starfa framkvæmdarvaldshafa í framtíðinni eða falin að

einhverju marki öðrum en handhöfum ríkisvalds. Með þessu munu héraðsdómstólar framvegis svo til eingöngu fást við eiginleg dómstörf.
    Handhafar framkvæmdarvalds ríkisins í héraði, sýslumenn, munu annast fjölmörg önnur verk sem dómarar hafa haft með höndum til þessa. Af þeim störfum sem dómarar annast nú í tengslum við skipti á sviði þessa frv. verða aðeins sárafá talin til eiginlegra dómstarfa. Af þeim má einkum nefna annars vegar ákvörðun um hvort opinber skipti fari fram og hins vegar úrlausn ágreiningsmála sem rísa í tengslum við skipti. Önnur störf, sem núgildandi lög fela dómurum í þessu sambandi, eru hins vegar almennt því marki brennd að vera annaðhvort framkvæmdarvaldsstörf, t.d. álagning og innheimta erfðafjárskatts, eða umsýslustörf, sem eiga fátt ef nokkuð skylt við almennt hlutverk dómara, t.d. að taka við dánartilkynningum, veita ýmis leyfi og framkvæma opinber skipti.
    Til samræmis við grundvöll laga um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds er byggt á því í frv. að héraðsdómstólar muni nánast aðeins fást við fyrrnefnd eiginleg dómstörf en önnur verk á sviði þess verði ýmist í höndum sýslumanna eða falin sérstökum skiptastjórum. Nánar tiltekið er gert ráð fyrir því í frv. að sýslumenn muni hafa með höndum mikinn hluta þeirra starfa á sviði þess sem skiptaráðendur annast eftir núgildandi lögum, annarra en eiginlegra dómstarfa, og að störf þessi verði þannig talin til framkvæmdarvaldsathafna. Af helstu viðfangsefnum, sem sýslumönnum eru ætluð á þessum vettvangi, má nefna að ákvæði frv. fela þeim m.a. að taka við andlátstilkynningum, veita leyfi til setu í óskiptu búi eða einkaskipta, skipa sérstaka lögráðamenn eða málsvara fyrir erfingja sem þess þurfa með, annast skráningu og mat á eignum dánarbúa, hafa með höndum forræði á málefnum dánarbúa frá andláti þar til frekari aðgerðir við skipti hefjast, veita erfingjum leiðbeiningar og aðhald varðandi frágang mála og leggja á og innheimta erfðafjárskatt.
    Þau störf, sem hér um ræðir, verða eftir eðli sínu að teljast fara betur í höndum framkvæmdarvaldshafa en dómara, enda eiga þau ekkert skylt við almenn störf dómara. Að auki getur verið hætta á að ágreiningur verði um framkvæmd þeirra sem er ófært að einn og sami embættismaður annist og kveði síðan upp dómsúrskurð um réttmæti sinna eigin aðgerða. Að auki verður ekki litið hjá því að þessi störf eru um margt þjónusta við almenning sem sýslumenn munu einmitt annast í ríkum mæli á öðrum sviðum í framtíðinni. Störf dómara er lúta að skiptingu dánarbúa yrðu fyrst og fremst skv. frv. að leysa úr ágreiningi er kynni að koma upp við skiptin og kveða upp úrskurð um hvort opinber skipti á búi skuli fara fram.
    Skv. gildandi lögum annast dómarar, skiptaráðendur, framkvæmd opinberra skipta. Í frv. er gert ráð fyrir að sérstaklega skipaðir skiptastjórar, sem dómari tilnefnir að gengnum úrskurði um að opinber skipti fari fram, annist framkvæmd opinberra skipta. Jafnframt er gert ráð fyrir að þóknun til skiptastjóra greiðist af verðmæti búsins. Þessi skipan er í samræmi við framkvæmd skipta á gjaldþrotabúum, sbr. frv. um gjaldþrotaskipti, sem lagt hefur verið fram hér á Alþingi, en bæði þessi frv. fjalla um náskyld lagasvið.
    Telja má að margt vinnist með því að fela sérstökum skiptastjóra framkvæmd opinberra skipta fremur en að starfsmaður ríkisins, sýslumaður, hafi verkið með höndum. Vísast nánar um það til grg. með frv. Nefna má þó eftirfarandi því til stuðnings. Reynslan við framkvæmd gjaldþrotaskipta hefur sýnt að skiptastjórum sé hægara en starfsmönnum ríkisins að gæta hagsmuna búa gagnvart öðrum og skipti hafa almennt tekið skemmri tíma og gefið betri fjárhagslegan árangur. Skiptastjórar eru einnig almennt í góðri aðstöðu til að leitast við að ná sáttum um ágreiningsefni við skipti. Ákvæði frv. og ýmissa núgildandi laga hafa í för með sér að sýslumenn muni gegna fjölbreytilegum störfum sem mundu samræmast því illa að þeir annist framkvæmd opinberra skipta.
    Í IV. kafla frv. er t.d. gert ráð fyrir að sýslumenn krefjist opinberra skipta á dánarbúum ef erfingjar hlutast ekki sjálfir til um skiptin. Sýslumenn munu einnig annast álagningu og innheimtu erfðafjárskatts, hvort sem dánarbúi yrði skipt í einkaskiptum eða opinberum skiptum. Þá hafa sýslumenn með höndum innheimtu opinberra gjalda í fjölmörgum umdæmum landsins og reynslan er sú að slíkar kröfur beinast mjög oft að búum sem eru til opinberra skipta. M.a. af þessum ástæðum getur sýslumaður þurft að gegna skyldum embættis síns vegna sem væru ósamþýðanlegar því að framkvæma opinber skipti og hafa þannig með höndum forræði á málefnum dánarbús.
    Ákvæði frv. miða að því að draga verulega úr nauðsyn opinberra skipta á dánarbúum í tilvikum sem erfingjar æskja þeirra ekki sjálfir og má ætla að talsvert minna verði um þau fyrir vikið. Má þannig telja sennilegt að ef frv. verður að lögum muni opinber skipti einkum koma til að ósk hlutaðeigenda, eftir atvikum vegna ágreinings eða ósamkomulags þeirra um hvernig staðið verði að verki þótt vissulega geti aðrar ástæður leitt til opinberra skipta.
    Í lögum nr. 3/1878 er byggt á því að dánarbú teljist formlega vera til opinberra skipta frá andláti hlutaðeiganda þar til eftirlifandi maka hans er veitt leyfi til setu í óskiptu búi, erfingjum hans veitt leyfi til einkaskipta, eða skiptum annaðhvort lokið án frekari aðgerða vegna eignaleysis dánarbúsins eða í reynd með opinberum skiptum. Af þessum sökum miða ákvæði núverandi skiptalaga við að skiptaráðandi fari með forræði bús frá andláti þar til eitthvað af framangreindu hefur átt sér stað og að hann hefjist handa um framkvæmd opinberra skipta ótilkvaddur ef erfingjar hlutast ekki til um aðrar ráðstafanir innan skamms tíma frá andláti.
    Þótt þessar reglur laganna standi óbreyttar má heita að í framkvæmd hafi að mörgu leyti verið horfið frá því að fylgja ætlan þeirra fyrir áratugum síðan. Að vísu hefur ekki verið vikið frá þeirri grundvallarreglu að skiptaráðandi hafi formlegt forræði á málefnum dánarbús frá andláti fram til þess tíma að maki þess látna eða erfingjar kunni að taka við því forræði á

grundvelli áðurnefndra leyfa. Á hinn bóginn heyrir til undantekninga að skiptaráðandi hefjist handa um beinar aðgerðir við skiptin nema fram komi beiðni erfingja um það. Af þessum sökum hefur hlutverk skiptaráðenda að mestu beinst inn á þá braut að eftir viðtöku andlátstilkynninga fylgjast þeir með og veita aðhald um að erfingjar geri nauðsynlegar ráðstafanir til að ljúka skiptum og gefa erfingjum eftir þörfum heimildir til þessara ráðstafana.
    Hefur framkvæmdin þannig þróast á þann veg að skiptaráðendur hafa fremur gegnt eftirlitshlutverki en að eiga þátt
í framkvæmd skipta, nema í þeim tilvikum sem opinber skipti eiga sér stað í eiginlegri mynd. Síðasta áratuginn hafa opinber skipti hins vegar almennt ekki átt sér stað, nema erfingi hafi beinlínis leitað eftir því, enginn erfingi hafi gefið sig fram eða vegna ákvæða skiptalaga sem skylda annars að opinber skipti fari fram við ákveðnar aðstæður.
    Ákvæði frv. mótast mjög af þeirri framkvæmd sem hér hefur verið lýst. Kemur þetta einkum fram í því að eftir frv. munu dánarbú ekki teljast sjálfkrafa vera til opinberra skipta frá andlátsstund hlutaðeiganda, heldur skapast við andlátið millibilsástand, þar sem sýslumaður hefur til bráðabirgða forræði á málefnum dánarbúsins. Jafnframt er sýslumanni ætlað að gegna því hlutverki við eftirlit og gæslu almannahagsmuna varðandi skipti dánarbúa sem skiptaráðendur hafa annast til þessa í framkvæmd, bæði meðan á fyrrnefndu millibilsástandi stendur og í framhaldi af því við einkaskipti. Þetta hlutverk sýslumanna skv. frv. felst nánar tiltekið í því að þeim er ætlað að taka við andlátstilkynningum og veita um leið leiðbeiningar um hvernig staðið verði að framhaldi aðgerða og málalokum.
    Málalok geta orðið þau að dánarbú verði talið eignalaust og skiptum þess verði þá lokið þegar í stað fyrir sýslumanni. Þau geta einnig orðið á þann veg að maki þess látna fái leyfi sýslumanns til að setjast í óskipt bú. Þá getur sýslumaður orðið við umsókn erfingja um að veita þeim leyfi til einkaskipta, en að fengnu slíku leyfi öðlast erfingjar heimild til að ráða fyrir hagsmunum dánarbúsins í stað sýslumanns og ljúka síðan skiptunum með því að afhenda sýslumanni gögn og greiða erfðafjárskatt.
    Loks getur farið svo að krafist sé opinberra skipta á dánarbúinu og að dómsúrskurður gangi um slíka kröfu eftir ákvæðum IV. kafla frv. Ef krafan verður tekin til greina verða skiptin upp frá því í höndum sérstaks skiptastjóra sem tekur við forræði á dánarbúinu af sýslumanni.
    Þótt sú skipan frv. sem hér er lýst feli í sér allnokkra breytingu að formi til frá fyrirmælum núgildandi laga líkist hún mjög þeirri framkvæmd sem hefur verið ríkjandi áratugum saman. Eins og getið var hér á undan miða ákvæði laga nr. 3/1878 við það að dánarbú séu alltaf talin vera til opinberra skipta frá því að andlát ber að höndum og þar til slíkum skiptum lýkur, eða skiptaráðandi veitir maka þess látna leyfi til setu í óskiptu búi, eða erfingjum hans leyfi til

einkaskipta. Tölulegar upplýsingar um framkvæmd skipta á dánarbúum frá 1988 og 1989 benda til þess að raunveruleg opinber skipti á dánarbúum fari fram í tiltölulega fáum tilvikum. Í frv. er tilvikum fækkað þar sem lögskylt er að bú fari í opinbera skiptameðferð. Má því ætla að þetta hafi í för með sér að talsvert dragi úr aðgerðum við opinber skipti dánarbúa, ef frv. verður að lögum.
    Þótt þannig sé gert ráð fyrir að ákvæði frv. leiði til talsverðrar fækkunar á tilvikum, þar sem opinber skipti dánarbúa fara fram, gefa þau ekki tilefni til að vænta sambærilegra breytinga á tíðni opinberra skipta við slit hjúskapar eða óvígðrar sambúðar, eða félagsslit, enda eru opinber skipti aldrei lögskyld við þessar aðstæður, heldur koma þau alltaf til að kröfu einhvers hlutaðeiganda skv. reglum skiptalaga.
    Í ákvæði núverandi laga um skipti á dánarbúum og fleira er gerður verulegur greinarmunur á því hvernig staðið verði að framkvæmd opinberra skipta á dánarbúum eftir því hvort erfingjar þess látna lýsi yfir að þeir taki á sig ábyrgð á skuldbindingum hans eða ekki. Þessi munur er um margt óeðlilegur, m.a. vegna þess að ekkert tillit er tekið til þess af hvaða ástæðum ábyrgð erfingjanna fæst ekki. Í frv. er ekki gerður meiri munur á framkvæmd opinberra skipta eftir því hvort erfingjar lýsi yfir ábyrgð á skuldbindingum dánarbús eða ekki en telja má óumflýjanlegt. Um þetta vísast nánar til grg. með frv. Við gerð frv. hefur því viðhorfi verið fylgt, sem núgildandi lög byggja á, að í skiptalöggjöf eigi að koma fram reglur um verklag við framkvæmd skipta, svokallaðar formreglur, meðan önnur lög geymi reglur sem kveði á um tilkall til muna eða verðmæta við skiptin, svokallaðar efnisreglur. Þýðingarmestu efnisreglurnar, sem reynir á í tengslum við skipti á sviði þessa frv., eru reglur um erfðaréttindi, sem er að finna í erfðalögum nr. 8/1962, og reglur um fjármál hjóna, sem koma einkum fram í lögum um réttindi og skyldur hjóna nr. 20/1923, en að auki reynir á margvíslegar efnisreglur af öðrum meiði, t.d. reglur félagaréttar þegar um skipti til félagsslita er að ræða, reglur fjármunaréttar þegar um skipti til félagsslita er að ræða, reglur fjármunaréttar varðandi kröfuréttindi annarra við búskipti o.s.frv.
    Ég mun nú í örfáum orðum lýsa hvernig efni frv. er skipað niður í efni og kafla og víkja að einstökum atriðum.
    1. þáttur frv. hefur að geyma fyrstu þrjá kafla þess sem fjalla um almenn atriði um skipti dánarbúa. Í I. kafla frv. koma fram reglur um lögsögu við skipti dánarbúa. Ákvæði frv. um þessi atriði eru mun ítarlegri en núgildandi reglur og eru m.a. gerð til að taka af skarið um atriði sem vafi hefur leikið á um í framkvæmd.
    Í II. kafla frv., sem geymir ákvæði um það tímaskeið sem dánarbú á undir forræði sýslumanns eftir að andlát hefur borið að höndum, koma fyrst fram mun nánari reglur en í núgildandi lögum um hverjar upplýsingar þurfi að veita þegar andlát er tilkynnt, hvernig staðið verði að tilkynningunni sem slíkri og hver gögn þurfi að leggja fram í sambandi við hana. Reglur frv. um þessi atriði taka að miklu leyti mið af því hvernig þessu hefur verið hagað í framkvæmd á liðnum árum. Hér er að finna ítarlegri reglur um skipun sérstaks lögráðamanns, svo og skipun málsvara til að gæta hagsmuna erfingja. Í þessum kafla koma fram almennar reglur um hvernig verði staðið að skrásetningu og mati á eignum dánarbúa, sem eru mun ítarlegri en sambærileg ákvæði gildandi laga og taka að nokkru mið af venjum sem hafa myndast í þessum efnum í framkvæmd.
    Í III. kafla frv. er að finna reglur sem varða sérstök réttindi erfingja við skipti dánarbúa. Ákvæði 33. gr. geyma heimild til að tryggja maka þess látna og óuppkomnum börnum rétt til að halda vissum verðmætum, án tillits til skipta. Þessi regla er mun rýmri en skv. núgildandi lögum.
    Í 2. þætti frv., sem nær yfir IV. -- X. kafla þess, eru reglur þess um opinber skipti á dánarbúum. Áður hefur verið minnst sérstaklega á ýmis atriði frv. sem ætlað er að leiða til breytinga á framkvæmd opinberra skipta og óþarft er að víkja frekar að hér.
    Í IV. kafla frv. koma fram reglur um upphaf opinberra skipta. Af helstu nýmælum um þetta má í fyrsta lagi nefna að í 37. gr. er mælt fyrir um hvenær sýslumaður skuli eiga frumkvæði að opinberum skiptum vegna gæslu almannahagsmuna, en í framkvæmd hefur þótt skorta skýrari reglur um hvenær og hvernig eigi að hefjast handa um opinber skipti við hliðstæðar aðstæður án frumkvæðis erfingja.
    Í öðru lagi er tekin upp heimild í 40. gr., sem skortir með öllu í lögum nr. 3/1878, til að lánardrottinn þess látna geti krafist opinberra skipta að liðnum vissum tíma frá andláti. Í núgildandi lögum er staða lánardrottna lítt tryggð ef dánarbú er ekki tekið til opinberra skipta af öðrum sökum og leyfi er ekki veitt erfingjum til einkaskipta eða maka til að setjast í óskipt bú.
    Þá er loks í þriðja lagi kveðið skýrar á um það í 42. -- 45. gr. en í núgildandi lögum hvernig staðið verði að kröfu um opinber skipti og farið með hana fyrir dómi. Að auki er þar mælt fyrir um að héraðsdómari kveði upp úrskurð um slíka kröfu í stað þess að taka afstöðu til hennar með ákvörðun eins og nú er tíðast.
    Í V. kafla frv. er að finna almenna reglu um störf og stöðu skiptastjóra sem, eins og áður hefur komið fram, er ætlað að annast framkvæmd opinberra skipta.
    Í VI. kafla frv. eru reglur um fyrstu aðgerðir við opinber skipti.
    Í VII. kafla frv. eru sérreglur um meðferð krafna á hendur dánarbúum þegar erfingjar taka ekki að sér ábyrgð á skuldbindingum þess. Hér er að finna nokkur nýmæli sem varða innköllun, kröfulýsingu o. fl.
    Í VIII. kafla frv. er að finna reglur um meðferð krafna skuldheimtumanna ef erfingjar hafa tekið á sig ábyrgð á skuldbindingum dánarbús. Þessar reglur eru áþekkar ákvæðum IV. kapítula núgildandi laga að öðru leyti en því að ef innköllun er gefin út til skuldheimtumanna þá annast skiptastjóri það verk. Einnig má benda á sambærileg nýmæli og er að finna í VII. kafla.

    Í IX. kafla frv. eru reglur um hvernig staðið verði að ákvarðanatöku um ráðstöfun á hagsmunum dánarbúa við opinber skipti. Í núgildandi lögum er byggt á að ákvarðanir sem þessar verði teknar á skiptafundum sem skiptaráðandi heldur fyrir dómi, ýmist með skuldheimtumönnum eða erfingjum eftir því hvort erfingjar hafa tekið ábyrgð á skuldbindingum bús, en skiptaráðandi framfylgi síðan slíkum ákvörðunum og komi fram sem fyrirsvarsmaður búsins þegar það er gert.
    Ákvæði IX. kaflans fela þá meginbreytingu í sér að skiptastjóri haldi þessa skiptafundi utan réttar og gegni að öðru leyti því hlutverki sem skiptaráðandi hefur með höndum í þessum efnum eftir núgildandi lögum. Að öðru leyti er reglum IX. kafla ætlað að leiða í fyrsta lagi til þeirra breytinga að erfingjar fái rétt til afskipta til jafns við skuldheimtumenn af ráðstöfunum á hagsmunum búsins þótt þeir taki ekki ábyrgð á skuldbindingum þess. Þessi réttur fellur þó niður ef afráðið hefur verið skv. 62. gr. frv. að fara með búið eftir reglum um framkvæmd gjaldþrotaskipta því að þá fara skuldheimtumenn einir með þetta ákvörðunarvald.
    Í öðru lagi veita ákvæði kaflans skiptastjórum mun rýmri heimildir til sjálfstæðrar ákvörðunartöku, án þess að bera ráðstafanir undir skiptafundi, en núgildandi fyrirmæli laga nr. 3/1878 veita skiptaráðendum að þessu leyti. En þessar breytingar eiga sér nokkra fyrirmynd í ákvæðum gjaldþrotalaga og er ætlað að draga úr þyngslum í þessum efnum.
    Þá er í þriðja lagi leitast við að setja mun ítarlegri reglur en nú gilda um hvernig verði brugðist við ef skiptafundur kemst ekki að einróma niðurstöðu um ákvörðun, eða ef ákvörðun þykir óeðlileg í garð þeirra sem eiga hagsmuna að gæta en hafa ekki átt þátt að henni. Í framkvæmd hefur verið talið að þau sjónarmið ættu við, sem er lagt til að verði lögfest, að þessu leyti en fyrir því hefur þó skort nægilega skýra lagaheimild.
    Í X. kafla frv. er að finna reglur um hvernig opinberum skiptum verði lokið, til hvaða ráðstafana skiptastjóri þurfi að grípa til að ljúka hlutverki sínu og að hverju marki verði heimilað að taka opinber skipti upp á ný þegar þeim hefur verið lokið.
    Í 3. þætti frv. eru reglur um framkvæmd og lok einkaskipta sem erfingjar annast sjálfir að fengnu leyfi sýslumanns, svo og um réttarstöðu erfingja og þeirra sem telja til réttinda á hendur dánarbúi meðan á einkaskiptum stendur. Þessar reglur eru í flestum atriðum sambærilegar ákvæðum núgildandi laga og þeirri framkvæmd sem hefur mótast á grundvelli þeirra.
    Í 4. þætti frv. koma fram reglur um opinber skipti þegar ekki er um dánarbú að ræða, en þær taka nánar tiltekið til opinberra skipta við fjárslit milli hjóna og fólks í óvígðri sambúð og við slit á félögum þar sem félagsmenn bera ótakmarkaða ábyrgð á skuldum. Fyrirmælum þessa þáttar er ætlað að telja með tæmandi hætti hvenær opinber skipti geti farið fram eftir ákvæðum frv. á öðrum búum en dánarbúum, þannig að beinlínis verður ályktað að opinber skipti komi

ekki til álita undir öðrum kringumstæðum, t.d. við slit hlutafélaga eða annarra félaga þar sem félagsmenn bera takmarkaða ábyrgð á skuldbindingum. Þýðingarmestu ákvæði þessa þáttar frv. koma fram í XIV. kafla sem tekur til opinberra skipta við fjárslit milli hjóna og fólks í óvígðri sambúð.
    Núgildandi fyrirmæli í VI. kapítula laga nr. 3/1978 um opinber skipti við skilnað hjóna hafa ekki átt við þá skipan á fjármálum hjóna sem var tekin upp með lögum nr. 20/1923 og gildir enn, þannig að lítið sem ekkert hefur verið fært að styðjast við þau frá þeim tíma. Helstu núgildandi lagaákvæði, sem verður fylgt í þessum efnum, koma fram í VII. kafla laga nr. 20/1923, sem varðar skipti milli hjóna við andlát annars þeirra eða skilnað, og í VI. kafla sömu laga, sem varðar svonefnd slit á fjárfélagi hjóna án þess að um skilnað eða andlát annars þeirra sé að ræða. Reglur þessar hafa ekki gefið nægilega skýra mynd af því hvernig verði staðið að aðgerðum við slík skipti í einstökum atriðum. Að auki verður að telja þeim ranglega komið fyrir í lögum sem kveða aðallega á um efnisleg réttindi milli hjóna í stað þess að vera skipað í löggjöf sem fjallar um sjálfa framkvæmd skiptanna. Með frv. er lagt til að þessar reglur færist í löggjöf um framkvæmd skipta, auk þess að leitast er við að gera þær mun skýrari og fyllri.
    Í 5. þætti frv. er kveðið á um meðferð ágreiningsmála sem rísa við skipti fyrir dómstólum. Reglum þáttarins er skipt í þrjá kafla. XVI. kafla, þar sem mælt er fyrir um hvaða mál verða borin undir úrlausn dómara eftir sérreglum frv. og hver aðdragandi er að því, XVII. kafla, þar sem kveðið er á um afbrigði frá almennum reglum um meðferð einkamála í héraði við meðferð þessara mála, og XVIII. kafla, sem fjallar um málskot úrlausna héraðsdómara til æðra dóms.
    Í 6. og síðasta þætti frv. koma fram reglur um gildistöku, ef það verður að lögum, brottnám og breytingu annarra laga og bráðabirgðaákvæði sem varða tengsl eldri laga og yngri.
    Hæstv. forseti. Ég hef þá lokið að mæla fyrir þessu frv. og legg að því búnu til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. allshn.