Endurreisnar- og þróunarbanki Evrópu
Þriðjudaginn 13. nóvember 1990


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Hæstv. forseti. Frv. til laga um hlut Íslands í stofnfé endurreisnar - og þróunarbanka Evrópu, European Bank for Reconstruction and Development á enska tungu, sem er á þskj. 134 og ég mæli nú fyrir, er flutt í tengslum við tillögu sem hæstv. utanrrh. mun flytja til þál. um heimild til að fullgilda samning um stofnun þessa banka.
    Samningur fjörutíu þjóðríkja og tveggja alþjóðastofnana um stofnun Endurreisnar- og þróunarbanka Evrópu var undirritaður í París hinn 29. maí sl. Hlutverk bankans er að stuðla að endurreisn efnahags og lýðræðis í ríkjum Mið- og Austur-Evrópu. Stofnun hans er táknræn fyrir þær miklu breytingar sem átt hafa sér stað í þessum ríkjum á aðeins einu ári. Þær hafa verið bæði örari og meiri en nokkurn hefði órað fyrir. Þjóðirnar varpa af sér oki kommúnisma og miðstýringar, frelsisvindar feykja burt þrúgandi andrúmslofti einangrunar og ofstjórnar kommúnismans. Austur - og Vestur - Þýskaland heyra nú sögunni til en nýtt ríki hefur orðið til með sameiningu þeirra. Sovétríkin virðast varla geta brauðfætt þjóðirnar sem þau mynda og gætu þá og þegar liðast í sundur. Þjóðir Mið - og Austur - Evrópu hafa goldið það dýru verði að treysta á hagskipulag sem byggðist á miðstýrðum áætlunarbúskap. Kommúnisminn drap framtak einstaklinga í dróma og gat alls ekki tryggt almenningi svipuð lífskjör og þjóðir Vestur - Evrópu hafa náð.
    Um leið og þjóðir Mið - og Austur - Evrópu taka upp fjölflokkalýðræði í stað einræðis kommúnismans freista þær þess að breyta sínu hagskipulagi á þann hátt að leysa markaðsöflin úr læðingi og virkja þau til að auka hagsæld almennings. Í stað efnahagslegrar einangrunar stefna þessar þjóðir nú að því að verða hluti af hinu alþjóðlega hagkerfi, hinu alþjóðlega viðskiptakerfi, og efla sín utanríkisviðskipti. Slík umbreyting mun ekki ganga þrautalaust fyrir sig. Reyndar eru engar leiðbeiningar til um það hvernig best fari að gerbreyta hagskipulagi á þennan hátt á skömmum tíma. Þó virðist það ljóst að afnám ríkiseinokunar á framleiðsluþáttum og frjáls verðmyndun á grundvelli markaðslögmála sé lykilatriði í þessum breytingum. Hætt er við að umbreytingunni fylgi aukin verðbólga og atvinnuleysi fyrst í stað meðan þjóðfélagið lagar sig að þeirri breytingu að búa ekki lengur við verðstýringu og stórlega niðurgreitt verð á lífsnauðsynjum, matvöru og húsnæði. Þá er ljóst að endurreisnin og umbreytingin mun krefjast mikilla fjármuna. Verksmiðjur í þessum löndum eru flestar úreltar, samgöngumannvirki léleg og önnur þjónusta, sem hið opinbera lætur vanalega í té, eins og vatn, rafmagn og fjarskipti, er öll í lamasessi. En þetta er í reynd forsenda þess að einkaframtak fái notið sín eins og það gerir á Vesturlöndum. Þetta allt er vanþróað í þessum ríkjum. Þá hefur komið í ljós, sem ekki er síður alvarlegt, að umhverfisspjöll og mengun af ýmsum toga er mun alvarlegri í þessum ríkjum en nokkurn grunaði og brýn þörf er á meiri háttar hreinsunaraðgerðum og umhverfisvörnum.

    Það er ljóst að alþjóðastofnanir eins og Alþjóðabankinn, Alþjóðalánastofnunin og Evrópubandalagið og stofnanir þess, einkum Evrópski fjárfestingarbankinn, munu gegna mikilvægu hlutverki í því endurreisnarstarfi sem er fram undan í ríkjum Mið - og Austur - Evrópu og ýmist lána þessum þjóðum fé eða leggja fé í atvinnurekstur eða veita þeim tæknilega aðstoð. Þá munu einnig einstök iðnríki leggja sitt af mörkum í sama skyni.
    Þrátt fyrir þetta allt þótti vestrænum ríkjum og þykir enn ástæða til að setja á laggirnar sérstaka fjármálastofnun til þess að greiða fyrir umbreytingunni í þessum ríkjum. Endurreisnar - og þróunarbanka Evrópu, sem hér er gerð tillaga um að Ísland leggi til nokkurt fé, svipar á ýmsan hátt til annarra fjölþjóðlegra þróunarbanka, t.d. Þróunarbanka Afríku, Þróunarbanka Asíu, Ameríska þróunarbankans og að sjálfsögðu Alþjóðabankans. En öðrum þræði er hann annars eðlis því honum er fyrst og fremst ætlað það pólitíska hlutverk að styðja lýðræðisþróunina í ríkjum Mið - og Austur - Evrópu. Þá er bankinn einnig að því leyti til sérstakur að þetta er í fyrsta sinn síðan 1945, þegar Alþjóðabankinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn voru stofnaðir, að vestræn ríki og ríki Austur - Evrópu standa saman að stofnun sameiginlegrar fjármálastofnunar á alþjóðavettvangi.
    Í starfi bankans, samkvæmt stofnskrá hans, verður höfuðáherslan lögð á það að efla starfsemi einkaaðila í efnahagslífi ríkja Mið - og Austur - Evrópu. Honum er þó heimilt að veita lán til aðgerða, hvort sem þær eru á vegum einkaaðila eða opinberra aðila, sem eru til þess fallnar að markaðshagkerfi geti starfað eðlilega. Í þessu sambandi má nefna opinberar framkvæmdir á sviði samgöngumála, veitu- og fjarskiptakerfa. Þá er bankanum líka ætlað að veita fjárhagslegan stuðning við verkefni á sviði umhverfismála. Bankinn getur bæði lánað og lagt hlutafé í einkafyrirtæki og ríkisfyrirtæki sem verið er að einkavæða til þess að greiða fyrir slíkri breytingu eða til þess að stuðla að þátttöku erlendra aðila í slíkum fyrirtækjum. Þá er honum einnig heimilt að ábyrgjast hlutafjárútboð eða lántökur einkafyrirtækja eða ríkisfyrirtækja sem verið er að breyta í einkafyrirtæki. Heildaraðstoð bankans við opinber fyrirtæki á hverju tveggja ára tímabili er þó takmörkuð við 40% af samanlagðri fjárhagslegri aðstoð bankans. Sama hámark gildir um hans aðstoð við opinber fyrirtæki í hverju landi en í þeim útreikningum er hins vegar ekki miðað við hvert ár heldur hvert fimm ára bil. Það er mikilvægt í þessu sambandi að lán, ábyrgðir eða eigin fjárframlag til ríkisfyrirtækja sem verið er að einkavæða og lán til opinberra lánastofnana sem endurlána til einkafyrirtækja, verða ekki talin með fjárhagslegri fyrirgreiðslu við hið opinbera í þessum löndum.
    Það er með öllu ljóst að bankinn getur orðið mikilvæg uppspretta fjármagns og annarrar fyrirgreiðslu fyrir samstarfsverkefni, sérstaklega, svo ég nefni dæmi, jarðhitaverkefni á milli íslenskra aðila og aðila í ríkjum Mið - og Austur - Evrópu. Hann gæti þannig stuðlað að útflutningi á íslensku hugviti og verkþekkingu um leið og hann liðsinnir ríkjum í þessum heimshluta. Ég get nefnt í þessu sambandi t.d. samstarf sem tekist hefur á milli íslenska fyrirtækisins Virkir-Orkint og ungverskra aðila um jarðhitaverkefni í Ungverjalandi og um áform þessara aðila um sameiginlega landvinninga í Mið - og Austur - Evrópu.
    En bankinn verður líka annað og meira en uppspretta fjármagns. Hann verður mikilvægur nýr vettvangur fyrir skoðanaskipti og miðlun þekkingar frá vestrænum sérfræðingum til starfsbræðra í ríkjum Mið - og Austur - Evrópu um ýmis atriði á sviði efnahagsmála, fjármála og fyrirtækjastjórnunar. Á öllum þessum sviðum er óhætt að fullyrða að síðarnefndu ríkin standi Vesturlöndum langt að baki.
    Ein forsenda þess að umbreytingin yfir í markaðsbúskap heppnist, eins og vonir standa til, er að þjóðirnar öðlist þekkingu á því hvernig best sé að nýta sér þá kosti sem valddreifing og markaðsbúskapur bjóða umfram miðstýrðan áætlunarbúskap.
    Ég vík þá nokkrum orðum að stofnun bankans, stærð hans og stjórnskipulagi.
    Stofnendur bankans eru eins og ég hef þegar nefnt 42, nánar tiltekið 24 aðildarríki Efnahags - , framfara- og samvinnustofnunarinnar OECD, en að auki eru svo Egyptaland, Ísrael, Kýpur, Lichtenstein, Malta, Marokkó, Mexíkó og Suður - Kórea og átta ríki úr Mið - og Austur - Evrópu: Austur - Þýskaland, Búlgaría, Júgóslavía, Pólland, Rúmenía, Sovétríkin, Tékkóslóvakía og Ungverjaland, auk tveggja stofnana Evrópubandalagsins, Efnahagsbandalags Evrópu og Evrópska fjárfestingarbankans.
    Stofnfé hins nýja banka mun nema 10 milljörðum evrópskra mynteininga, ECU, sem er jafnvirði um 748 milljarða króna miðað við gengi 1. okt. sl. Hlutur Bandaríkjanna er stærstur, um 10%, en síðan koma Bretland, Frakkland, Ítalía, Japan og Vestur - Þýskaland með rúmlega 8,5% hvert ríki. Samanlagt leggja aðildarríki Evrópubandalagsins, Efnahagsbandalag Evrópu og Evrópski fjárfestingarbankinn fram 51% af stofnfénu. Hlutur Íslands í stofnfénu verður 0,1%. Bankaráð skipað einum fulltrúa frá hverjum af stofnendum bankans mun fara með æðsta vald í málefnum hans. Bankastjórn skipuð 23 mönnum mun fara með daglega stjórn mála fyrir hönd bankaráðsins. Aðildarríki Evrópubandalagsins og stofnanir þess munu skipa 11 fulltrúa í bankastjórnina, EFTA-ríkin, Kýpur, Malta og Ísrael skipta með sér fjórum fulltrúum, ríki Mið- og Austur-Evrópu skipa fjóra fulltrúa og loks ríki utan Evrópu aðra fjóra. Það hefur tekist um það samkomulag milli Íslendinga og Svía að þessar þjóðir standi saman að kjöri fulltrúa í bankastjórn. Framkvæmdastjórn bankans verður í höndum eins bankastjóra og náðist samkomulag um að ráða Frakkann Jacques Attali, fyrrverandi ráðgjafa Mitterands Frakklandsforseta, til þessa starfs. Auk bankastjórans verður dagleg stjórn bankans í höndum eins eða fleiri aðstoðarbankastjóra.
    Svo ég víki nánar að lagafrv. sem hér er til umræðu vil ég taka fram að samkvæmt II. kafla stofnskrár bankans skal stofnfé hans vera 10 milljarðar

ECU, eða jafnvirði 748 milljarða króna eins og ég hef þegar nefnt. Hlutur Íslands í stofnfénu, hinu upphaflega stofnfé, yrði 10 millj. ECU, eða jafnvirði 748 millj. kr. Af þessari fjárhæð er greiðsluhlutafé 3 millj. ECU eða 224 millj. kr. og skal inna greiðslurnar af hendi á fimm árum með jöfnum ársgreiðslum, í fyrsta sinn árið 1991.
    Áætlað er fyrir þessari fyrstu greiðslu í frv. til fjárlaga sem nú liggur fyrir þinginu. Þar er ætlað fyrir 44 eða 45 millj. kr. Ábyrgðarhlutaféð, 7 millj. ECU, eða 524 millj. kr., þarf aðeins að inna af hendi að öllu leyti eða hluta til ef á þarf að halda vegna fjárhagslegra áfalla eða slita bankans. Það má taka fram að ákvæði stofnsamningsins um ábyrgð taka mið af samsvarandi ákvæðum í stofnsamningum Alþjóðabankans. Þótt Ísland hafi verið aðili að Alþjóðabankanum um áratuga skeið, nánar tiltekið frá árinu 1945, hefur aldrei reynt á ábyrgðarskuldbindingar landsins eða á loforðið um ábyrgðarhlutafé.
    Vegna skuldbindinga í 54. gr. stofnsamnings Evrópubankans, sem eru sambærilegar skuldbindingum Íslands vegna aðildar að ýmsum öðrum alþjóðastofnunum, þarf nú að leggja fram sérstakt lagafrv. um réttarstöðu bankans svo og friðhelgi, forréttindi og undanþágur er tengjast honum og starfsliði hans. Drög að lagafrv. um þessi atriði almenns eðlis hafa verið samin í viðskrn. og send utanrrn. og dóms- og kirkjumrn. til nánari athugunar. Það er að því stefnt að leggja þetta frv. fram innan tíðar.
    Virðulegi forseti. Endurreisnar- og þróunarbanka Evrópu er ætlað að greiða fyrir þeim stórkostlegu og langþráðu breytingum sem eru að verða í ríkjum Mið- og Austur-Evrópu og hann á vafalaust eftir að gegna þar veigamiklu hlutverki. Íslendingum ber, sem velmegandi lýðræðisþjóð, að styðja stofnun bankans líkt og önnur iðnvædd lýðræðisríki gera. Um leið og Evrópubankinn nýi kemur ríkjum Mið- og Austur-Evrópu til góða, kann hann einnig að ljúka upp dyrum fyrir íslenskum fyrirtækjum og sérfræðingum til að starfa á alþjóðavettvangi og vinna að verkefnum í samvinnu við erlenda aðila með stuðningi bankans.
    Ég legg til, virðulegi forseti, að þessu frv. verði að umræðunni lokinni vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.