Húsnæðisstofnun ríkisins
Miðvikudaginn 14. nóvember 1990


     Salome Þorkelsdóttir :
    Hæstv. forseti. Það er þessi árlegi viðburður hér á hv. Alþingi sem er kominn á dagskrá hjá okkur, þ.e. hæstv. félmrh. leggur fram sitt árlega bútafrv. um breytingar á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins. Það hefur margoft komið fram og verið gagnrýnt hversu slæmt það er að það skuli alltaf þurfa að vera að betrumbæta og lappa upp á þetta frv. sem er greinilega löngu, löngu búið að ganga sér til húðar og þarf allsherjar uppskurðar við ef á að bæta úr í þessum efnum.
    Hv. 2. þm. Norðurl. e. hefur nú í ítarlegu máli fjallað í raun og veru efnislega um ástandið í þessum málum eins og þau birtast okkur þessa síðustu daga. Við höfum einnig fengið að heyra það í fréttum hversu erfitt hæstv. félmrh. hefur átt uppdráttar innan ríkisstjórnarinnar til þess að fá skilning á sínum viðhorfum til þessara mála þar.
    Frv. var dreift í gær og hér er, eins og fram hefur komið, um mjög mikilvægt mál að ræða. Þess vegna hefði auðvitað verið æskilegt og nauðsynlegt fyrir þingmenn að fá tíma til að kynna sér einstök efnisatriði í þessu frv. til þess að vera fær um að ræða það hér efnislega í einstökum atriðum. Það hefði verið freistandi að óska eftir því að fresta umræðu um þetta mál og ég verð að viðurkenna að það voru í raun og veru mín fyrstu viðbrögð þegar ég sá að málið var komið á dagskrá. En ég ætla samt ekki að biðja um það. Ég ætla að sætta mig við að málinu verði vísað til nefndar nú því ég tel að það sé brýnt að fjalla um þetta mál og gaumgæfa einstaka þætti þess í þeirri trú að hér sé þó verið að bæta um, sérstaklega fyrir þá aðila sem þurfa mest á skjótum úrbótum að halda og eru mjög illa settir varðandi fyrirgreiðslu í þessum málum, eins og kom reyndar skýrt fram í máli hv. 2. þm. Norðurl. e. Það gefst þá væntanlega tími til þess að ræða frekar og almennara um húsnæðismál okkar Íslendinga, eða húsnæðislánamál, við 2. umr. þessa máls. En ég get ekki neitað því að mér finnst þetta eiginlega vera farið að horfa þannig við gagnvart því fólki sem þarf að leita eftir lánum til þess að eignast þak yfir höfuðið að það minnir á einhvers konar betligöngur eins og margir kvörtuðu undan og ekki síst sveitarstjórnarmenn þegar þeir þurftu að leita til fjvn. Alþingis á hverju hausti og þótti mörgum miður og allir voru sammála um að þyrfti að breyta varðandi verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. En þannig er það með þennan málaflokk að það er eins og fólk sé að betla peninga en ekki að það sé sjálfsagður hlutur að geta gengið inn í bankann sinn og fengið þar fyrirgreiðslu til þess að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Það er sennilega langt í að maður sjái þann draum rætast. En vonandi kemur þó að því fyrr en síðar að þetta kerfi verði það einfalt að ekki þurfi þessa flóknu pólitísku úthlutunarstofnun sem Húsnæðisstofnun er eins og henni er fyrir komið í dag.
    Ég ætla, hæstv. forseti, ekki að fjalla frekar um þetta mál hér við 1. umr. eins og ég sagði áðan. Ég

hafði nefnt það í tveggja manna tali við hæstv. ráðherra að ég mundi jafnvel óska eftir að þessari umræðu yrði frestað en ég ætla ekki að óska eftir því. Ég mun heldur reyna að taka mér tíma síðar til þess að gaumgæfa þessi mál.