Húsnæðisstofnun ríkisins
Miðvikudaginn 14. nóvember 1990


     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Eins og fram kom í máli hv. síðasta ræðumanns, 6. þm. Reykn., þá kom þetta frv. inn á borð til okkar síðdegis í gær. Því hefur ekki gefist tími til að íhuga það sem skyldi en mun vafalaust verða gert bæði í nefnd og í seinni umræðum.
    Ég vil þó ekki láta hjá líða að undirstrika að ég álít að það sé mjög nauðsynlegt að fólk sem hefur litla tekjumöguleika hafi líka möguleika á að fá þak yfir höfuðið á sama hátt og allt annað fólk. Það fólk hefur aðeins einn möguleika á því og það eru félagslegu íbúðirnar. Því skulum við ekki gera of lítið úr þeim möguleikum sem félagslega íbúðarkerfið getur veitt fólki. Á hinn bóginn er mér líka ljóst að 7% vextir geta verið mjög þungur baggi á venjulegu húsbréfafólki. Og ekki síst að það skuli vera 10% afföll af húsbréfunum, þ.e. að maður skuli þurfa að borga 10%, 100 þús. kr., af hverri milljón í afföll. Þetta finnst mér vera dálítið sár galli.
    Mér virðist það vera mjög gott að í 1. gr. þessara laga skuli standa að endurbætur á notuðu íbúðarhúsnæði skuli líka falla undir þessi lög því fjöldinn allur af fólki sem hefur fengið lán til þess að kaupa gamalt húsnæði fékk hungurlús þegar þau voru veitt, þ.e. G-lánin svokölluðu sem veitt voru hér í byrjun þessa áratugar voru svo lág að þau hjálpuðu fólki lítið í kaupum á íbúð. Nú hefur það fólk möguleika á að rétta hlut sinn að nokkru.
    En þetta frv., eins og hv. 2. þm. Norðurl. e. nefndi réttilega, gengur eins langt og núv. ríkisstjórn treystir sér til að ganga. Og þó við vildum gjarnan að það gæti gengið lengra þá fagna ég því að það er fram komið og held að það sé nauðsyn.