Húsnæðisstofnun ríkisins
Miðvikudaginn 14. nóvember 1990


     Halldór Blöndal :
    Það eru einungis þrjú atriði, herra forseti. Ég er fullkomlega sammála hæstv. félmrh. um að fjöldi fólks er að missa íbúðir sínar og það er auðvitað átakanlegt að ríkisstjórnin skuli ekki hafa treyst sér til þess að halda áfram að veita greiðsluerfiðleikalán á þessu ári. Nú verður þetta fólk að sæta því að fá greiðsluerfiðleikalánin með afföllum, með 10% afföllum er hér talað um, sem gerir 7% raunvexti á greiðsluerfiðleikalánunum. Og ég skora á hæstv. ráðherra að neita því. Er það ekki rétt að samkvæmt reikningum félmrn. verða þessi bréf með 10% afföllum og raunvextir þar með 7% hjá greiðsluerfiðleikafólkinu? Þetta er bara það sem er gefið upp af sjálfu ráðuneytinu og enginn tilbúningur, hvorki frá mér né öðrum hér inni. ( Félmrh.: Taktu vaxtabætur með og vexti af skammtímalánum.) Vaxtabætur koma ekki á greiðsluerfiðleikalán. Þetta er nú alger misskilningur. Og 9% vextir koma þessu máli ekkert við. Staðreyndin er sú að ráðherrann hefur ekki staðið við að útvega fjármagn á þessu ári til þess að hægt væri að halda áfram að veita greiðsluerfiðleikalán með eðlilegum hætti. Og nú eru þau veitt með 7% raunvöxtum í stað 3,5% raunvaxta áður. Svo einfalt er það.
    Ég held að ég verði bara aftur að vitna í kunnan hagfræðing. Ég held að ég sé ekki góður kennari að mér skuli ekki takast að útskýra fyrir ráðherranum að það sé verra að borga 7% vexti en 3,5% vexti. Þá þarf greinilega einhvern betri kennara til þess en mig.
    Í öðru lagi er það ljóst að fram að þessu hefur verið hægt að fá lífeyrissjóðslán. Ef við tölum um gamla kerfið með 3,5% vöxtum, afborgunarlaust í þrjú ár, með annuitets-lánum til fjögurra ára, þá hefur greiðslubyrðin verið léttari og jafnari til að byrja með heldur en með því að kaupa húsbréf með þeim afföllum sem við erum að tala um. Afföllin voru 12,33% meðan vextirnir voru 5,75%. (Gripið fram í.) Við getum auðvitað leikið okkur að tölum. Það er auðvitað hægt að finna upp einhverjar tölur. En aðalatriðið er þetta að ráðherranum finnst rétt að þeir sem eru að afla sér íbúðarhúsnæðis greiði 7% vexti af fénu. Og ráðherrann telur rétt að laga fjárhag Byggingarsjóðs ríkisins með því að hækka lánin sem þar hafa verið veitt. Ráðherrann telur að 3,5% vextir af húsnæðislánum séu of lágir vextir. Þessu er ég einfaldlega ósammála.
    Úr því að við heykjumst á því að halda við þá stefnu er óhjákvæmilegt, eins og ég sagði áðan, að vextir séu frádráttarbærir. Ef við tökum 7% vextina, hvað er það af 5 milljónum? Það eru 350 þús. kr. Heldur ráðherrann að einhver sem hefur 80 þús. kr. á mánuði hafi efni á því að greiða slíka vexti af sinni íbúð? Það fólk sem svo háa vexti greiðir fær engar vaxtabætur. Það er kjarni málsins.
    Og svo þetta síðasta, þegar ráðherrann segir að seljandinn borgi ekki afföll af húsbréfum og heldur því fram að hann hafi ekki hækkað íbúðarverð. Getur ráðherrann útvegað mér þriggja herbergja íbúð á sama verði og í fyrra? Eigum við að fara hér á markaðinn, tala við byggingarverktakana? Eigum við að spyrja verktakana að því hvort nýjar íbúðir núna séu á sama verði og í fyrra, þriggja herbergja íbúð, ný? Ekki er hún það hjá verkamannabústöðunum. Er þá félagslega kerfið að svindla á fólkinu? Úti á hinum almenna markaði hafa íbúðir hækkað. Í staðinn fyrir það að menn gátu áður keypt íbúðir með 3,5% vöxtum til 40 ára, annuitets-lán, afborgunarlaus í þrjú ár, verða þeir núna að sætta sig við 7% raunvexti eftir þeim hugmyndum sem ráðherrann er með. Þetta er kjarni málsins. Þetta er það sem ríkisstjórnin býður. Við þetta verður fólkið að sætta sig en vonandi ekki lengur en fram í apríl. Þá verða kosningar og þá kemur önnur tíð og blíðari með blóm í haga.