Námslán og námsstyrkir
Miðvikudaginn 14. nóvember 1990


     Rannveig Guðmundsdóttir :
    Hæstv. forseti. Þó þetta sé í annað sinn sem þetta frv. er flutt, eins og fram kom í máli 1. flm. og frsm.
hér áðan hef ég hug á að blanda mér stuttlega í þessa umræðu, enda málið þess eðlis að þörf er á að gefa því gaum eins og fram kom hér fyrr.
    Þetta frv. miðar að því að Lánasjóði ísl. námsmanna sé heimilt að veita einstæðum foreldrum fjárhagsaðstoð til framhaldsnáms óháð aldri þeirra og eðli námsins. Það hefur komið fram í greinargerð og framsögu að þarna er verið að vísa til almenns framhaldsnáms, svo sem í mennta-, fjölbrauta- og verslunarskólum, og stuðnings við styttra nám og námskeið þar sem skólagjalda er krafist. Það er vissulega mat okkar flutningsmanna að þessu frv., og tökum við undir það með 1. flm., að þessi undanþága sé réttlætanleg.
    Ég mun ekki hafa mörg orð um þetta frv. en ég bendi þó á það sem fram kemur í greinargerð um meðaltekjur kvenna þar sem bent er á að þær losa rétt 60% af meðaltekjum karla, samkvæmt þeirri skýrslu sem framsögumaður vísaði hér til áðan, og að yfir 70% einstæðra foreldra er ófaglært verkafólk eða stundar störf á sviði verslunar og þjónustu án sérmenntunar.
    Það er alveg ljóst að stuðningur sem þessi skilar sér margfalt til baka. Við skulum einnig athuga það að oft voru ungar konur ekki einu sinni komnar í fastan farveg á vinnumarkaði þegar þær sátu uppi með ábyrgð á barni eða börnum. Það getur verið erfitt þegar þarf að hafa ákveðin próf eða ákveðna skólagöngu að baki til að hægt sé að komast í það framhaldsnám sem hugur stendur til og sýnu verra þegar fjárhagsaðstæður stöðva það að hægt sé að ná sér í þau próf sem þarf til að fara inn í þetta framtíðarnám.
    Það hefur sýnt sig í þeim tilfellum sem ég þekki til að stuðningur, bæði félagslegur og fjárhagslegur, skiptir máli þegar erfiðar aðstæður koma upp, en stuðningurinn verður og á alltaf að vera hjálp til sjálfshjálpar. Það er það sem mér finnst að þetta frv. snúist um. Fjárhagsaðstoð til framhaldsnáms getur í þessu efni verið það skref til nýrrar framtíðar fyrir viðkomandi sem þarf til.
    Ég bendi líka á að það skortir ekkert á að konur séu mjög meðvitaðar um þýðingu þess að bæta við þekkingu sína og nota sér þau tækifæri sem gefast þegar hægt er. Það hefur því aukist mjög að konur sæki hin ýmsu námskeið sem bjóðast í tengslum við störf þeirra eða stéttarfélög. Kannski var það fyrst og fremst vegna þess að mig langaði að koma því á framfæri að ég kom hér í ræðustól því að í skýrslu frá Menningar- og fræðslusambandi alþýðu er einmitt sagt frá þátttakendum á önnum frá 1. okt. 1988 til 30. sept. 1989 og þar kemur fram að þátttakendur í Félagsmálaskóla alþýðu á þessu tímabili, þ.e. þremur önnum og níu námskeiðum, voru 133. Þar af voru konur 44% og karlar 56%. Á trúnaðarmannanámskeiðunum voru þátttakendur 350 og þetta voru alls 25 námskeið. Þar voru konur 233 og karlar 117. Á öðrum

námskeiðum og fræðslufundum, sem voru alls 24, voru konur 243 og karlar 137 og að lokum má nefna það að í Tómstundaskólanum, sem starfaði á haustinu 1988 með 56 námskeið, en þar eru bæði frístunda- og starfsnámskeið, voru konur 480 á móti 130 körlum og á vorinu 1989 á 70 námskeiðum voru konurnar 530 á móti 165 körlum. Þátttaka kvennanna og fjöldi þeirra hefur verið með þeim hætti á þessum námskeiðum að nærri hefur valdið áhyggjum þeirra sem námskeiðin hafa haldið vegna óska þeirra um blöndun og að sem flestir úr atvinnulífinu á hverjum tíma taki þátt í þeim.
    Þetta segir okkur hvernig konur eru tilbúnar að gera það sem þær geta, bæta við þekkingu sína og nám þegar þær eiga möguleika til og í mörgum tilfellum, varðandi þau námskeið sem ég benti á, eru námskeiðsgjöldin greidd af stéttarfélagi eða fyrirtæki.
    Eins og hefur komið fram, bæði við fyrri umræðu þegar þetta mál var flutt í fyrra sinn og eins nú í framsöguræðu hv. 12. þm. Reykv., sem er eins og áður sagði 1. flm. frv., getur það gjörbreytt stöðu ungs einstæðs foreldris varðandi atvinnumál að eiga kost á fjárstuðningi til að ljúka almennu námi eða til að sækja sérhæfð námskeið og því vona ég að þetta frv. nái fram að ganga.