Námslán og námsstyrkir
Miðvikudaginn 14. nóvember 1990


     Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir :
    Herra forseti. Vegna þess sem hv. 13. þm. Reykv. sagði varðandi Atvinnuleysistryggingasjóðinn er það náttúrlega satt að við erum óskaplega blönk. Í þeim fáu tilfellum sem svona máli hefur verið skotið til okkar hér í aðalstjórninni megum við hins vegar eiga það að við höfum alltaf tekið afstöðu með þeim sem til okkar hefur leitað. Hins vegar held ég að mjög vanti á skipulag, að það sé skipulagt að fólk sem missir atvinnuna sé hvatt til náms og þeir námsmöguleikar notaðir sem eru kannski fyrir hendi. Ég tel þetta ákaflega þarft mál, mjög þarft. Við vitum það öll sem erum eldri að margir af þessum einstæðu foreldrum eru fólk sem fer mjög ungt út í hjúskap, hættir í skólum, hefði þurft að öðlast meiri þroska og þarf mjög á því að halda að bæta við sig þekkingu. Ég held að það mundi sýna sig að þetta væri fjárfesting sem borgaði sig og það fljótt.
    Út af því sem sagt var um Menningar- og fræðslusamband alþýðu, þá er sá skóli, Félagsmálaskóli alþýðu, orðinn vel skipulagður og hefur ágætis kennslukrafta. En það sem ég held að geri að færri konur sækja hann en karlar er það að skólinn er í Ölfusborgum sem út af fyrir sig er mjög gott, það er mjög gott að hafa skólann þar, en konurnar sem eru með börn, yngri konurnar, treysta sér ekki til að fara frá heimilum sínum yfir þetta langan tíma. Þess vegna mæta þær ekki þar. Hins vegar sýnir þetta sig með Tómstundaskólann, þar sem þær geta verið á heimilum sínum og sótt skólann út frá þeim, að þær sækja hann miklu betur. Þetta sýnir það náttúrlega líka að ábyrgð heimilanna er mikið meira á höndum konunnar og auðvitað líka það að karlmenn eru oft önnum kafnir við vinnu og geta ekki sinnt heimilunum. Það er þessi langi vinnudagur hjá okkur sem rænir þá möguleikum til þess.
    Ég held líka að allt skipulag vanti á það að fólk sem stundar t.d. vaktavinnu hafi meiri möguleika til að sækja námskeið eða skóla. Mér er það minnisstætt frá því að við vorum fyrst að reyna að koma á Sóknarnámskeiðunum hversu erfitt var að samræma þau þannig að vaktavinnufólkið gæti komist á námskeiðin eins og hitt fólkið. Sem betur fer smáglæddist nú skilningur á þessu og ég held að það sé ekki beint orðið til fyrirstöðu en það er bara mikil vinna í kringum það að koma því skipulagi á og vekja áhuga á því.
    Ég vil taka undir með 13. þm. Reykv. að það er afskaplega sorglegt þegar talað er um fjölskyldumál yfirleitt hvað karlmennirnir flýta sér burtu úr salnum. Og það eru virðingarverðir menn sem sitja eftir og hlusta, enda kannski barnakarlar sjálfir og sjá að þetta hreinlega hæfir þeim, að vera við.
    Ég vildi óska þess að alþingismenn tækju þetta mál svolítið alvarlega, hugsuðu hvað á bak við þessa tillögu býr. Mér er minnisstætt sjálfri þegar ég hóf störf á Pósthúsinu í Reykjavík sem bréfberi, þá einstæð móðir. Þetta starf var mér ofviða eftir um það bil tvö ár vegna þess að það var hreinlega svo líkamlega erfitt að ég entist ekki í því lengur. Þá sótti ég um að

fá að komast inn á Pósthúsið. Þetta virtist þá ekki neitt sérstaklega vandasöm vinna, að raða bréfum og þess háttar. Ég gat ekki fengið vinnuna af því að ég hafði ekki gagnfræðapróf. Ég var bara með minn grunnskóla og barnaskóla sem ég er með enn. Það stóð í veginum fyrir því að ég gæti haldið áfram að vera þarna á vinnustað þar sem mér satt að segja líkaði að mörgu leyti mjög vel. Það strandaði á þessu, ég hafði engin próf. Ég hygg að það sé sama sagan enn og kannski er hún reyndar bara orðin algengari, að fólk getur ekki skipt um vinnu af því að það vantar ákveðin próf, ákveðið nám og ákveðin próf. Þetta varð mér kannski ekki til tjóns af því að kannski sæti ég enn og sorteraði bréf ef ég hefði haft próf, en svona var þetta samt sem áður.