Námslán og námsstyrkir
Miðvikudaginn 14. nóvember 1990


     Flm. (Þórhildur Þorleifsdóttir) :
    Virðulegur forseti. Ég vil þakka þeim sem til máls hafa tekið og þakka þær góðu undirtektir sem frv. þetta hefur fengið. Varðandi það að hér hafi ef til vill verið farið í stóra hringi umhverfis málefnið vil ég taka fram að ég tel ekki eftir mér þetta hringsól þegar um málefni barna eða fjölskyldunnar er að ræða. Þau eru allt of sjaldan hér til umræðu og er því miður oft stutt umræða og henni sýndur lítill áhugi. En því er ekki að neita að oft situr maður hér undir ýmsu sem manni þykir heldur tilgangslaust hringsól en eins og ég sagði, ef það tengist þessum málefnum, þá tel ég það ekki eftir mér en óska einungis eftir því að við konur hefðum hér fleiri karlmenn með okkur í þessum hringdansi.
    Ég ætla að byrja á því að ræða um það sem hv. 2. þm. Vestf. gerði hér að umtalsefni, þ.e. prentvillu í frv. Nú er það svo að það er ekki um prentvillu að ræða en aftur á móti eru tölur rúnnaðar af til þess að þær séu auðveldari aflestrar en tölur sem það eru ekki. Hér var fylgt þeirri gömlu reglu, sem við lærðum, varðandi krónur og aura að hækka upp eða lækka eftir atvikum og sá háttur var nú hafður á með þessa tölu og því kemur þessi skekkja út. Við sjáum að það þarf ekki annað en að lækka töluna 9700 niður í 9600 og rúmlega 10.000 börn, 10.100, þá erum við farin að nálgast rétta tölu. ( Gripið fram í: Það var jafnréttisviðleitni.) Var það jafnréttisviðleitni? Ég held að þarna hafi ekki hallað á einstæða feður. Þeir eru með svo fá börn að það hallar lítið á þá.
    En þó að umræðan hér hafi snúist upp í það að vera helst um börn og þeirra hag er það auðvitað hluti af inntaki þessa frv., þ.e. þó að það nái til foreldra í þessu tilfelli þá er það auðvitað ekki síst til þess að bæta hag barna þessara foreldra, þannig að vissulega snýst þetta frv. um börn og þeirra hag. Það fer auðvitað ekki á milli mála að það sem konur geta gert til að bæta sína aðstöðu kemur börnum þeirra til góða. Vil ég í því sambandi bara minna á þá umræðu sem verið hefur í sambandi við þróunarsjóði. Þar er þessi staðreynd viðurkennd að hjálp til kvenna komi öllum til góða. Það gildir svo sannarlega í þessu tilviki líka.
    Það komu fram fróðlegar upplýsingar í máli hv. 9. þm. Reykn., þ.e. um aðsókn að námskeiðum Félagsmálaskóla alþýðu og námskeiðum Tómstundaskólans. Það sem hún sagði hér er auðvitað til vitnis um það að konur eru reiðubúnar til að auka við þekkingu sína, sjálfsagt bæði sjálfum sér til ánægju en einnig til þess að bæta kjör sín ef það er mögulegt. Það er ástæða til þess að minna á í því sambandi að því var lengi vel borið við að laun kvenna væru svo miklu lægri en laun karla, sem raun ber vitni, af því að þær hefðu ekki sambærilega menntun.
    Nú er það því miður svo að konur hafa í æ ríkari mæli sótt sér menntun. Þá á ég ekki við að það sé miður að þær hafi sótt sér menntunina, heldur hitt að það hefur ekki orðið til þess að minnka þetta bil og segir okkur náttúrlega það að það er matið á störfum kvennanna sem er rangt, þar sem þær hafa hlýtt þessu

kalli svo vel. Allir framhaldsskólar landsins munu hafa fleiri nemendur af kvenkyni en karlkyni og þeim fjölgar sífellt á æðri menntastigum, þannig að þessi rök munu fljótt bresta, ef þau eru ekki þegar brostin, að þarna sé að finna ástæðuna fyrir launamuninum.
    Hér hefur bæði menntunarástand barna og ástand skóla verið gert að umræðuefni. Ég vil taka undir það sem hv. 13. þm. Reykv. gerði hér að umtalsefni, þ.e. þroski barna, m.a. málþroskinn, almennt menningarstig barna. Hv. þm. sagðist hér mundu bráðum mæla fyrir frv. um umboðsmann barna. Þar verður vissulega tekið á hluta þessa vanda. Og það verður vissulega að gera stórátak í skólamálum. Þá get ég ekki stillt mig um að minnast á það að á síðasta þingi þegar hér var grunnskólafrv. til umræðu var þingsalur nánast tómur og einungis þeir sem líklega áttu sæti í menntmn. deildarinnar voru hér til þess að taka til máls og hlusta á umræður. Engir aðrir voru viðstaddir eins og svo gjarnt er þegar mál sem snerta mjúku málin, eins og við kannski köllum þau, eða málefni barna og kvenna eru til umræðu. En hversu mikið sem við bætum skólana og hversu mikla áherslu sem við leggjum á það, og það er vissulega brýn þörf á að svo verði gert, þá megum við ekki gleyma því að skólarnir geta aldrei tekið við hlutverki fjölskyldunnar, fyrir utan að við mundum ekki vilja það þó það væri hægt. Þeir munu aldrei koma í staðinn fyrir þann tilfinningalega bakhjarl sem heimilið er hverju barni. Hversu vel sem kennarar eru menntaðir, hversu mikið sem þeir leggja sig fram við einstaklingshjálp og alúð þá mun það aldrei koma í stað heimilis. Þess vegna er allt það sem styrkt getur heimilið líka mikið nauðsynjamál. Við þurfum ekkert að tíunda hér langa vinnudaginn, lágu tekjurnar, tvær fyrirvinnur o.s.frv., allt það sem gerir það að verkum að foreldrar hafa allt of lítinn tíma með börnum sínum og það liggur í augum uppi að einstæðir foreldrar hafa þeim mun minni tíma en þar sem tveir eru til staðar. En það er þó athyglisvert að allir skuli gera ráð fyrir því að börn einstæðra foreldra fái minna atlæti en börn sambýlisfólks eða hjóna. Það er greinilega ekki reiknað með hinum aðilanum. Ef fólk er ekki í sambúð þá er eins og ekki sé reiknað með að þessi börn eigi feður. Það er kannski eitthvað sem við þyrftum í almenningsáliti og umræðu að reyna með öllum ráðum að breyta að feður, sem ekki búa á sama heimili og börn þeirra, séu ábyrgari fyrir umönnun þeirra og velferð.
    En það er ljóst að fjöldi íslenskra barna er eftirlitslaus meiri hluta dagsins. Við vitum að skóladagur er hér stuttur, börn dvelja þar aðeins hluta úr degi og það samræmist engan veginn vinnutíma foreldra. Það kom fram í skýrslu landlæknis, sem ég og fleiri höfum oft gert hér að umtalsefni, að milli 60 og 70% barna á aldrinum 7 -- 12 ára eru eftirlitslaus heima þann tíma dagsins sem þau eru ekki í skóla. Þetta er auðvitað óviðunandi ástand. Þetta hefur tengst mörgum málum. Þetta kom til umræðu hér þegar verið var að ræða um skólamáltíðir, þegar verið var að ræða um tannskemmdir, um umferðarslys, sem eru miklu tíðari hér en annars staðar. Allt ber þetta að sama

brunni, að þessi einvera barnanna leiðir til svo margs ills.
    Í umræðu í fjölmiðlum undanfarið, sem ég veit svo sem ekki enn þá hvað hefur við mikil rök að styðjast en það er alla vega athyglisverð umræða, hefur íþróttakennari við Kennaraháskóla Íslands vakið athygli á því að líkamlegt atgervi barna fari minnkandi og hann kennir um því að þau leiki sér ekki eins mikið og þau hafi gert. Þau kunni ekki hópleiki og þroska sé í rauninni haldið í skefjum vegna þess að þau hreyfi sig ekki nóg, leiki sér ekki nóg. Margir telja að börn eyði allt of miklum tíma fyrir framan sjónvarpsskerm, annaðhvort við að horfa á myndbönd eða sjónvarp. Ég vil minna á það, og það tengist auðvitað málþroska þeirra, að allt of stór hluti þess efnis sem er á boðstólum fyrir börn er á erlendum tungumálum. Ég minni á að ég hef tvisvar borið fram fyrirspurnir hér á Alþingi um barnaefni í fjölmiðlum. Það eru ógnvekjandi tölur sem þar koma fram. Þar kemur fram að barnaefni í þessum sterka fjölmiðli, sjónvarpi, er aðallega erlendar teiknimyndir sem ætlaðar eru börnum. Þegar kemur að unglingunum eru helst á boðstólum myndbönd sem eru til þess að auglýsa plötur, þ.e. svokölluð poppmyndbönd. Það gefur auga leið að ekki er þetta það vænlegasta efni sem fyrirfinnst til þess að auka þroska barna.
    Væntanlega gefast tækifæri til þess að ræða þessi mál ítarlega hér fljótlega. Auðvitað eru oft tækifæri til að ræða sérstaklega málefni barna vegna þess að við megum ekki gleyma því að flestar ákvarðanir hafa með einum eða öðrum hætti áhrif á líf barna. Við getum því aldrei tekið þau og sett þau í sérhólf og sagt að það séu einungis örfá mál sem þau snerta. Ég vil benda á að í gærkvöldi var í sjónvarpnu mjög athyglisverður þáttur þar sem tekið var meðferðar það vandamál þegar börn borga öðrum börnum fyrir að vernda sig gegn ofbeldi. Bara það að svona mál skuli koma upp og vera tekið til umræðu í sjónvarpi sýnir okkur náttúrlega það að ástandið hér er stóralvarlegt. Hv. 13. þm. Reykv. orðaði það þannig áðan að við stæðum á krossgötum og ég vona svo sannarlega að það verði ekki örlög okkar, eins og hún sagði að hefðu orðið örlög dönsku þjóðarinnar, að hún hefði verið komin svo langt frá krossgötunum að ekki varð snúið við aftur.
    Í þessum þætti í gær talaði m.a. hjúkrunarfræðingur sem iðulega hefur komið fram í fjölmiðlum til þess að ræða málefni barna og benda á þeirra aðstæður og skoðanir hennar og málflutningur er allrar athygli verður. Hún hefur mikla þekkingu á þessum málum og lætur sig þau miklu varða og alvara hennar og þungi þegar hún talar um þessi mál fer ekki fram hjá neinum sem á mál hennar hlýðir. Læt ég það verða lokaorð mín nú að vonandi heyrðum við fleiri raddir eins og hennar og að það væri betur eftir þeim hlustað.
    Ég vil enda á því að þakka aftur fyrir undirtektir við þetta mál, sem auðvitað leysir einungis örlítinn vanda, og þakka þeim sem hér hafa tekið til máls.