Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Meðal þeirra atriða sem fjallað er um í þeim sáttmála sem hér er leitað heimildar til að staðfesta og fullgilda fyrir Íslands hönd eru ákvæði um staðarmörk sveitarfélaga. Það segir svo í 5. gr. sáttmálans, með leyfi virðulegs forseta:
    Yfirskrift greinarinnar er: ,,Vernd staðarmarka sveitarfélaga``.
    ,,Ekki skal gera breytingar á staðarmörkum sveitarfélaga án þess að leita fyrst álits viðkomandi sveitarfélaga, svo sem með almennri atkvæðagreiðslu þar sem lög leyfa.``
    Með þessu ákvæði virðist mér að komið sé til móts við það sjónarmið sem hv. 2. þm. Vestf. lýsti hér áðan og reyndar er vel kunnugt að í okkar sveitarstjórnarlöggjöf er þessu sjónarmiði vel til skila haldið.
    En ég vildi, virðulegi forseti, beina því til hv. þingheims að um þetta atriði og önnur sem að þessu lúta væri mjög heppilegt að fjallað yrði í hv. utanrmn. þegar hún fjallar um málið.