Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að bregðast svo vel við þessari athugasemd, en það orðalag sem notað er á 2. bls. um 5. gr. er kannski ástæða þess að ég spurði, vegna þess að það má mjög deila um hvað felst í orðinu ,,samráð``. Samráð hefur af sumum verið túlkað á þann veg að báðir aðilar þyrftu þá að ná samkomulagi. Ef sú túlkun er til staðar verða sveitarfélög ekki sameinuð gegn vilja þeirra verði þessi sáttmáli undirritaður.
    Ég hallast að því að orðið ,,samráð`` hafi enga merkingu þarna nema sá sé skilningurinn að vilji beggja þurfi að vera til staðar. (Gripið fram í.) Ég vek athygli á því að samþykkt þessa samnings er þá jafnframt ákvörðunartaka um það að nema úr gildi ákvæði í núgildandi lögum um fjölmennismörk í sveitarfélögum. Ég leggst ekki gegn því en mér þætti vænt um það ef ráðherra treystir sér til að tala mjög skýrt um það hugtak, hugtakið ,,samráð``, því að á það mun vafalaust reyna fyrir dómstólum síðar meir hver merking þess sé.