Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. 11. þm. Reykn. stuðning við þá tillögu sem hér er flutt. Ég tek það fram að ég tel ástæðu til þess að hv. utanrmn. kanni þær ábendingar sem hann kom hér með í sinni ræðu. Það er álit þeirra lögfræðinga sem um málið hafa fjallað af hálfu utanrrn. og dómsmrn. að lögin um skráningu og meðferð persónuupplýsinga frá 1989 nr. 121 uppfylli skilyrðin í samningnum. Það er mjög mikilvægt að við fullgildum þennan samning og að sjálfsögðu ekki síður mikilvægt að við gætum þess að íslensk lög og framkvæmd þeirra séu í fyllsta samræmi við hann.
    En ég leyfi mér að benda á, virðulegur forseti, að í þessum samningi er fyrst og fremst fjallað um vinnslu og úrvinnslu gagna og upplýsinga um persónuhagi manna sem fara milli landa og vinnslu í öðru landi fremur en það sem innan lands er. Það er líka ástæða til að vekja athygli á því að skráning upplýsinga er eitt, vélræn úrvinnsla þeirra og birting annað. En með þessu geri ég alls ekki lítið úr þeim ábendingum sem hér hafa fram komið, tek undir það að það sé æskilegt að hv. utanrmn. kveðji til sérfróða menn þegar hún fjallar um málið.